Aðalráðstefna
Verið fullkomin í honum
Aðalráðstefna október 2022


Verið fullkomin í honum

Fullkomnun okkar er einungis möguleg fyrir náð Guðs.

Himneskur faðir okkar og frelsari, Jesús Kristur, hafa máttinn til að frelsa og umbreyta okkur. Þeir geta hjálpað okkur að verða eins og þeir eru.

Fyrir nokkrum árum, átti Aron, ungt barnabarn okkar, við heilsuvanda að stríða. Hann var sífellt þreyttur, marðist auðveldlega og var ekki heilbrigður að sjá. Eftir rannsóknir, var hann greindur með blóðfrumuþurrð, sjúkdóm þar sem beinmergur hans hættir að framleiða rauð blóðkorn, hvít blóðkorn og blóðflögur. Án meðferðar og endanlegrar lækningar, gæti blóð hans ekki storknað almennilega eða barist við sýkingar, svo jafnvel minniháttar fall, meiðsli eða veikindi gætu orðið lífshættuleg.

Á tímabili fékk Aron blóðflögur og blóðgjafir reglubundið, til að halda honum frá hættu. Læknarnir útskýrðu að eina lækningin fyrir þennan sjúkdóm væri beinmergsígræðsla og að mestu líkurnar á að vel tækist til, væru ef systkini yrði beinmergsgjafi. Ef eitthvert systkina hans væri fullkominn merggjafi, þá gæti ígræðslan bjargað lífi hans. Bræður hans fjórir voru prófaðir og einn þeirra, Maxwell, passaði fullkomlega.

Þótt merggjafi passaði fullkomlega, þá voru miklar líkur á alvarlegum fylgikvillum sem fylgdu beinmergsígræðslu. Þetta ferli krafðist þess að frumum Arons í sýktum beinmerg hans yrði eytt með bæði lyfjameðferð og geislum, áður en hann þæði stofnfrumur frá beinmerg Maxwells, bróður síns. Aron yrði síðan að vera í einangrun í nokkrar vikur, vegna skerts ónæmiskerfis hans, og svo heima í nokkra mánuði í sérstakri meðferð, með takmörkunum og lyfjagjöf.

Vonast var til þess að niðurstaða ígræðslunnar yrði sú að líkami Arons myndi ekki hafna gjafafrumunum og að frumur Maxwells myndu smám saman framleiða í líkama Arons hin nauðsynlegu rauðu og hvítu blóðkorn og blóðflögurnar. Farsæl gjafaígræðsla veldur mjög afgerandi líkamlegum breytingum. Læknirinn útskýrði að hið merkilega væri að ef Aron fremdi glæp og skildi blóð eftir á glæpavettvanginum, gæti lögreglan handtekið Maxwell, bróður hans. Það væri vegna þess að blóð Arons kæmi frá gjafafrumum Maxwells og bæru erfðaefni Maxwells og þannig myndi það vera það sem eftir væri ævi hans.

Það að Aron bjargaðist fyrir blóð bróður síns, hefur vakið margar spurningar um friðþægingarblóð Jesú Krists og áhrif friðþægingar hans á okkur. Í dag langar mig að leggja áherslu á þá varanlegu, lífsgefandi breytingu sem verður er við leyfum Drottni að vinna kraftaverk sitt á okkur.1

Aron hafði sjálfur ekki það sem þurfti til að geta sigrast á sjúkdómnum. Líkami hans gat ekki framleitt þau blóðkorn sem voru nauðsynleg til að viðhalda lífi hans. Sama hvað hann gerði persónulega, þá gæti hann ekki læknað beinmerg sinn. Á sama hátt og Aron gat ekki læknað sig sjálfan, getum við ekki frelsað okkur sjálf. Sama hve megnug, menntuð, gáfuð eða sterk við erum, þá getum við ekki hreinsað okkur af syndum okkar, umbreytt líkömum okkar í ódauðlega líkama eða upphafið okkur sjálf. Það er einungis mögulegt fyrir frelsara okkar Jesú Krist og algera friðþægingu hans. „Enginn annar vegur er til og ekkert annað nafn gefið undir himninum, sem frelsað getur manninn í Guðs ríki.“2 Það er friðþægingarblóð hans sem hreinsar okkur og helgar.3

Jafnvel þó Aron gæti ekki læknað sig sjálfan, þá þurfti hann að vera fús til að gera hvað sem læknarnir kröfðust af honum, svo að mergskiptin myndu virka – jafnvel mjög erfiða, krefjandi hluti. Þótt við getum ekki bjargað okkur sjálfum, þegar við lútum vilja Drottins og höldum sáttmála okkar, þá er leiðin opin fyrir endurlausn okkar.4 Líkt og í hinu undursamlega ferli, þar sem erfðaefnið í blóði Arons breyttist, þá geta hjörtu okkar breyst,5 mynd hans verið greypt í svip okkar,6 og við orðið ný sköpun í Kristi.7

Alma minnti fólkið í Sarahemla á hina fyrri kynslóð sem hafði snúist til trúar. Alma vísaði til föður síns og útskýrði að „fyrir trú hans varð gjörbreyting í hjarta hans.“8 Hann spurði því næst: „Hefur þessi gjörbreyting orðið í hjörtum yðar?“9 Það var ekki fólkið sjálft sem hafði breytt hjörtum sínum. Drottinn framkallaði hina raunverulegu breytingu. Alma var mjög skýr varðandi þetta atriði. Hann sagði: „Sjá, hann breytti hjörtum þeirra.“10 Þau „auðmýktu sig og lögðu traust sitt á hinn sanna, lifanda Guð. Og … voru [trú] allt til enda … [og] urðu … [hólpin].“11 Fólkið var fúst til að opna hjörtu sín og iðka trú og þá breytti Drottinn hjörtum þess. Þvílík umbreyting sem þar varð! Hugsið ykkur muninn á lífi beggja þessara manna að nafni Alma, fyrir og eftir að hjörtu þeirra breyttust.12

Við erum börn Guðs með konungleg örlög. Við getum breyst og orðið eins og hann og hlotið „fyllingu gleðinnar.“13 Satan myndi hins vegar vilja að við værum vansæl eins og hann er.14 Við getum valið hverjum við viljum fylgja.15 Þegar við fylgjum Satan, eflum við honum mátt.16 Þegar við fylgjum Guði, eflir hann okkur mátt.

Frelsarinn kenndi að við „[ættum að vera fullkomin].“17 Þetta getur verið yfirþyrmandi. Ég get greinilega séð persónulegan vanmátt minn og er sárlega meðvitaður um það hvað ég er langt frá fullkomnun. Við gætum átt það til að hugsa að við verðum að vera fullkomin sjálf, en það er ekki mögulegt. Þótt við fylgdum hverri tillögu í hverri sjálfshjálparbók í heiminum, þá myndi það ekki gerast. Það er einungis ein leið og eitt nafn sem gerir okkur kleift að ná fullkomnun. Við erum „[fullkomin gjörð] fyrir Jesú, meðalgöngumann hins nýja sáttmála, sem leiddi til lykta þessa fullkomnu friðþægingu með því að úthella sínu eigin blóði.“18 Fullkomnun okkar er einungis möguleg fyrir náð Guðs.

Getið þið ímyndað ykkur hve yfirþyrmandi það hefði verið fyrir barnabarn okkar, hann Aron, að halda að hann yrði sjálfur að skilja og framkvæma allar læknisfræðilegu aðgerðirnar sem tengdust ígræðslunni? Við ættum ekki að reikna með því að þurfa að gera það sem er frelsaranum einum mögulegt í hinu undraverða ferli fullkomnunar okkar.

Þegar Moróní lauk heimild sinni, kenndi hann: „Já, komið til Krists, fullkomnist í honum … Og ef þér hafnið öllu óguðlegu og elskið Guð af öllum mætti yðar, huga og styrk, þá bregst yður eigi náð hans, en fyrir náð hans náið þér fullkomnun í Kristi.“19 Hve huggandi og kröftugur sannleikur! Náð hans nægir mér. Náð hans nægir ykkur. Náð hans nægir öllum sem „[erfiða] og þunga [eru] hlaðin.“20

Með læknisfræðilegum aðgerðum, eins og hjá Aron, þá er alltaf einhver óvissa með niðurstöðurnar. Í raun, þá þurfti Aron aðra ígræðslu þegar aukaverkanir komu upp eftir þá fyrri. Sem betur fer, þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því að það muni gerast ef hjörtu okkar breytast andlega. Þegar við lifum samkvæmt vilja hans, fús til að „treysta í einu og öllu á verðleika hans, sem máttinn hefur til að frelsa,“21 þá er hundrað prósent öruggt að við hreinsumst fyrir blóð frelsarans og verðum endanlega fullkomnuð í honum. Hann er „Guð sannleikans og getur ekki logið.“22

Það er engin spurning að þetta breytingaferli getur tekið tíma og því lýkur ekki fyrr en eftir þetta líf, en loforðið er öruggt. Þegar uppfylling loforða Guðs virðist fjarri, getum við samt meðtekið þessi fyrirheit, vitandi að þau munu uppfyllast.23

Hin undursamlega breyting á heilsu Arons hefur fært fjölskyldu okkar mikla gleði. Ímyndið ykkur hina miklu gleði á himnum þegar miklar breytingar verða á sálum okkar.

Himneskur faðir og frelsari okkar, Jesús Kristur, elska okkur og hafa náðarsamlega lofað að breyta okkur og fullkomna. Þeir vilja gera það. Það kjarninn í verki þeirra og dýrð.24 Ég ber vitni um að þeir hafa kraftinn til að gera þetta, er við komum til þeirra í trú. Í nafni Jesú Krists, amen.