Aðalráðstefna
Að næra og gefa vitnisburð ykkar
Aðalráðstefna október 2022


Að næra og gefa vitnisburð ykkar

Ég býð ykkur að leita tækifæra til að gefa vitnisburð ykkar í orði og verki.

Aðfaraorð

Mótandi atvik í lífinu gerast oft og óvænt, jafnvel þegar við erum enn ung. Ég vil miðla sögu um framhaldsskólanema, Kevin, sem var valinn til að sækja leiðtogaviðburð nemenda út á land, með hans eigin orðum.

„Röðin kom að mér og formlega útlítandi ritarinn sem annaðist skráningar spurði til nafns. Hún leit á listann sinn og sagði: ‚Þú ert sem sagt pilturinn frá Utah.‘

‚Áttu við að ég sé sá eini?‘ spurði ég.

‚Já, sá eini.‘ Hún rétti mér nafnspjald með Utah prentað fyrir neðan nafnið mitt. Þegar ég smellti því á mig, fannst mér ég vera brennimerktur.

Ég tróð mér í hótellyftuna, ásamt fimm öðrum framhaldsskólanemum sem báru nafnspjöld eins og ég. ‚Hey, þú ert frá Utah. Ertu mormóni?‘ spurði einn nemandinn.

Mér fannst ég utangátta með öllum þessum nemendaleiðtogum hvaðanæva að úr landinu. ‚Já,‘ viðurkenndi ég hikandi.

‚Það eruð þið sem trúið á Joseph Smith, sem sagðist hafa séð engla. Ekki trúið þið því í raun og veru?‘

Ég vissi ekki hvað ég átti að segja. Nemendurnir í lyftunni störðu allir á mig. Ég var nýkominn og nú þegar töldu allir að ég væri öðruvísi. Ég fór í varnarstöðu, en sagði svo: ‚Ég veit að Joseph Smith var spámaður Guðs.‘

‚Hvaðan kom þetta eiginlega?‘ velti ég fyrir mér. Ég vissi ekki að ég hefði þetta í mér. En orðin hljómuðu sönn.

‚Já, mér var sagt að þið væruð öll trúaðir klikkhausar,‘ sagði hann.

Eftir það varð óþægileg þögn þegar dyr lyftunnar opnuðust. Þegar við tókum saman farangur okkar, gekk hann hlæjandi niður eftir ganginum.

Síðan spurði rödd aftan við mig: ‚Hey, eiga mormónar ekki annars konar Biblíu?‘

Ó, nei. Ekki aftur. Ég sneri mér við og sá þar annan nemanda sem hafði verið í lyftunni með mér, Christopher.

‚Hún heitir Mormónsbók,‘ sagði ég og vildi helst hætta að tala um þetta. Ég tók töskurnar mínar og tók að ganga eftir ganginum.

‚Er það bókin sem Joseph Smith þýddi?‘ spurði hann.

‚Já,‘ svarði ég. Ég hélt áfram að ganga og vonaðist til þess að forðast vandræði.

‚Veistu hvernig ég get fengið eintak?‘

Skyndilega barst mér ritningarvers sem ég hafði lært í trúarskóla. ‚Ég fyrirverð mig ekki fyrir [fagnaðarerindi Jesú Krists].‘1 Þegar þessi orð komu í hugann, varð ég skömmustulegur yfir því að hafa orðið svo vandræðalegur.

Þetta ritningarvers yfirgaf mig ekki alla vikuna. Ég svaraði eins mörgum spurningum um kirkjuna og ég gat og eignaðist marga vini.

Ég komst að því að ég var stoltur yfir trú minni.

Ég gaf Christopher eintak af Mormónsbók. Hann skrifaði mér síðar að hann hefði boðið trúboðunum í heimsókn.

Ég lærði að verða ekki vandræðalegur yfir því að gefa vitnisburð minn.“2

Hugrekki Kevins til að miðla vitnisburði sínum er mér innblástur. Þetta er hugrekki sem trúfastir meðlimir kirkjunnar um allan heim sýna endurtekið á hverjum degi. Þegar ég miðla hugsunum mínum, býð ég ykkur að ígrunda þessar fjórar spurningar:

  1. Veit ég og skil hvað vitnisburður er?

  2. Veit ég hvernig ég get gefið vitnisburð minn?

  3. Hvað hindrar mig í að miðla vitnisburði mínum?

  4. Hvernig viðheld ég vitnisburði mínum?

Veit ég og skil hvað vitnisburður er?

Vitnisburður ykkar er afar dýrmæt eign og er oft tengdur við djúpar, andlegar tilfinningar. Þessar tilfinningar berast yfirleitt hljóðlega og þeim hefur verið lýst sem „[lágri, kyrrlátri röddu.]“3 Hann er trú ykkar á eða vitneskja um sannleika sem gefinn er sem andlegt vitni, með áhrifum heilags anda. Að öðlast þetta vitni, mun breyta talsmáta ykkar og atferli. Lykilatriði vitnisburðar ykkar, sem heilagur andi staðfestir, eru meðal annars:

  • Guð er himneskur faðir ykkar, þið eruð barn hans. Hann elskar ykkur.

  • Jesús Kristur lifir. Hann er sonur hins lifandi Guðs og frelsari ykkar og lausnari.

  • Joseph Smith er spámaður Guðs, kallaður til að endurreisa kirkju Jesú Krists.

  • Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er endurreist kirkja Guðs á jörðinni.

  • Hin endurreista kirkja Jesú Krists nýtur leiðsagnar lifandi spámanns á okkar tíma.

Veit ég hvernig ég get gefið vitnisburð minn?

Þið gefið vitnisburð ykkar þegar þið miðlið öðrum ykkar andlegu tilfinningum. Sem meðlimir kirkjunnar, fáið þið tækifæri til að gefa munnlegan vitnisburð, bæði á formlegum kirkjusamkomum og óformlega, augliti til auglitis við fjölskyldu, vini og aðra.

Önnur leið til að miðla vitnisburði ykkar er með réttlátri breytni. Vitnisburður ykkar um Jesú Krist er ekki einungis það sem þið segið – hann er það sem þið eruð.

Í hvert sinn sem þið tjáið vitnisburð ykkar með orðum eða sýnið í verki hollustu ykkar til að fylgja Jesú Kristi, þá bjóðið þið öðrum að „[koma] til Krists.“4

Meðlimir kirkjunnar standa sem vitni Guðs, alltaf, í öllu og alls staðar.5 Þau tækifæri til að gera þetta í hinum stafræna eimi, með því að nota eigið hvetjandi efni eða deila upplífgandi efni annarra, eru óendanleg. Við berum vitni þegar við elskum, miðlum og bjóðum, jafnvel á netinu. Tilgangur innleggja ykkar á Twitter, einkaskilaboða ykkar og athugasemda, mun verða æðri og helgari, þegar þið notið samfélagsmiðla líka til að sýna hvernig fagnaðarerindi Jesú Krists mótar líf ykkar.

Hvað hindrar mig í að miðla vitnisburði mínum?

Meðal þess sem gæti staðið í vegi þess að við miðlum vitnisburði okkar er óvissa um hvað skuli segja. Matthew Cowley, fyrrum postuli, miðlaði þessari upplifun þegar hann fór í fimm ára trúboð til Nýja-Sjálands, 17 ára gamall:

„Ég mun aldrei gleyma bænum föður míns daginn sem ég fór. Ég hef ekki heyrt fallegri blessun allt mitt líf. Lokaorð hans til mín á lestarstöðinni voru: ‚Drengur minn, þú munt fara í þetta trúboð; þú munt læra; þú munt reyna að búa þig undir að flytja ræður; og stundum þegar þú ert kallaður til og heldur að þú sért afar vel undirbúinn, munt þú rísa á fætur og hugur þinn tæmast gjörsamlega.‘ Ég hef upplifað það oftar en einu sinni.

Ég spurði: ‚Hvað gerir maður þegar hugurinn tæmist?‘

Hann svaraði: ‚Þú stendur þar og berð vitni af öllum sálar kröftum að Joseph Smith hafi verið spámaður hins lifanda Guðs og hugsanir munu flæða í huga þinn og orð frá munni þínum … í hjörtu allra sem hlýða á.‘ Hugur minn, sem var að mestu leiti tómur í … trúboðinu, … veitti mér tækifæri til að gefa vitnisburð um mesta atburð í heimssögunni eftir krossfestingu meistarans. Reynið þetta einhvern tíma, piltar og stúlkur. Ef þið hafið ekkert annað að segja, vitnið þá um að Joseph Smith var spámaður Guðs og þá mun kirkjusagan flæða í huga ykkar.“6

Dallin H. Oaks forseti miðlaði á svipaðan hátt: „Stundum [er] auðveldara að hljóta vitnisburð standandi við að gefa hann, en á hnjánum við að biðja um hann.“7 Andinn ber vitni jafnt þeim sem prédikar og þeim sem meðtekur.

Önnur hindrun, eins og frásögn Kevins lagði áherslu á, er ótti. Páll skrifaði Tímóteusi:

„Því að ekki gaf Guð okkur anda hugleysis heldur anda máttar og kærleiks. …

Fyrirverð þig því ekki fyrir vitnisburðinn um Drottin vorn.“8

Tilfinningar ótta koma ekki frá Drottni, heldur yfirleitt frá andstæðingnum. Að hafa trú, eins og Kevin, mun gera ykkur kleift að sigrast á þessum tilfinningum og miðla því frjálslega sem býr í hjarta ykkar.

Hvernig viðheld ég vitnisburði mínum?

Ég trúi því að vitnisburður sé okkur eðlislægur, þó kenndi Alma að við þyrftum að næra vitnisburð okkar af mikilli umhyggju til að viðhalda honum og þroska hann að fullu.9 Þegar við gerum það, „mun [hann] skjóta rótum, vaxa upp og bera ávöxt.“10 Án þess, „visnar [hann] upp.“11

Hver einasti meðlimur Æðsta forsætisráðsins hefur veitt okkur leiðsögn um það hvernig við getum viðhaldið vitnisburði.

Henry B. Eyring forseti kenndi okkur alúðlega: „Að næra sig á orði Guðs, flytja hjartnæmar bænir og hlýða boðorðum Guðs, verður að gera oft og reglubundið til þess að vitnisburður okkar fái vaxið og varðveist.“12

Dallin H. Oaks forseti minnti okkur á að til að halda vitnisburði okkar „þurfum við að meðtaka sakramentið vikulega (sjá K&S 59:9) til þess að verðskulda hið dýrðlega loforð um að ‚andi hans sé ætíð með [okkur]‘ (K&S 20:77).“13

Og nýlega leiðbeindi Russell M. Nelson forseti vingjarnlega:

„Nærið [vitnisburð ykkar] með sannleika. …

Nærið ykkur með orðum fornra og nútíma spámanna. Biðjið Drottin að kenna ykkur að hlýða betur á hann. Verjið meiri tíma í musterinu og vinnið í ættarsögu.

… Setjið vitnisburð ykkar í hæsta forgang.“14

Lokaorð

Kæru bræður og systur, ég lofa því að þegar þið öðlist frekari skilning á því hvað vitnisburður er og þegar þið miðlið honum, munuð þið sigrast á hindrunum óvissu og ótta, sem gerir ykkur kleift að næra og viðhalda þessari dýrmætu eign, vitnisburði ykkar.

Við erum blessuð að eiga óteljandi fordæmi fornra og nútíma spámanna sem hafa hugdjarfir gefið sinn vitnisburð.

Í kjölfar dauða Krists, vitnaði Pétur:

„Yður öllum [sé] kunnugt … að í nafni Jesú Krists frá Nasaret, þess er þér krossfestuð, en Guð uppvakti frá dauðum, … stendur þessi maður heilbrigður fyrir augum yðar. …

Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld sem getur frelsað okkur.“15

Í kjölfar trúarræðu Alma, sagði Amúlek af krafti: „Ég mun sjálfur vitna fyrir ykkur, að þetta er sannleikur. Sjá, ég segi ykkur, að ég veit, að Kristur mun koma meðal mannanna barna … og hann mun friðþægja fyrir syndir heimsins, því að Drottinn Guð hefur sagt það.“16

Joseph Smith og Sidney Rigdon báru vitni eftir að hafa séð hinn upprisna frelsara í dýrlegri sýn:

„Og nú, eftir þá mörgu vitnisburði, sem gefnir hafa verið um hann, er þetta vitnisburðurinn, síðastur allra, sem við gefum um hann: Að hann lifir!

Því að við sáum hann, já, Guði til hægri handar, og við heyrðum röddina, sem bar vitni um, að hann er hinn eingetni föðurins.“17

Bræður og systur, ég býð ykkur að leita tækifæra til að gefa vitnisburð ykkar í orði og verki. Slíkt tækifæri barst mér nýlega í lok fundar með borgarstjóra höfuðborgar í Suður-Ameríku, á skrifstofu hans ásamt ráðamönnum hans. Þar sem við höfðum lokið á hjartnæmum nótum, fannst mér, þótt ég væri hikandi, að ég ætti að miðla vitnisburði mínum. Ég fylgdi þessari hvatningu og bar vitni um að Jesús Kristur væri sonur hins lifanda Guðs og frelsari heimsins. Allt breyttist á þeirri stundu. Andinn í herberginu var tvímælalaus. Svo virtist sem allir hefðu verið snertir. „Huggarinn … ber vitni um föðurinn og soninn.“18 Ég er þakklátur fyrir að hafa talið í mig kjark til að gefa vitnisburðinn minn.

Þegar slík tækifæri berast, grípið þau þá og takið þeim opnum örmum. Þið munuð finna hlýju huggarans hið innra, þegar þið gerið það.

Ég býð fram minn vitnisburð og vitna fyrir ykkur – Guð er himneskur faðir okkar, Jesús Kristur lifir og Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er kirkja Guðs á jörðinni í dag, leidd af okkar ástkæra spámanni, Russell M. Nelson forseta. Í nafni Jesú Krists, amen.