Aðalráðstefna
Heilshugar
Aðalráðstefna október 2022


Heilshugar

Við ættum að vera glaðlegir fylgjendur Jesú sem erum heilshugar í persónulegri vegferð okkar sem lærisveinar.

Stundum hjálpar það að vita hverju má eiga von á.

Við lok þjónustu sinnar sagði Jesús við postula sína að erfiðir tímar væru fram undan. Hann sagði einnig: „Gætið þess að skelfast ekki.“1 Já, hann myndi fara, en hann myndi ekki skilja þá eftir eina.2 Hann myndi senda anda sinn til að hjálpa þeim að muna, standa stöðugir og finna frið. Frelsarinn uppfyllir loforð hans um að vera með okkur, lærisveinum hans, en við verðum ávallt að horfa til hans til að hjálpa okkur að bera kennsl á og njóta nærvistar hans.

Lærisveinar Krists hafa ávallt staðið frammi fyrir örðugum tíðum.

Kær vinur minn sendi mér gamla grein úr Nebraska Advertiser, gömlu dagblaði úr miðvesturríkjunum, frá 9. júlí 1857. Þar sagði: „Snemma þennan morgun fór hópur mormóna í gegn á leið sinni til Salt Lake. Konur (sannarlega ekki fíngerðar) drógu handvagna eins og skepnur, ein [konan] féll við í svarta forina sem olli því að hersingin dokaði við, lítil börn örkuðu með í [skrítnum] framandi klæðnaði sínum, eins ákveðin og mæður þeirra.3

Ég hef oft hugsað um þessa forugu konu. Því dró hún einsömul? Var hún einstæð móðir? Hvað veitti henni þann innri styrk, þrautseigju og úthald að fara þessa þrautarför í gegnum for, dragandi handvagn með öllum eigum sínum til óþekktra óbyggða – stundum þolandi háð frá áhorfendum.4

Joseph F. Smith forseti talaði um innri styrk þessara kvenbrautryðjenda og sagði: „Teljið þið að hægt hefði verið að snúa konum þessum frá sannfæringu sinni um Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu? Teljið þið að hægt hefði verið að myrkva huga þeirra varðandi hlutverk spámannsins Josephs Smith? Teljið þið að hægt hefði verið að blekkja þær varðandi guðlegt verk Jesú Krists, sonar Guðs? Nei, aldrei hefði verið hægt að hnika þeim. Hvers vegna? Vegna þess að þær áttu vitneskju. Guð veitti þeim hana með opinberun, þeim veittist skilningur og enginn kraftur á jörðu megnaði að snúa þeim frá vitneskju sinni um sannleikann.“5

Bræður og systur, það er köllun okkar í dag að vera slíkir karlar og konur – lærisveinar sem kafa djúpt til að finna styrkinn til að halda áfram að draga þegar þeir eru kallaðir til að ganga í gegnum óbyggðir, lærisveinar með sannfæringu um það sem Guð hefur opinberað okkur, fylgjendur Jesú sem eru glaðir og heilshugar í okkar persónulegu lærisveinsvegferð. Sem lærisveinar Jesú Krists, trúum við á og getum vaxið í mikilvægum þríþættum sannleika.

Í fyrsta lagi getum við haldið sáttmála okkar, jafnvel þegar það er ekki auðvelt

Þegar reynt er á trú ykkar, fjölskyldu eða framtíð – þegar þið veltið fyrir ykkur hvers vegna lífið sé svo erfitt þegar þið gerið ykkar besta til að lifa eftir fagnaðarerindinu – munið þá að Drottinn sagði okkur að búast við erfiðleikum. Erfiðleikar eru hluti af áætluninni og gefa ekki til kynna að þið hafið verið yfirgefin, þeir eru hluti af því vægi að vera hans.6 Hann var jú „harmkvælamaður og kunnugur þjáningum.“7

Mér er að lærast að himneskur faðir hefur meiri áhuga á vexti mínum sem lærisveini Jesú Krists, heldur en þægindum mínum. Mig langar kannski ekki alltaf að það sé þannig, en þannig er það!

Það veitir ekki kraft að lifa í þægindum. Krafturinn sem við þörfnumst til að fá borið hita og þunga dagsins er kraftur Drottins og kraftur hans streymir í gegnum sáttmála okkar við hann.8 Að reiða okkur á trú okkar í sterkum mótvindum – að vinna að því hvern dag að gera það sem við lofuðum frelsaranum að við myndum gera, jafnvel og sérstaklega þegar við erum þreytt, áhyggjufull og að glíma við erfiðar spurningar og málefni – er að öðlast ljós hans smám saman, styrk hans, elsku, anda og frið.

Tilgangur þess að ganga sáttmálsveginn, er að nálgast frelsarann. Hann er tilgangurinn, ekki fullkominn árangur okkar. Þetta er ekki keppni og við megum ekki bera vegferð okkar saman við vegferð annarra. Jafnvel þegar við hrösum, er hann til staðar.

Í öðru lagi þá getum við sýnt trú í verki

Sem lærisveinar Jesú Krists, skiljum við að trú á hann krefst verka – sérstaklega á erfiðleikatímum.9

Fyrir mörgum árum ákváðu foreldrar mínir að skipta um teppi í húsinu. Kvöldið áður en að nýja teppið kom, bað mamma bræður mína að fjarlægja húsgögnin og rífa burtu svefnherbergisteppin, svo hægt væri að leggja nýja teppið. Þá var Emily, sjö ára systir mín, þegar sofnuð. Þegar hún svaf, fjarlægðu þeir hljóðlega öll húsgögnin út úr herberginu hennar, nema rúmið, og rifu svo upp teppið. Eins og eldri bræður gera stundum, ákváðu þeir að stríða henni aðeins. Þeir fjarlægðu það sem eftir var af eigum hennar úr skápnum og af veggjunum og skildu herbergið eftir autt. Þeir skrifuðu síðan miða og settu á vegginn: „Kæra Emily, við fluttum. Við skrifum þér eftir nokkra daga og segjum þér hvar við erum. Elskum þig, þín fjölskylda.“

Næsta morgun, þegar Emily kom ekki í morgunmat, fóru bræður mínir til að ná í hana – þar sat hún, sorgmædd og einmana innan við lokaðar dyr. Emily varð síðar hugsað til þessarar reynslu: „Ég var eyðilögð. Hvað ætli hefði samt gerst ef ég hefði bara opnað dyrnar? Hvað hefði ég heyrt? Hvaða lykt hefði ég fundið? Ég hefði vitað að ég var ekki ein. Ég hefði vitað að ég var raunverulega elskuð. Það hvarflaði aldrei að mér að gera eitthvað varðandi aðstæður mínar. Ég gafst bara upp og sat í skápnum mínum og grét. Ef ég hefði samt bara opnað dyrnar.“10

Systir mín dró ályktun, byggða á því sem hún sá, en það endurspeglaði ekki hvernig hlutirnir voru í raun. Er það ekki áhugavert að við, eins og Emily, getum orðið svo niðurdregin af sorg, særindum, vanmáttarkennd, áhyggjum, einmanakennd, reiði eða vonbrigðum að það hvarflar ekki að okkur að gera bara eitthvað, opna dyrnar eða sýna trú á Jesú Kristi í verki.

Ritningarnar eru fullar af dæmum um karla og konur, lærisveina Krists, sem hreinlega tóku af skarið í trú, þegar þau stóðu frammi fyrir ómögulegum aðstæðum – sem risu á fætur í trú og gengu af stað.11

Jesús sagði við holdsveiku mennina sem leituðu lækninga: „Farið og sýnið yður prestunum. Þeir héldu af stað og nú brá svo við að þeir urðu hreinir.12

Þeir fóru til að sýna sig prestunum, eins og þeir hefðu þegar læknast, og þegar þeir gerðu svo, læknuðust þeir.

Mig langar líka að segja að ef að hugsunin um að gera eitthvað mitt í sársauka ykkar virðist ómögulegt, bregðist þá við með því að leita hjálpar – farið til vinar, fjölskyldumeðlims, kirkjuleiðtoga, fagaðila. Þetta getur verið fyrsta skrefið í átt að von.

Í þriðja lagi getum við verið heilshugar og glöð í tilbeiðslu okkar13

Þegar erfiðleikar steðja að, reyni ég að muna að ég valdi að fylgja Kristi áður en ég kom til jarðar og að áskoranir trúar minnar, heilsu minnar og úthalds eru allt ástæður þess að ég er hér. Ég myndi vissulega aldrei telja að raunir dagsins véfengdu elsku Guðs til mín eða leyfa að þær snéru trú minni á hann yfir í efa. Erfiðleikar þýða ekki að áætlunin sé að fara úrskeiðis; þeir eru hluti af áætluninni, til að hjálpa mér að leita til Guðs. Ég verð líkari honum þegar ég þrauka í þolinmæði og vonandi geri ég eins og hann þegar mér líður illa, bið einlægari bæna.14

Jesús Kristur var hið fullkomna dæmi um að elska föður okkar af öllu hjarta – að gera vilja hans, sama hvað það kostar.15 Mig langar að fylgja fordæmi hans með því að gera það sama.

Ég fæ innblástur frá ekkjunni sem heilshugar og af allri sálu lærisveinsins setti tvo smápeninga sína í fjárhirslu musterisins. Hún gaf allt sitt.16

Jesús Kristur bar kennsl á gnægð hennar þegar aðrir sáu einungis skort hennar. Hið sama á við um hvert og eitt okkar. Hann sér ekki skort okkar sem brest, heldur frekar sem tækifæri til að iðka trú og vaxa.

Lokaorð

Samlærisveinar mínir í Jesú Kristi, af öllu hjarta vel ég að standa með Drottni. Ég vel að standa með útvöldum þjónum hans – Russell M. Nelson forseta og sampostulum hans – því þeir tala fyrir hans hönd og eru ráðsmenn þeirra helgiathafna og sáttmála sem binda mig frelsaranum.

Þegar ég hnýt um, mun ég halda áfram að standa á fætur, treysta á náð og virkjandi kraft Jesú Krists. Ég mun vera í sáttmálanum með honum og vinna mig í gegnum spurningar mínar með námi á orði Guðs, af trú og með hjálp heilags anda, hvers leiðsögn ég treysti á. Ég mun leita anda hans dag hvern, með því að gera hina smáu og einföldu hluti.

Þetta er vegferð mín sem lærisveinn.

Fram að þeim tíma er hin daglegu sár jarðlífsins eru læknuð, mun ég þjóna Drottni og treysta honum – tímasetningu hans, visku hans, áætlun hans.17

Hönd í hönd með ykkur vil ég standa með honum að eilífu. Heilshugar. Vitandi að þegar við elskum Jesú Krist af öllu hjarta, mun hann gefa okkur allt í staðinn.18 Í nafni Jesú Krists, amen.