Aðalráðstefna
Forskrift lærisveinshlutverks
Aðalráðstefna október 2022


Forskrift lærisveinshlutverks

Að læra um Krist og hætti hans, gerir okkur kleift að þekkja og elska hann.

Forskrift trúar

Nú í morgun sáu tvö barna okkar og þrjú barnabarna okkar í Norður-Ameríku og um helmingur allra íbúa heimsins bjarta sólina rísa tignarlega í austri. Hin þrjú börnin okkar og sjö barnabörn í Afríku og hinn helmingur íbúa heimsins sáu myrkrið smám saman læðast yfir, þegar sólin settist á sjóndeildarhringnum í vestri.

Þessi endalausa endurtekning nýs dags og nætur, er ein dagleg áminning um þann veruleika sem stjórnar lífi okkar og við fáum ekki breytt. Þegar við virðum og lögum okkur að því sem gera á varðandi þennan eilífa veruleika, upplifum við innri frið og sátt. Þegar við gerum það ekki, er okkur ekki rótt og hlutirnir ganga ekki eins og við væntum.

Dagur og nótt er eitt dæmi um forskrift sem Guð hefur gefið öllum sem einhvern tíma hafa lifað á jörðinni, varðandi hluti eins og þeir eru í raun og veru. Það er algildur sannleikur um okkar mannlegu tilveru sem við getum ekki beygt eða sveigt í samræmi við eigin óskir og komist upp með það. Ég er minntur á þetta í hvert sinn sem ég flýg frá Afríku á aðalráðstefnu, er líkamsklukkan þarf að seinka sér um 10 klukkustundir á einum degi.

Alltaf þegar veitum því athygli, sjáum við að himneskur faðir hefur gefið okkur nægilegt vitni um sannleikann, til að við fáum stjórnað okkur sjálfum og þekkt hann og notið blessana friðar og gleði.

Andi Drottins staðfesti með spámanninum Joseph Smith: „Og enn fremur mun ég gefa yður forskrift að öllu, svo að þér látið eigi blekkjast. Því að Satan fer um landið og hann kemur og blekkir þjóðirnar.“1

Andkristurinn Kóríhor féll fyrir slíkri blekkingu og trúði ekki á tilvist Guðs og komu Krists. Spámaðurinn Alma vitnaði fyrir honum: „Allir hlutir sýna fram á, að Guð er til. Já, jafnvel jörðin og allt, sem á henni er, já, og snúningur hennar, já, og einnig öll himintunglin, sem snúast á sinn reglubundna hátt, bera því vitni, að til er æðri skapari.“2

Þegar Kóríhor krafðist þess að fá tákn áður en hann tryði, olli Alma því að hann varð mállaus. Auðmjúkur vegna eymdar sinnar, játaði Kóríhor fúslega að hafa verið blekktur af djöflinum.

Við þurfum ekki að láta blekkjast. Kraftaverk vitsmunalífs er stöðugt fyrir sjónum okkur. Stutt stund við að virða fyrir sér og hugleiða undur himinhvolfsins, prýtt óteljandi stjörnum og vetrarbrautum, hvetur sál hins trúaða hjarta til að lýsa yfir: „[Minn Guð,] „þú mikill ert!“3

Já, Guð okkar himneski faðir lifir og hann birtist okkur alltaf á margvíslegan hátt.

Forskrift auðmýktar

Til að viðurkenna, trúa og lifa áfram í Guði, þarf hjarta okkar að vera móttækilegt fyrir anda sannleikans. Alma kenndi að á undan trú væri auðmýkt.4 Mormón bætti við að þeim sem ekki væri „hógvær og af hjarta lítillátur“ væri ómögulegt að hafa trú og von og öðlast anda Guðs.5 Benjamín konungur lýsti því yfir að hver sá sem setur dýrð heimsins í fyrirrúmi væri „óvinur Guðs“.6

Með því að láta skírast til að uppfylla allt réttlæti, jafnvel þótt réttlátur og heilagur væri, sýndi Jesús Kristur að auðmýkt frammi fyrir Guði væri grundvallareiginleiki lærisveina hans.7

Allir nýir lærisveinar þurfa að sýna auðmýkt frammi fyrir Guði í gegnum helgiathöfn skírnar. Þannig að: „Allir þeir, sem auðmýkja sig fyrir Guði og þrá að láta skírast, sem koma með sundurkramin hjörtu og sáriðrandi anda … skulu teknir með skírn inn í kirkju hans.“8

Auðmýkt beinir hjarta lærisveinsins til iðrunar og hlýðni. Andi Guðs er þá fær um að koma sannleika til þess hjarta, og hann mun komast þar inn.9

Það er skortur á auðmýkt sem stuðlar mest að uppfyllingu spádóms Páls postula á þessum síðustu dögum:

„Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir,

kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er.“10

Boð frelsarans um að fræðast um hann er boð um að hverfa frá því sem lokkar veraldlega og verða eins og hann er – hógvær og lítillátur í hjarta, auðmjúkur. Við getum þá gengist undir ok með honum og uppgötvað að það er létt – að lærisveinshlutverkið er ekki byrði heldur gleði, eins og Russel M. Nelson forseti hefur kennt okkur svo oft og fagurlega.

Forskrift kærleika

Að læra um Krist og hætti hans, gerir okkur kleift að þekkja og elska hann.

Með fordæmi sýndi hann að auðmýkt gerði okkur sannlega kleift að þekkja og elska Guð föður af allri sálu okkar og elska aðra eins og okkur sjálf, án þess að draga nokkuð af okkur. Þjónusta hans á jörðu, er hann lagði bæði eigin vilja og líkama á altarið, var forskrift að því að lifa eftir þessum reglum, sem fagnaðarerindi hans er byggt á. Báðar reglurnar eru út á við og snúast um það hvernig við tengjumst öðrum, ekki um að leita persónulegrar ánægju eða dýrðar.

Hin dásamlega kaldhæðni þess er sú, að þegar við einbeitum okkur að því að elska Guð og aðra, er okkur gert mögulegt að uppgötva okkar eigið sanna guðlega gildi, sem synir og dætur Guðs, með þeim fullkomna friði og gleði sem slíka upplifun hefur í för með sér.

Við verðum eitt með Guði og hvert öðru í kærleika og þjónustu. Þá getum við tekið á móti vitnisburði heilags anda um þessa hreinu ást, ávöxtinn sem Lehí talar um að sé „sætari en allt annað, sem [hann] hafði nokkru sinni áður bragðað.“11

Kórónan sem Kristur hlaut með því að gefa og gera allt sem í hans valdi stóð til koma þeirri forskrift á að elska föðurinn og elska okkur, var að hljóta allan mátt, jafnvel allt sem faðirinn á, sem er upphafning.12

Tækifæri okkar til að rækta í sálum okkar varanlegan kærleika til Guðs og náungans, hefst heima á þeim helgu venjum að tengjast föðurnum daglega í einkabæn og fjölskyldubæn, í nafni hins eingetna sonar hans og læra saman um þá bæði persónulega og með fjölskyldunni, halda hvíldardaginn heilagan saman og hafa musterismeðmæli og nota þau saman, eins oft og við getum.

Þegar við, hvert fyrir sig, vöxum að þekkingu og kærleika til föðurins og sonarins, vöxum við í þakklæti og kærleika til hvers annars. Hæfni okkar til að elska og þjóna öðrum utan heimilis okkar mun stóraukast.

Það sem við gerum á heimili okkar er þolraun varanlegs og gleðiríks lærisveinsdóms. Ljúfustu blessanir hins endurreista fagnaðarerindis sem ég og eiginkona mín, Gladys, höfum notið á heimili okkar, eiga rót í því að læra að þekkja og heiðra Guð á heimili okkar og miðla afkomendum okkar kærleika hans.

Forskrift þjónustu

Sé elska til Guðs og þjónusta við hvert annað ræktuð á heimilinu og þjónusta við aðra utan heimilisins, mun kærleikseiginleiki aukast með tímanum.

Þetta endurspeglar forskrift helgaðrar þjónustu í Guðs ríki, sem lögð er fram af lifandi spámönnum og postulum Drottins. Við verðum eitt með þeim.

Okkur er þá gert kleift, með þeim, að líta til Drottins í „öllum hugsunum,“ svo við [efumst] ekki“ og „[óttumst] ekki.“13

Líkt og spámenn og postular Drottins, getum við sótt fram með „brjóst … fullt af kærleika til allra manna og … heimamanna trúarinnar [og látið] dyggðir prýða hugsanir [okkar] linnulaust, og þá mun traust [okkar] vaxa og styrkjast í návist Guðs og kenning prestdæmisins falla á sál [okkar] sem dögg af himni.“

Með lifandi spámönnum og postulum Drottins, getum við líka sýnt dyggð og trú sem styrkt eru með helgaðri þjónustu þar sem „heilagur andi verður [okkur] stöðugur förunautur, og veldissproti [okkar] óbreytanlegur veldissproti réttlætis og sannleika. Og yfirráð [okkar munu] verða ævarandi yfirráð og streyma til [okkar] án þvingana alltaf og að eilífu.“14 Því að þetta er fyrirheit áætlunar föðurins. Í nafni Jesú Krists, amen.