Aðalráðstefna
Eilífðarregla kærleikans
Aðalráðstefna október 2022


Eilífðarregla kærleikans

Elska himnesks föður gagnvart hverju barna hans er raunveruleg. Hann er til staðar fyrir hvert okkar.

Eilífðarregla kærleikans er staðfest með því að lifa eftir hinum tveimur æðstu boðorðum: Að elska Guð af öllu hjarta , sálu, mætti og huga og náunga sinn eins og sjálfan sig.1

Ég man eftir fyrsta vetrinum sem ég bjó hér í Utah – snjór alls staðar. Þar sem ég kom frá Sonoran-eyðimörkinni naut ég þess fyrstu dagana, en eftir nokkra daga varð mér ljóst að ég yrði að fara fyrr á fætur til að moka innkeyrsluna.

Morgun einn, í miðjum snjóbyl, var ég sveittur við að moka snjó og sá nágranna minn opna bílskúr sinn hinum megin götunnar. Hann er eldri en ég, svo ég hugsaði með mér að ef ég kláraði fljótlega, gæti ég aðstoðað hann. Ég hækkaði því röddina og spurði hann: „Bróðir, þarfnastu aðstoðar?“

Hann brosti og sagði: „Þakka þér fyrir, öldungur Montoya.“ Því næst dró hann snjóblásara út úr bílskúr sínum, ræsti vélina og á nokkrum mínútum hafði hann fjarlægt allan snjóinn fyrir framan hús sitt. Því næst kom hann yfir götuna með tækið sitt og spurði mig: „Öldungur, þarfnast þú aðstoðar?“

Með brosi sagði ég: „Já, þakka þér fyrir.“

Við erum fúsir til að hjálpa hvor öðrum, því við elskum hvor annan og þarfir bróður míns verða mínar og mínar verða hans. Sama hvaða tungumál bróðir minn talar eða hvaða landi hann kemur frá, þá elskum við hvor annan, því við erum bræður, börn sama föður.

Þegar hirðisþjónustan var tilkynnt, sagði Russell M. Nelson forseti: „Við munum koma í framkvæmd nýrri og helgari leið til að hlúa að og þjóna öðrum.“2 Mér finnst helgari merkja persónulegri, dýpri, meira eins og leið frelsarans: „Berið elsku hver til annars,“3 eins í senn.

Það er ekki nægilegt að forðast að vera öðrum hindrun; það er ekki nægilegt að taka eftir hinum þurfandi við veginn og ganga fram hjá. Nýtum hvert tækifæri til að hjálpa náunga okkar, jafnvel þó það sé í fyrsta og eina skiptið sem við hittum hann eða hana í þessu lífi.

Hvers vegna er æðsta boðorðið að elska Guð?

Ég held að það sé vegna þess hversu kær hann er okkur. Við erum börn hans, hann hefur umsjón með velferð okkar, við erum háð honum og elska hans verndar okkur. Áætlun hans felur í sér sjálfræði; við erum því líkleg til að gera mistök.

Hann leyfir líka að við séum reynd og að okkar sé freistað. Hvort sem við gerum mistök eða föllum í freistni, þá sér áætlunin okkur fyrir frelsara svo að við getum verið endurleyst og snúið aftur í návist Guðs.

Mótlæti í lífi okkar, getur vakið upp efasemdir um uppfyllingu loforðanna sem okkur hafa verið gefin. Setjið traust ykkur á föður okkar. Hann stendur alltaf við loforð sín og við getum lært það sem hann vill kenna okkur.

Jafnvel þegar við gerum það sem rétt er, þá geta aðstæður í lífi okkar breyst úr góðum í slæmar, frá hamingju í sorg. Guð svarar bænum okkar samkvæmt sinni óendanlegu miskunn og elsku og á hans tíma.

  • Lækurinn sem Elía drakk úr, þornaði upp.4

  • Góði stálboginn hans Nefís brotnaði.5

  • Ungur drengur varð fyrir fordómum og var rekinn úr skólanum.

  • Langþráð barn lést innan nokkurra daga frá fæðingu.

Aðstæður breytast.

Þegar aðstæður breytast úr góðum og jákvæðum í slæmar og neikvæðar, getum við samt verið glöð, því hamingjan ákvarðast ekki af aðstæðunum, heldur á viðhorfi okkar gagnvart aðstæðunum. Russell M. Nelson forseti sagði: „Gleðin sem við finnum hefur lítið að gera með okkar lífsins aðstæður, en þess meira með það sem við einblínum á í lífinu.“6

Við getum haldið aftur af okkur og beðið eftir því að aðstæður breytist sjálfkrafa eða við getum leitað eftir og komið á nýjum aðstæðum.

  • Elía gekk til Sarefta, þar sem ekkja gaf honum mat og drykk.7

  • Nefí bjó til boga úr viði og veiddi dýr til matar.8

  • Ungi drengurinn sat, hlustaði og skrifaði glósur við gluggann og í dag er hann grunnskólakennari.

  • Hjónin hafa öðlast mikla trú á frelsarann Jesú Krist og treysta á sáluhjálparáætlunina. Elska þeirra til hins langþráða barns sem lést skyndilega, er meiri en sorg þeirra.

Þegar ég heyri spurninguna: „Himneski faðir, ert þú þarna? Heyrir og svarar bænum allra barna?,“9 þá kann ég vel við að svara: „Hann hefur verið hér, hann er og verður ávallt til staðar fyrir þig og mig. Ég er sonur hans, hann er faðir minn og ég er að læra að vera góður faðir, eins og hann er.“

Eiginkona mín og ég reynum ávallt að vera til staðar fyrir börn okkar, hvenær sem er, í hvaða aðstæðum sem er og hvað sem það kostar. Hvert barn er einstakt; virði barna í augum Guðs er mikið og hverjar sem áskoranir, syndir og veikleikar þeirra eru, þá elskar Guð þau og það gerum við líka.

Þegar ég hlaut þessa köllun sem aðalvaldhafi, komu öll börnin okkar og fjölskyldur þeirra saman á heimili okkar, deginum áður en við fórum til Salt Lake, fyrir fjölskyldukvöld og við tjáðum elsku okkar og þakklæti. Eftir lexíuna, veitti ég hverju barnanna minna prestdæmisblessun. Allir táruðust. Eftir blessanirnar, tjáði elsti sonur minn þakklætisorð fyrir hönd þeirra allra, fyrir þann mikla kærleika sem við höfðum gefið þeim frá því að þau fæddust.

Blessið börn ykkar, hvort sem þau eru 5 eða 50 ára. Verið með þeim, verið til staðar fyrir þau. Þótt sú ábyrgð að draga björg í bú sé að guðlegri skipan, megum við ekki gleyma að eiga gleðistundir með börnum okkar.

Elska himnesks föður gagnvart hverju barna hans er raunveruleg. Hann er til staðar fyrir hvert okkar. Ég veit ekki hvernig hann fer að því, en hann gerir það. Hann og hans frumgetni, vinna einhuga að verki og dýrð föðurins, að „gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika.“10 Þeir hafa sent okkur heilagan anda til að leiða okkur, aðvara og hugga, ef nauðsyn krefur.

Hann bauð ástkærum syni sínum að skapa þessa fallegu jörð. Hann kenndi Adam og Evu og veitti þeim sjálfræði. Í áraraðir hefur hann sent sendiboða, svo við gætum meðtekið elsku hans og boðorð.

Hann var í Lundinum helga er hann svaraði einlægri spurningu Josephs og nefndi hann með nafni. Hann sagði: „Þetta er minn elskaði sonur. Hlýð þú á hann!“11

Ég trúi því að hið mikla kærleiksverk Guðs fyrir okkur hafi gerst í Getsemane, þar sem sonur hins lifanda Guðs bað: „Faðir minn, ef verða má þá fari þessi kaleikur fram hjá mér. Þó ekki sem ég vil heldur sem þú vilt.“12

Ég hef tekið eftir því að sá litli hluti friðþægingar Jesú Krists sem ég skil, eykur elsku mína til föðurins og sonarins, minnkar löngun mína til að syndga og óhlýðnast og eykur vilja minn til að verða betri og gera betur.

Jesús gekk óttalaus og án efa til Getsemane, treysti föður sínum, vitandi að hann yrði að troða vínlagarþróna einn. Hann þoldi allan sársauka og alla niðurlægingu. Hann var ásakaður, dæmdur og krossfestur. Mitt í eigin angist og þjáningum á krossinum, beindi Jesús athygli sinni að þörfum móður sinnar og ástkærs lærisveins síns. Hann fórnaði lífi sínu.

Á þriðja degi var hann reistur upp. Grafhýsið er tómt; hann stendur við hægri hönd föður síns. Þeir vona að við veljum að halda sáttmála okkar og snúa aftur í návist þeirra. Þetta annað stig er ekki lokastig okkar; við tilheyrum ekki þessu jarðneska heimili, heldur erum við eilífar verur í tímabundinni tilveru.

Jesús er Kristur, sonur hins lifanda Guðs. Hann lifir og vegna þess að hann lifir, munu öll börn Guðs lifa að eilífu. Þökk sé friðþægingarfórn hans, getum við öll dvalið með þeim. Í nafni Jesú Krists, amen.