Aðalráðstefna
Kraftur Guðs orðs
Aðalráðstefna október 2022


Kraftur Guðs orðs

Það býr kraftur í orðum fornra og nútíma spámanna, einmitt vegna þess að orð þeirra eru orð Drottins.

Í Mormónsbók lesum við um mikilvæga ákvörðun sem spámaðurinn Alma tók í ástsælu versi ritningar Áður en þið rifjið upp þessi kunnuglegu orð, vinsamlega íhugið þá með mér þær erfiðu aðstæður sem þessi ákvörðun var tekin við.

Hópur fólks, sem kallaði sig Sóramíta, hafði skilið sig frá Nefítum1 og safnast saman á landamærum landsins nálægt Lamanítum.2 Nefítar höfðu nýlega sigrað Lamaníta í slíkum bardaga að annað eins var óþekkt, þar sem tugir þúsunda féllu,3 og „mjög [var óttast] að Sóramítar tækju upp samskipti við Lamaníta og að það yrði Nefítum mikill missir.“4 Auk þess að hafa áhyggjur af stríði, komst Alma að því að Sóramítar, sem „hafði … verið boðað orð Guðs,“5 væru að að snúa sér að skurðgoðadýrkun og „rangsnúa vegum Drottins.“6 Allt þetta hvíldi þungt á hjarta Alma og olli honum „mikilli sorg.“7

Þegar Alma fann sjálfan sig í þessum flóknu og krefjandi kringumstæðum, velti hann fyrir sér hvað gera skyldi. Í ákvörðun hans lesum við orð sem varðveitt voru til að hvetja okkur og leiðbeina þegar við tökumst á við flóknar og krefjandi aðstæður okkar tíma.8

„Og þar eð boðun orðsins hafði mikla tilhneigingu til að leiða fólkið í réttlætisátt – já, það hafði haft kröftugri áhrif á huga fólksins en sverðið eða nokkuð annað, sem fyrir það hafði komið – þá áleit Alma ráðlegast að þér létu reyna á kraft Guðs orðs.“9

Meðal margra mögulegra lausna, leiddi trú Alma þá til að treysta á kraft orðsins. Það er engin tilviljun að nokkrar af þeim kröftugustu prédikunum sem fyrirfinnast í ritningunni, hafi verið fluttar strax í kjölfar þeirrar ákvörðunar. Í kapítulum 32 og 33 í Alma, lesum við meistaralega prédikun hans um trú á Drottin Jesú Krist og í kapítula 34 finnum við mikilvægar kenningar Amúleks um friðþægingu Jesú Krists.

Myndskreyting af krafti Guðs orðs

Reyndar lesum við gegnum alla ritninguna um kraftaverkablessanir sem úthellt hafa verið yfir þá sem hafa valið að láta reyna á kraft orðs Guðs í eigin lífi.10 Ég býð ykkur að hugleiða þrjú dæmi með mér þegar við beinum athyglinni að Mormónsbók – bók sem Russell M. Nelson forseti lýsti sem „okkar síðari daga leiðarvísi til að komast af.“11

Fyrsta: Alma minnti fólk sitt á hvernig Drottinn bjargaði feðrum þess: „Sjá, hann breytti hjörtum þeirra. Já, hann vakti þá af djúpum svefni, og þeir vöknuðu til Guðs. Sjá, þeir voru mitt í niðamyrkri, en samt voru sálir þeirra uppljómaðar af ljósi hins ævarandi orðs.“12 Kannski líður ykkur eins og þið séuð mitt í myrkri. Þráir sál ykkar uppljómun? Ef svo er, vinsamlega látið þá reyna á kraft Guðs orðs.

Annað: Þegar Ammon hugleiddi trúarumbreytingu Drottins á Lamanítum, sem hann varð vitni að sem trúboði, sagði hann: „Sjá, hve margar þúsundir bræðra okkar hann hefur leyst undan kvölum heljar, og þeir fara að syngja endurleysandi elsku, og allt er þetta fyrir kraft orðs hans, sem í okkur er.13 Bræður og systur, það eru svo margir á meðal okkar sem þrá að einhver sem þau elska sé vakinn til að syngja endurleysandi elsku. Við skulum hafa hugfast í öllu sem við gerum að láta reyna á kraft Guðs orðs, sem í okkur býr.

Þriðja: Í Bók Helamans lesum við: „Já, við sjáum, að hver sem vill, getur höndlað orð Guðs, sem er lifandi og kröftugtog tætir sundur alla klæki og snörur og brögð djöfulsins og leiðir [karl og konu] Krists á hina kröppu og þröngu braut yfir það ævarandi djúp vansældar … og skipar sálum þeirra … Guði til hægri handar í ríki himins.“14 Reynið þið að tæta í sundur alla klæki og snörur og brögð djöfulsins, sem eru svo ríkjandi í heimspeki okkar tíma? Þráið þið að sjá í gegnum ský ringulreiðar og ofgnóttar upplýsinga, til að einblína meira á sáttmálsveginn? Vinsamlega látið reyna á kraft Guðs orðs.

Sem einn þeirra sem hefur breyst fyrir kraft orðsins, ber ég persónulega vitni um þann sannleika, sem okkar ástkæri spámaður, Russell M. Nelson forseti, kenndi svo dásamlega: „Fyrir mér er kraftur Mormónsbókar mest áberandi í þeirri miklu breytingu sem verður í lífi þeirra sem lesa hana ,í hjartans einlægni, með einbeittum huga og í trú á Krist.‘ Margir trúaðir segja skilið við margt sem eitt sinn var þeim kært, til að lifa eftir kenningum þessarar bókar. … Hún mun verða ykkar áhrifaríkasta verkfæri til að leiða sálir til Jesú Krists.“15

Uppspretta kraftsins

Með þessum og öðrum samlíkingum, erum við vitni að krafti orðs Guðs í lífi barna hans. Við gætum spurt: Hver er uppspretta þess krafts eða máttar?

Þegar við íhugum þessa spurningu er nauðsynlegt að muna að merking hugtaksins „orðið,“ eins og það er notaði í ritningunum, er hið minnsta tvíþætt. Öldungur David A. Bednar kenndi nýlega að „eitt nafna Jesú Krists er ,Orðið‘“ og að „kenningar frelsarans, eins og þær eru skráðar í hinum helgu ritningum, eru líka ,orðið‘.“16

Spámaðurinn Nefí útskýrði sambandið á milli þessara tveggja merkinga þegar hann ritaði: „Hlýðið nú á þessi orð og trúið á Krist. Og ef þér trúið ekki á þessi orð, þá trúið á Krist. Og ef þér trúið á Krist, þá munuð þér trúa á þessi orð, því að þau eru orð Krists; og hann hefur látið mér þau í té.“17 Þannig lærum við að það býr kraftur í orðum fornra og nútíma spámanna, einmitt vegna þess að orð þeirra eru orð Drottins.18 Kæru vinir, að meðtaka þennan eilífa sannleika, er nauðsynlegt til að komast af andlega á síðari tímum,19 þegar, eins og spáð hefur verið, það er „hungur í [landinu], ekki hungur eftir brauði né þorsta eftir vatni, heldur eftir því að heyra orð Drottins.“20

Þegar uppi er staðið, þá er kraftur orðs Guðs Drottinn Jesú Kristur.21 Þegar við skiljum þetta betur, getum við séð eilíf mikilvæg tengsl á milli hlutverks spámannanna og lausnarans sjálfs. Elska okkar til hans, þrá okkar að vera í nálægð hans og að dvelja í elsku hans,22 mun knýja okkur til að láta reyna á kraft orðsins í eigin lífi – bæði kraftinn sem streymir frá honum, sem okkar persónulega frelsara og lausnara23 og kraftinn sem streymir frá honum fyrir tilstilli orða „[hinna] útvöldu Drottins.“24 Við munum komast að því, að eins gagnlegar og aðrar heimildir kunna að vera í lærdómi okkar á frelsaranum og orðum spámanna hans, þá mega þær aldrei koma í stað þeirra. Við verðum að drekka oft og mikið,25 beint úr uppsprettunni.26

Ég tjái elsku mína til ykkar allra, bræðra minna og systra. Í þeirri elsku bið ég ykkur að upplifa kraft orðs Guðs, einkum gegnum Mormónsbók, á hverjum degi lífs ykkar. Þegar þið gerið það, endurtek ég þetta spámannlega loforð Russells M. Nelson forseta: „Ef þið lesið Mormónsbók með bæn í huga daglega, þá munið þið taka betri ákvarðanir–daglega. Ég lofa að er þið íhugið það sem þið lærið, þá munu gáttir himins opnast og þið munið hljóta svör við spurningum ykkar og leiðsögn fyrir líf ykkar. Ég lofa ykkur því að er þið sökkvið ykkur daglega í Mormónsbók, þá getið þið verið vernduð gegn vonsku þessara tíma.“27

Ég ber vitni um að himneskur faðir hefur gefið okkur orðið, vegna þess að hann elskar okkur fullkomlega og vill að sérhvert okkar snúi heim til að lifa með honum að eilífu. Ég ber vitni um „Orðið [sem] varð hold,“28 já, Jesú Krist, og um mátt hans til að frelsa og endurleysa okkur. Ég veit að kraftur hans streymir gegnum orð spámanna hans, bæði fyrr og nú.

Það er bæn hjarta míns að við megum búa yfir visku og hógværð til að halda okkur fast29 að orði Guðs og halda okkur á sáttmálsveginum sem leiðir til upphafningar og eilífs lífs.30 Megum við stöðugt upplifa hina máttugu breytingu sem hverju okkar stendur til boða með krafti orðsins.31 Í nafni Jesú Krists, amen.