Aðalráðstefna
Rammi fyrir persónulega opinberun
Aðalráðstefna október 2022


Rammi fyrir persónulega opinberun

Við þurfum að skilja þann ramma sem heilagur andi starfar innan. Þegar við störfum innan þess ramma, getur heilagur andi leyst úr læðingi undraverða innsýn.

Eins og mörg ykkar, þá hef ég orðið fyrir áhrifum frá öldungi Dieter F. Uchtdorf í gegnum árin. Það útskýrir að minnsta kosti að hluta það sem ég er að fara að tala um.1 Svo, ég bið hann forláts …

Vel þjálfaðir flugmenn fljúga innan getu flugvélar sinnar og fylgja leiðsögn flugumferðarstjóra varðandi notkun flugbrauta og flugleiða. Í einföldu máli, þá fljúga flugmenn innan viss ramma. Sama hve stórkostlegir eða hæfileikaríkir þeir eru, þá geta þeir einungis leyst hina óviðjafnanlegu krafta flugvélarinnar úr læðingi á öruggan máta innan þessa ramma, til að ná hinum undursamlegu markmiðum hennar.

Á svipaðan hátt meðtökum við persónulegar opinberanir innan viss ramma. Eftir skírn er okkur gefin stórkostleg, en samt hagnýt gjöf, gjöf heilags anda.2 Á meðan að við vinnum að því að halda okkur á sáttmálsveginum,3 þá er það „heilagur andi … [sem] mun sýna [okkur] allt [sem okkur] ber að gjöra.“4 Þegar við erum óviss eða óróleg, getum við beðið Guð um aðstoð.5 Loforð frelsarans gæti ekki verið skírar: „Biðjið og yður mun gefast, … því að hver sá öðlast sem biður.“6 Með hjálp heilags anda, getum við breytt guðlegu eðli okkar í eilíf örlög okkar.7

Loforð persónulegrar opinberunar í gegnum heilagan anda er undursamleg, ekki ólíkt flugvél á flugi. Líkt og flugstjórar, þá þurfum við að skilja þann ramma sem heilagur andi starfar innan til að veita persónulega opinberun. Þegar við störfum innan þess ramma, getur heilagur andi leyst úr læðingi undraverða innsýn, leiðsögn og huggun. Utan þess ramma, sama hve stórsnjöll við erum eða hæfileikarík, þá er hægt að blekkja okkur og við hröpum og brennum upp.

Ritningarnar móta fyrstu undirstöðuna í þessum ramma persónulegrar opinberunar.8 Að endurnærast á orði Krists, eins og segir í ritningunum, örvar persónulega opinberun. Öldungur Robert D. Hales sagði: „Þegar við viljum tala við Guð, biðjum við. Þegar við viljum að hann tali við okkur, leitum við í ritningunum.“9

Ritningarnar kenna okkur einnig hvernig á að meðtaka persónulega opinberun.10 Við biðjum um það sem er rétt og gott11 og ekki um það sem stríðir gegn vilja Guðs.12 Við biðjum ekki „illa,“ með óviðeigandi hvöt til að stuðla að eigin hagsmunum eða til að uppfylla eigin nautnir.13 Ofar öllu, þá ber okkur að biðja himneskan föður í nafni Jesú Krists,14 í trú á að okkur muni hlotnast.15

Annar þáttur í áætluninni er að við meðtökum einungis persónulega opinberun innan okkar verksviðs og ekki innan einkasvæðis annarra. Með öðrum orðum, þá tökum við á loft og lendum á okkar úthlutuðu flugbraut. Mikilvægi vel afmarkaðrar flugbrautar lærðist snemma í sögu endurreisnarinnar. Hiram Page, eitt átta vitna Mormónsbókar, hélt því fram að hann væri að meðtaka opinberanir fyrir alla kirkjuna. Nokkrir meðlimanna létu blekkjast og urðu fyrir röngum áhrifum.

Sem svar opinberaði Drottinn að „enginn skal útnefndur til að meðtaka boð og opinberanir í þessari kirkju, nema þjónn minn Joseph Smith, … þar til ég útnefni … annan í hans stað.“16 Kenningar, boðorð og opinberanir fyrir kirkjuna eru einkaréttur hins lifandi spámanns, sem meðtekur það frá Drottni, Jesú Kristi.17 Það er flugbraut spámannsins.

Fyrir mörgum árum fékk ég símtal frá einstaklingi sem hafði verið handtekinn fyrir átroðning. Hann sagði mér að hann hefði fengið opinberun um að viðbótarritningar væru grafnar undir gólfi jarðhæðar byggingar sem hann reyndi að komast inn í. Hann hélt því fram að þegar hann hefði fengið þessar viðbótarritningar, þá vissi hann að hann myndi hljóta gjöf þýðingar, koma fram með nýjar ritningar og móta kenningu og leiðsögn fyrir kirkjuna. Ég sagði honum að hann hefði rangt fyrir sér og hann hvatti mig til að biðja varðandi það. Ég sagði honum að ég myndi ekki gera það. Hann varð orðljótur og lauk símtalinu.18

Ég þurfti ekki að biðja varðandi þessa bón, vegna þeirrar einföldu en djúpstæðu ástæðu að spámaðurinn einn hlýtur opinberanir fyrir kirkjuna Það væri „gegn reglu Guðs“19 að aðrir hljóti slíkar opinberanir, sem tilheyra flugbraut spámannsins.

Persónuleg opinberun tilheyrir einstaklingum réttilega. Þið getið til dæmis meðtekið opinberun varðandi hvar þið eigið að búa, hvaða starfsferil á að velja eða hverjum á að giftast.20 Kirkjuleiðtogar kunna að kenna kenningu og miðla innblásinni leiðsögn en ábyrgð þessara ákvarðana liggur hjá ykkur. Það er ykkar opinberun, það er ykkar flugbraut.

Þriðji þátturinn í áætluninni er að persónuleg opinberun verður í samhljóm við borðorð Guðs og þá sáttmála sem við höfum gert við hann. Hugleiðið bæn sem hljómar eitthvað svona: „Himneski faðir, kirkjusamkomur eru leiðinlegar. Má ég tilbiðja þig á hvíldardegi í fjöllunum eða á baðströndinni? Má ég sleppa því að fara í kirkju og meðtaka sakramentið en fá samt þær blessanir sem okkur er heitið, ef við höldum hvíldardaginn heilagan?“21 Við getum vænst þess að svarið við slíkri bæn verði: „Kæra barn, ég hef þegar opinberað vilja minn varðandi hvíldardaginn.“

Þegar við biðjum um opinberun varðandi eitthvað sem Guð hefur þegar veitt skýra leiðsögn um, opnum við á möguleikann að misskilja tilfinningar okkar og að heyra það sem við viljum heyra. Maður nokkur sagði mér frá baráttu sinni við að koma jafnvægi á stöðu fjármála fjölskyldu sinnar. Hann fékk þá hugmynd að draga sér fé sem lausn, bað varðandi það og fannst sem hann hefði fengið jákvætt svar við bæninni. Ég vissi að hann hafði verið blekktur, því að hann leitaði opinberunar um það sem var andstætt boðorðum Guðs. Spámaðurinn Joseph Smith aðvaraði: „Ekkert er mannanna börnum skaðlegra en að vera undir áhrifum falsks anda, þegar þeir telja sig hafa anda Guðs.“22

Sumir gætu bent á að Nefí hafi brotið gegn boðorði þegar hann drap Laban. Þessi undantekning ógildir samt ekki regluna – reglan um að persónuleg opinberun verði í samhljóm við boðorð Guðs. Engin einföld útskýring á þessu atviki er algerlega fullnægjandi, en leyfið mér að draga fram suma þætti málsins. Það mál hófst ekki á því að Nefí spyrði hvort hann mætti drepa Laban. Það var ekki nokkuð sem hann vildi gera. Það var ekki persónulegur hagur Nefís að drepa Laban, heldur var það til að veita framtíðarþjóð og sáttmálsþjóð ritningarnar. Nefí var einnig sannfærður um að þetta væri opinberun – í raun að það væri boðorð frá Guði.23

Fjórði þátturinn í áætluninni er að bera kennsl á það sem Guð hefur þegar opinberað ykkur persónulega og jafnframt vera opinn fyrir frekari opinberunum frá honum. Ef Guð hefur svarað spurningu og aðstæður hafa ekki breyst, hvers vegna ættum við þá að vænta annars svars? Joseph Smith rakst á þetta vandamál árið 1828. Fyrsti hluti Mormónsbókar hafði verið þýddur þegar Martin Harris, góðvinur og ritari í upphafi, bað Joseph um leyfi til að fara með þýddu síðurnar og sýna eiginkonu sinni. Óviss með það hvað hann ætti að gera, bað Joseph um leiðsögn. Drottinn sagði honum að leyfa Martin ekki að fara með síðurnar.

Martin bað Joseph um að spyrja Guð aftur. Joseph gerði svo og það kom ekki á óvart að svarið var hið sama. Martin sárbað hinsvegar Joseph að spyrja í þriðja sinn og Joseph gerði svo. Í þetta sinn sagði Guð ekki nei. Í stað þess var eins og Guð segði: „Joseph, þú veist hvað mér finnst um þetta en þú hefur frelsi til að velja.“ Feginn að skorðurnar hefðu verið fjarlægðar, ákvað Joseph að leyfa Martin að taka með sér 116 síður af handritinu og sýna nokkrum fjölskyldumeðlimum. Þessar þýddu síður týndust og fundust aldrei aftur. Drottinn áminnti Joseph harðlega.24

Joseph lærði það sem Jakob, spámaður Mormónsbókar sagði: „Leitist þess vegna ekki við að gefa Drottni ráð, heldur leitið ráða hans. Hann … stjórnar …af visku.“25 Jakob varaði við að óheppilegir hlutir gerðust þegar við biðjum um það sem við ættum ekki að biðja um. Hann sagði frá því að fólkið í Jerúsalem myndi sækjast „eftir því, sem [það skildi] ekki,“ leita „yfir markið,“ og horfa algjörlega fram hjá frelsara heimsins.26 Það hrasaði vegna þess að það bað um hluti sem það hvorki myndi skilja né gæti skilið.

Ef við höfum hlotið persónulega opinberun varðandi eigin kringumstæður og aðstæður hafa ekkert breyst, þá hefur Guð þegar svarað spurningu okkar.27 Til dæmis spyrjum við stundum ítrekað um staðfestingu á því hvort við höfum hlotið fyrirgefningu. Ef við höfum iðrast, verið fyllt gleði og hugarró og meðtekið fyrirgefningu synda okkar, þurfum við ekki að spyrja aftur, frekar að treysta því svari sem Guð hefur þegar gefið.28

Á sama tíma og við treystum fyrri svörum Guðs, þurfum við að vera opin fyrir áframhaldandi persónulegum opinberunum. Þegar öllu er á botninn hvolft, þá náum við fáum ákvörðunarstöðum í lífinu í beinu flugi. Við ættum að bera kennsl á að persónuleg opinberun kann að hljótast „orð á orð ofan og setning á setning ofan“29 og sú opinberaða leiðsögn getur verið, og er oft, stig af stigi.30

Þættir þessarar áætlunar fyrir persónulega opinberun skarast á og styðja við hvorn annan. Innan þessa ramma getur og mun heilagur andi opinbera allt sem við þörfnumst til að vaxa á og halda skriðþunganum á sáttmálsveginum. Þannig getum við verið blessuð af anda Jesú Krists til að verða það sem himneskur faðir óskar að við verðum. Ég býð ykkur að hafa það sjálfsöryggi að sækjast eftir persónulegum opinberunum, skilja það sem Guð hefur opinberað, í samræmi við ritningarnar og þau boðorð sem hann hefur veitt okkur með útvöldum spámönnum sínum og innan ykkar sviðs og sjálfræðis. Ég veit að heilagur andi getur og mun sýna ykkur allt það sem þið ættuð að gera,31 Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Öldungur Dieter F. Uchtdorf hefur ítrekað og árangursríkt notað viðlíkingar sem tengjast flugvélum, til að kenna mikilvægar kenningar fagnaðarerindisins. Til dæmis tengdi hann nýlega gátlista flugmanna fyrir flug við að kenna eins og frelsarinn í „A Teacher’s Checklist“ ([broadcast for teachers, 12. júní 2022], broadcasts.ChurchofJesusChrist.org).

  2. Heilagur andi er þriðji aðili Guðdómsins og er oft vísað til hans sem andans eða anda Guðs og hann hefur mikilvægt hlutverk í sáluhjálparáætluninni. Hann ber vitni um föðurinn og soninn, opinberar sannleiksgildi allra hluta, helgar þá sem hafa iðrast og verið skírðir og er heilagur andi fyrirheitsins (sjá Leiðarvísi að ritningunum, „Heilagur andi,“ KirkjaJesuKrists.is).

  3. Sjá 2. Nefí 31:19–21; Mósía 4:8. Það er ekkert annað nafn sem „sem frelsað getur manninn í Guðs ríki.“ Það að óska sér einhvers annars skapar ekki aðra leið.

  4. 2. Nefí 32:5; sjá einnig Kenning og sáttmálar 84:43–44.

  5. Sjá 2. Nefí 32:4; Russell M. Nelson, „Opinberun fyrir kirkjuna, opinberun fyrir eigið líf,,“ aðalráðstefna, apríl 2018.

  6. Matteus 7:7–8.

  7. Sjá „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins“; „Stúlknaþema“; General Handbook: Serving in The Church of Jesus Christ of Latter-day Saints, 27.0; 27.2, ChurchofJesusChrist.org.

  8. Sjá 2. Nefí 32:3.

  9. Robert D. Hales, „Heilagar ritningar: Kraftur Guðs til sáluhjálpar,,“ aðalráðstefna, október 2006.

  10. Ritningarnar kenna að rödd heilags anda sé mild og hljóð, eins og hvísl – ekki hávær eða hvell; hún er einföld, hljóð og fábrotin; hún getur verið nístandi og brennandi; hún hefur bæði áhrif á huga og hjarta; hún færir frið, gleði og von – ekki ótta, kvíða og áhyggjur; hún býður okkur að gera gott – ekki illt; og er upplýsandi og yndisleg – ekki leyndardómsfull. Sjá 1. Konungabók 19:11–12; Omní 1:25; Alma 32:28; Helaman 5:30–33; 3. Nefí 11:3; Moróní 7:16–17; Kenning og sáttmálar 6:22–24; 8:2–3; 9:8–9; 11:12–14; 85:6; Boyd K. Packer, „The Candle of the Lord,“ Ensign, jan. 1983, 51–56; Russell M. Nelson, „Hlýðið á hann,“ aðalráðstefna, apríl 2020; Russell M. Nelson, „Horfið til framtíðar í trú,“ aðalráðstefna, október 2020; Russell M. Nelson, „Opinberun fyrir kirkjuna, opinberun fyrir eigið líf.“

  11. Sjá 3. Nefí 18:20; Moróní 7:26; Kenning og sáttmálar 88:64–65.

  12. Sjá Helaman 10:5; Kenning og sáttmálar 46:30.

  13. Jakobsbréfið 4:3; sjá Jakobsbréfið 4:3 í New International Version; 2. Nefí 4:35; Kenning og sáttmálar 8:10; 46:7; 88:64–65.

  14. Sjá Kenning og sáttmálar 88:64-65; Leiðarvísir að ritningunum, „Bæn,“ KirkjaJesuKrists.is.

  15. Sjá 3. Nefí 18:20; Moróní 7:26.

  16. Kenning og sáttmálar 28:2, 7.

  17. Sjá Kenning og sáttmálar 21:4–5.

  18. Blessunarlega þá voru gerðar ráðstafanir fyrir hann að fá þá aðstoð og meðferð sem hann þarfnaðist.

  19. Teachings of Presidents of the Church: Joseph Smith (2007), 197.

  20. Sjá Thomas S. Monson, „Whom Shall I Marry?,“ New Era, okt. 2004, 4.

  21. Sjá Kenning og sáttmálar 59:9–16.

  22. Joseph Smith, í Times and Seasons, apr. 1, 1842, 744, josephsmithpapers.org.

  23. Drottinn breytir ekki oft, leiðréttir eða gerir undanþágur á opinberuðum boðorðum sínum, en þessar koma í gegnum spámannlegar opinberanir og eru ekki persónulegar opinberanir. Spámannlegar opinberanir koma í gegnum sérstaklega útvalinn spámann, af visku og skilningi Guðs. Meðal þessara undanþága eru opinberanir Drottins til Móse og Jósúa um að drepa íbúa Kanaanlands, þrátt fyrir boðorð hans „Þú skalt ekki morð fremja“ (2. Mósebók 20:13). Í gegnum spámenn sína getur Drottinn og mun endurskoða boðorð sín fyrir sinn tilgang. Við höfum samt ekki það leyfi í gegnum persónulega opinberun að breyta eða hunsa ákveðin boðorð sem Guð hefur opinberað kirkju sinni í gegnum spámanninn.

    Sjá 1. Nefí 4:12–18; fyrir ítarlegri umræðu, sjá Joseph Spencer, 1st Nephi: A Brief Theological Introduction (2020) 66–80.

  24. Til að sjá alla frásögnina um hinar 116 handritssíður, sjá Heilagir: Saga Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, 1. bindi, Sannleiksstaðall, 1815–1846 (2018), 44–53; sjá einnig Kenning og sáttmálar 3:5–15; 10:1–5.

  25. Jakob 4:10.

  26. Sjá Jakob 4:14–16.

  27. Joseph Smith kenndi: „Við biðjum aldrei um sérstaka opinberun frá Guði, einungis í þeim tilfellum þar sem engin opinberun hefur verið veitt sem á við málið“ (í History, 1838–1856 [Manuscript History of the Church], bindi A-1, 286–87, josephsmithpapers.org).

  28. Sjá Mósía 4:3. Þegar við höldum áfram að upplifa sektarkennd og eftirsjá eftir einlæga og vísvitandi iðrun, er það vanalega vegna skorts á trú á Jesú Kristi og getu hans til að fyrirgefa okkur algerlega og lækna. Stundum trúum við því að fyrirgefning sé fyrir aðra en eigi aldrei fyllilega við okkur. Það er einfaldlega skortur á trú á því sem frelsarinn getur áorkað vegna algerrar friðþægingar sinnar.

  29. Sjá Jesaja 28:10; 2. Nefí 28:30; David A. Bednar, „Line upon Line, Precept upon Precept,“ New Era, sept. 2010, 3–7.

  30. Ef Guð hefur ekki veitt ykkur opinberun, haldið þá áfram að spyrja. Eins og öldungur Richard G. Scott kenndi: „Haldið áfram í trausti. … Þegar þið lifið réttlátu lífi og leggið traust ykkar á Guð, en hafið tekið ranga ákvörðun, mun hann ekki láta ykkur ganga of langt án viðvörunar“ („Hin yfirnáttúrlega gjöf bænarinnarr,“ aðalráðstefna, apríl 2007).

  31. Sjá 2. Nefí 32:5.