Aðalráðstefna
Aðstoð við hina fátæku og aðkrepptu
Aðalráðstefna október 2022


Aðstoð við hina fátæku og aðkrepptu

Kirkja Jesú Krists hefur skuldbundið sig til að þjóna þeim sem eru í neyð og einnig til að eiga samvinnu við aðra í því verki.

Bræður og systur, ástkær forseti okkar, Russell M. Nelson mun ávarpa okkur seinna í þessum hluta. Hann hefur falið mér að vera fyrsti ræðumaður.

Umræðuefni mitt í dag varðar það sem Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu og meðlimir hennar gefa og gera fyrir hina fátæku og aðkrepptu. Ég mun einnig tala um svipuð framlög frá öðru góðu fólki. Að gefa þeim sem eru í neyð, er lögmál í abrahamískum trúarbrögðum og einnig í fleiri trúarbrögðum.

Fyrir nokkrum mánuðum gaf Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu í fyrsta sinn út yfirlýsingu um heildarframlag hennar til mannúðarmála.1 Útgjöld okkar árið 2021 til þeirra sem eru í neyð í 188 löndum víða um heim, voru alls 906 milljón dollarar – næstum einn milljarður. Auk þess gáfu meðlimir okkar yfir 6 milljóna vinnustunda fyrir sama málstað.

Þessar tölur eru að sjálfsögðu ófullkomin skýrsla yfir gjafir okkar og aðstoð. Þær telja ekki þá persónulegu þjónustu sem meðlimir okkar gefa einstaklingsbundið, þegar þeir þjóna hver öðrum í kölluðum stöðum og sjálfboðastarfi á milli meðlima. Skýrslan frá 2021 segir heldur ekki frá því hvað meðlimirnir gera sjálfstætt í gegnum ýmis góðgerðarsamtök, sem tengjast kirkjunni ekki beint. Ég byrja á þeim.

Árið 1831, tæplega tveimur árum eftir að hin endurreista kirkja var stofnuð, veitti Drottinn þessa opinberun til að leiðbeina meðlimum hennar, og ég tel öllum börnum hans, um víða veröld.

„Því að sjá, ekki er rétt, að ég skipi fyrir í öllum efnum, því að sá sem er knúinn í öllu er hyskinn, en ekki hygginn þjónn, og hlýtur þess vegna engin laun. …

Sannlega segi ég, menn ættu að starfa af kappi fyrir góðan málstað og gjöra margt af frjálsum vilja sínum og koma miklu réttlæti til leiðar;

Því að krafturinn býr í þeim og þeir hafa þannig sjálfræði. Og sem menn gjöra gott, svo skulu þeir í engu glata launum sínum.“2

Í meira en 38 ár sem postuli og meira en 30 ár í atvinnu minni, hef ég séð samtök og einstaklinga, eins og þessi opinberun lýsir, leggja fram mikið örlátt starf í „góðum málstað“ og „koma miklu réttlæti til leiðar.“ Það eru ófá dæmin um slíkt mannúðarstarf um allan heim, utan landamæra okkar og utan almennrar þekkingar okkar. Við að íhuga þetta, verður mér hugsað til Benjamín konungs, spámanns Mormónsbókar, sem flutti ræðu sem fól í sér þennan eilífa sannleika: „Þegar þér eruð í þjónustu meðbræðra yðar, eruð þér aðeins í þjónustu Guðs yðar.“3

Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu kennir og iðkar mikla velferðar- og mannúðarþjónustu gagnvart náunga okkar. Til dæmis, þá föstum við í upphafi hvers mánaðar og gefum hið minnsta upphæð þeirrar máltíðar til hjálpar þeim sem búa við neyð í söfnuðum okkar. Kirkjan leggur einnig fram gríðarleg framlög til mannúðarstarfs og annars starfs víða um heim.

Þrátt fyrir allt sem kirkjan leggur fram beint, þá er langmest af því mannúðarstarfi sem er unnið fyrir börn Guðs, lagt af mörkum af fólki og samtökum sem hafa engin formleg tengsl við kirkju okkar. Eins og einn postula okkar hefur sagt: „Guð notar fleiri en einn hóp fólks til að koma sínu dásamlega og undursamlega verki til leiðar. … Það er of umfangsmikið fyrir einhvern einn hóp.“4 Sem meðlimir hinnar endurreistu kirkju, þurfum við að vera meðvitaðri og þakklátari fyrir þjónustu annarra.

Kirkja Jesú Krists hefur skuldbundið sig til að þjóna þeim sem eru í neyð og einnig til að eiga samvinnu við aðra í því verki. Við lögðum nýlega fram stórt framlag til Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna. Eftir þá mörgu áratugi sem við höfum sinnt mannúðarstarfi þá standa tvenn samtök upp úr sem lykilsamstarfsaðilar okkar, verkefni með Rauða krossinum og Rauða hálfmánanum í tuga landa hafa veitt börnum Guðs brýna þjónustu á meðan á náttúruhamförum og átökum hefur staðið. Að sama skapi eigum við langa sögu um aðstoð við Kaþólsku Líknarþjónustuna. Við höfum lært mikið af þessum samtökum um líknarstarf á heimsmælikvarða.

Við höfum einnig átt gagnlegt samstarf við önnur samtök svo sem Muslim Aid [Hjálparstarf Múslima], Water for People [Vatn fyrir fólk] og IsraAID, bara svo nokkur séu nefnd. Þó að hver hjálparsamtök hafi sitt svið sem þau sérhæfa sig í, þá deilum við sameiginlegum markmiðum þeirra um að létta þjáningum barna Guðs. Allt er þetta hluti af áætlun Guðs fyrir börn hans.

Nútíma opinberanir kenna að frelsari okkar, Jesús Kristur, sé „hið sanna ljós, sem lýsir hverjum manni, sem í heiminn kemur.“5 Þess vegna eru öll börn Guðs upplýst til að þjóna honum og hvert öðru af bestu þekkingu og getu.

Mormónsbók kennir að „allt, sem hvetur og lokkar til góðs og til að elska Guð og þjóna honum, [sé] innblásið af Guði.“6

Hún segir enn fremur:

„Því að sjá. Andi Krists er gefinn hverjum manni, svo að hann megi þekkja gott frá illu. Þess vegna sýni ég yður leiðina til að dæma. Því að allt, sem hvetur til góðra verka og leiðir til trúar á Krist, er sent fyrir kraft og gjöf Krists. …

En bræður mínir … Þér þekkið það ljós, sem þér getið dæmt eftir, það ljós, sem er ljós Krists.“7

Hér eru nokkur dæmi um börn Guðs sem aðstoða önnur börn Guðs með nauðþurftir þeirra, svo sem mat, læknisþjónustu og kennslu.

Fyrir tíu árum settu Kandhari-hjónin í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, sem aðhyllast Síkisma, af stað merkilegt verkefni til að fæða hina hungruðu. Í Síkamusterinu Guru Nanak Darbar, bjóða þau nú upp á rúmlega 30.000 grænkeramáltíðir hverja helgi fyrir hvern þann sem kemur inn um dyr þeirra, sama hver trú þeirra eða kynþáttur er. Dr. Kandhari útskýrir: „Við trúum því að allir séu eitt, við erum börn eins Guðs og við erum hér til að þjóna mannkyninu.“8

Annað dæmi er framboð á læknis- og tannlæknisþjónustu til þeirra sem búa við neyð. Í Chicago hitti ég sýrlensk-amerískan bráðalækni, Dr. Zaher Sahloul. Hann er einn af stofnendum MedGlobal, sem skipuleggur sjálfboðastarf heilbrigðisstarfsmanna, þar sem þeir leggja fram vinnu, hæfileika, þekkingu og leiðtogahæfni til að hjálpa öðrum í vanda, eins og í stríðinu í Sýrlandi, þar sem Sahloul læknir hætti lífi sínu við að veita almennum borgunum læknisaðstoð. MedGlobal og svipaðar stofnanir (þ.m.t. margir fagaðilar meðal Síðari daga heilagra) sýna fram á að Guð hvetur trúaða fagaðila til að færa hinum fátæku í heiminum þá hjálp sem þeir þarfnast.9

Mörg óeigingjörn börn Guðs starfa við kennsluverkefni, einnig um allan heim. Gott dæmi sem við þekkjum í gegnum mannúðarstarf okkar, er starf manns sem er þekktur sem Hr. Gabríel, sem hefur verið flóttamaður frá ýmsum átakasvæðum á mismunandi tímum. Nýlega sá hann að hundruð þúsundir barna, sem voru á flótta í Austur-Afríku, þörfnuðust hjálpar við að halda von sinni lifandi og huga sínum virkum. Hann skipulagði aðra kennara meðal flóttamannanna í það sem þeir kölluðu „trjáskóla,“ þar sem börnin söfnuðust saman fyrir kennslu í skugga trjánna. Hann beið ekki eftir öðrum til að skipuleggja eða stjórna, heldur leiddi hann sjálfur verkefni sem hefur veitt þúsundum grunnskólabarna tækifæri til náms á álagsárum brottflutninga.

Auðvitað þýða þessi þrjú dæmi ekki að allt sem er sagt eða gert í nafni samtaka eða einstaklinga, sem lýsa því yfir að vera góð eða af Guði, séu sannarlega svo. Þessi dæmi sýna að Guð innblæs mörg samtök og einstaklinga til að gera margt gott. Það sýnir einnig að fleiri okkar ættu að meta það góða sem aðrir eru að gera og styðja það eins og við höfum tíma og getu til.

Hér eru nokkur dæmi um þjónustu sem kirkjan styður og meðlimir okkar og annað gott fólk og samtök styðja einnig, með einstaklingsframlagi af tíma og fjármunum:

Ég byrja fyrst á trúfrelsi. Með því að styðja við það, þjónum við okkar eigin hagsmunum, en einnig hagsmunum annarra trúfélaga. Eins og fyrsti forseti okkar, Joseph Smith, sagði: „Vér krefjumst þeirra réttinda að fá að tilbiðja almáttugan Guð, eftir því sem eigin samviska býður, og viðurkennum sömu réttindi til handa öllum mönnum. Lofum þeim að tilbiðja, hvernig, hvar eða hvað, sem þeim þóknast.“10

Önnur dæmi um mannúðaraðstoð og annars konar aðstoð hinnar endurreistu kirkju, sem eru einnig gefin valfrjálst af meðlimum okkar, eru hinir vel þekktu skólar okkar, framhaldsskólar og háskólar og hin minna þekktu en nú upplýstu framlög fyrir mannúðaraðstoð við þá sem þjást vegna eyðileggingar og búferlaflutninga vegna náttúruhamfara, eins og hvirfilbylja og jarðskjálfta.

Önnur líknarverk sem meðlimir okkar styðja með frjálsum framlögum sínum og vinnu eru of mörg til að telja upp, en bara það að nefna þessi nokkur, mun sýna fjölbreytileika þeirra og mikilvægi: Barátta gegn kynþáttafordómum og annars konar fordómum, rannsóknir á því hvernig megi koma í veg fyrir og lækna sjúkdóma, hjálp fyrir fólk með fötlun, stuðningur við tónlistarsamtök og bætt siðferðis og líkamlegt umhverfi allra.

Allt mannúðarstarf Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilagra leitast við að fylgja eftir fordæmi réttláts fólks sem lýst er í Mormónsbók: „Og í þessari velmegun sinni sendu þeir því engan á burt nakinn eða hungraðan, þyrstan, sjúkan, … þess vegna voru þeir örlátir við alla, jafnt aldna og unga, jafnt ánauðuga og frjálsa, jafnt karla sem konur, hvort sem þau voru í kirkjunni eða utan hennar.“11

Ég ber vitni um Jesú Krist, hvers ljós og andi leiðir öll börn Guðs til að hjálpa hinum fátæku og aðkrepptu um allan heim. Í nafni Jesú Krists, amen.