2007
Skáti kemst á söguspjöldin í Höfðaborg
Apríl 2007


Skáti kemst á söguspjöldin í Höfðaborg

Hann er aðeins þriðji skátinn í sögu Suður-Afríku sem unnið hefur Stökkhjartarskátann þrisvar sinnum, en hann er sá fyrsti sem einnig hefur unnið til Guðrækniorðunnar.

Í hvaða landi sem við búum fer mikill tími og áreynsla í að ávinna sér æðstu skátaverðlaunin. Þið getið því ímyndað ykkur áreynsluna sem það krefst að vinna þau þrisvar sinnum. Rocco du Plessis er fyrsti Stökkhjartarskátinn í 26 ára sögu fyrsta Edgemead-flokksins í Suður-Afríku. Það er því gríðarlegt afrek að verða Stökkhjartarskáti þrisvar sinnum.

Rocco vann samt til annarra verðlauna á síðasta ári sem eru honum ekki síður mikilvæg. „Að hljóta Guðrækniorðuna hefur jafnvel stuðlað enn meira að andlegum þroska mínum,“ sagði hann. „Þau snúast um samband við föður okkar á himnum.“

„Skátastarfið hér er afar krefjandi,“ sagði Rocco, sem er í Panorama kirkjudeildinni í Höfðaborg, Suður-Afríku. Það er erfitt að vinna sér inn Stökkhjörtinn. Vissulega eru skátaleiðtogarnir til staðar og veita hjálp. En það er samt erfitt. „Ef maður leggur ekki mjög hart að sér, ef maður liggur á liði sínu, tekst manni ekki að fá verðlaunin,“ bætir Rocco við. Öll framþróunarverðlaun í skátastarfinu krefjast mikils tíma, skipulags og áreynslu, en starfið er ekki á vegum kirkjunnar í Suður-Afríku.

Rocco segir að þegar hann hafi áunnið sér Guðrækniorðuna, hafi stuðningur foreldra hans og leiðtoga hans í Piltafélaginu gert gæfumuninn. „Þeir vilja að maður verðskuldi Guðrækniorðuna,“ sagði hann, „og því tengjast mörg verkefnanna því sem maður þegar gerir dag hvern.“ Síðan snýst þetta aðeins um samstarf við foreldra og leiðtoga við framvinduskráningu verkefnanna. „Flest í hinum venjubundna lífsmáta mormóna uppfyllir verkefnakröfur Guðrækniorðunnar – ef maður heldur sig við hann.“ Með öðrum orðum, ef piltur sækir kirkjusamkomur, biðst fyrir reglubundið, nemur ritningarnar og rækir prestdæmidskyldur sínar, er hann á réttri leið.

Verða Stökkhjartarskáti

Aðeins um eitt eða tvö prósent alþjóðlegra skáta hafa hlotið æðstu skátaverðlaunin. Og aðeins um eitt eða tvö prósent þessara Stökkhjartarskáta hafa lokið fleiri en einu af þremur mögulegum verkefnum Könnuða. Rocco hefur áunnið sér öll þrjú afreksverðlaunin og er einn af aðeins þremur skátum í sögu Suður-Afríku sem drýgt hafa þá dáð.

Skáti í Suður-Afríku byrjar sem Sporrekjari, síðan Ævintýramaður, þar næst Fyrsta flokks-skáti og loks Könnuður. Einkennismerki Könnuðar eru þríþætt: Landskáti, Flugskáti og Sjóskáti. Yfirleitt velja skátar eitt af þessu til að einbeita sér að við að ná lokastiginu – Stökkhirtinum. Rocco gerði þetta allt þrennt.

Ásamt öðrum einkennismerkjum og skylduverkefnum eru einnig skyldueinkennismerki sérstaklega tengd hverri tegund Könnuðar: Landkönnuður ávinnur sér Skógarmanns merkið og Kortamerkið. Flugkönnuður ávinnur sér Loftsiglingamerkið og Loftumferðamerkið. Og Sjókönnuður ávinnur sér Stýrimannamerki og Bátsmannsmerkið fyrir siglingu og róður.

Rocco útskýrir að það sé yfirleitt tveggja helga námskeið að læra um það sem gera þarf til að ávinna sér hvert merki. Það eru hvítu merkin – hugmyndafræðin að baki kunnáttunnar. Og svo eru það grænu merkin – hagnýting kunnáttunnar. Til að ávinna sér Skógarmannsmerkið þarf til að mynda fyrst að læra hvernig komast á af í óbyggðum, lesa úr stjörnunum og kveikja eld án eldspýtna. Síðan kemur að hagnýtingunni. Maður er skilinn einn eftir í skóginum í einn sólarhring.

Rocco hefur því verið mjög önnum kafinn við skátastarfið í nokkur ár. Hann var til að mynda upptekinn margar helgar á síðasta ári, frá febrúar til desember. „Svo virtist sem ég væri á merkjanámskeiðum til langframa,“ sagði hann. Rocco hefur að auki síðustu fimm ár verið flokksleiðtogi. Það hefur í för með sér að hann þarf að skipuleggja allar útilegur flokksins. Hann þarf að skipuleggja máltíðir, gera innkaup, samræma flokksfundi, vélrita heimildarblöð fyrir aðra skáta og foreldra þeirra til leyfisundirritunar og hafa umsjá með útilegum.

Einn dýrmætur eiginleiki sem Rocco hefur tileinkað sér er þrautseigja. „Ég náði a.m.k. ekki helmingnum af merkjunum á fyrsta námsskeiðinu,“ sagði hann. „Maður getur tekið námskeiðið aftur innan sex mánaða eða fengið einhvern fullorðinn sem hefur áunnið sér merkið til að leggja fyrir mann próf sem því tengist.“ Eitt verkefnanna í skyndihjálp er til að mynda sáraumbúnaður. „Ég féll á því prófi vegna þess að hnúturinn á einum umbúðunum stóð út úr,“ sagði Rocco. „Svo ég varð að endurtaka sáraumbúnaðarhlutann til að ná öðru stiginu í skyndihjálpinni.“

Auk merkjanna eru fleiri verkefni sem skátar þurfa að ljúka til að ávinna sér Stökkhjörtinn. Eitt þeirra er smíðaverkefni. Rocco valdi að smíða brú. Fyrst varð hann að hanna og smíða burðarþolslíkan af brúnni. Síðan þurfti Rocco að smíða brúna, ásamt sex öðrum skátum, í fullri stærð, um 6 metra háa og 9 metra langa. Það tók nærri níu klukkustundir að smíða brúna og síðan að taka hana í sundur.

Þá er það samfélagsþjónusta, sem er stór hluti af því að ávinna sér bæði Stökkhjörtinn og Guðrækniorðuna. Í þessu Stökkhjartarverkefni heimsótti Rocco yfir 40 heimili eldri borgara til að aðstoða þá við hin ýmsu húsverk og viðgerðir. „Eina stóra verkefnið sem ég gat nýtt bæði fyrir skátana og Guðrækniorðuna, var þetta 40 klukkustunda þjónustuverkefni,“ sagði Rocco.

Af öllum þeim verkefnum sem Rocco lauk við til að hljóta hinar ýmsu viðurkenningar, vísaði hann einkum til eins þeirra sem hafði mest gildi fyrir persónulegan þroska hans: „Að lesa Mormónsbók,“ sagði Rocco hiklaust. „Sú áskorun var stærst og mest gefandi.“

Verða trúboði

„Ég hafði þegar lesið Mormónsbók einu sinni, fyrir ári eða svo, en ég las hana aðeins til að koma því frá,“ sagði Rocco. „Þegar ég tók að lesa hana aftur, vildi ég í raun læra og hljóta vitnisburð um hana.“ Hann las Mormónsbók alla í þetta skipti á allt annan hátt. „Alltaf þegar ég les nú, flyt ég bæn til að biðja himneskan föður um að andi hans verði með mér við lesturinn.“

Rocco er þegar byrjaður á næsta stóra verkefni sínu – að vera virkari í að miðla öðrum vitnisburði sínum og búa sig undir að fara í trúboð. Reynsla hans í skátunum og sem hann hefur hlotið við að ávinna sér Guðrækniorðuna, hefur stuðlað að framþróun hans og búið hann undir að verða trúboði. „Ég þarf að þekkja efni Mormónsbókar til að geta miðlað fagnaðarerindinu og vita að hún er sönn,“ sagði hann. „Eftir að ég las Mormónsbók í annað sinn, hlaut ég vitnisburð um hana.“

Rocco sagði að jafnvel þótt hann ætti ekki kost á að ávinna sér Guðrækniorðuna, hefði hann samt lokið flestum verkefnunum henni tengdri, því hann vildi búa sig undir trúboðsþjónustu. Rocco sækir kirkju, les ritningarnar, biðst fyrir daglega og veitir þjónustu, en það er aðeins hluti af því sem hann gerir til að vera líkt og Síðari daga heilögum ber að vera.

Nú þegar hann hefur hlotið köllun um að þjóna sem trúboði, mun það sem öldungur du Plessis hefur tileinkað sér í lífinu koma að miklu meiri notum heldur en kaðalbrúin sem hann reisti sem Stökkhjartarverkefni. Einhver kunnátta hans sem Skógarmanns, er hann lærði í skátunum, gæti komið að góðum notum þegar hann þjónar í Simbabve, Sambíu og Malavíu.