2007
Gleði iðrunar
Apríl 2007


Lexíur í Nýja testamentinu

Gleði iðrunar

Ljósmynd

Frelsarinn sýndi í allri sinni jarðnesku þjónustu mikla elsku til sona og dætra Guðs – einkum til þeirra sem hrasað höfðu. Í dæmisögunum um týnda sauðinn, týndu drökmuna og glataða soninn leggur Drottinn áherslu á mikilvægi þess að ná til þeirra sem hafa villst af leið eða eru týndir, og gleðina sem menn upplifa þegar þeir hafa snúið aftur (Lúk 15). Hann sagði til að mynda: „Þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem gjörir iðrun, en yfir níutíu og níu réttlátum, sem ekki hafa iðrunar þörf“ (Lúk 15:7).

Ég ætla að leggja áherslu á hina miklu gleði sem þeir upplifa sem iðrast og gleðitilfinninguna sem þeir hljóta sem hjálpa öðrum að takast á við ferli iðrunar.

„Menn lifa, svo að þeir megi gleði njóta“

Gleði er miklu dýpri en aðeins andartaks ánægja eða vellíðan. Sanna gleði eða „ævarandi gleði“ (2 Ne 8:11) hljóta menn þegar þeir upplifa kraft friðþægingarinnar með einlægri iðrun og andlegri staðfestingu á að við getum hlotið aflausn synda okkar fyrir Drottin Jesú Krist og erft eilíft líf.

Spámaðurinn Lehí kenndi að áætlun himnesks föður fyrir hvert okkar er gerð svo við „[megum] gleði njóta“ (2 Ne 2:25) og eina rétta leiðin til að upplifa eilífa gleði er fyrir friðþægingu Jesú Krists.

Þótt við getum ekki hlotið fyllingu gleðinnar í þessu lífi (sjá K&S 93:33–34), getum við upplifað gleði daglega þegar við lifum samkvæmt fagnaðarerindinu. Mormón gaf forskrift að gleði þegar hann sagði um hina trúföstu Nefíta: „Engu að síður fastaði það og baðst oft fyrir og varð sífellt styrkara í auðmýkt sinni og stöðugt ákveðnara í trúnni á Krist, þar til sálir þess fylltust gleði og huggun, já, sem hreinsaði og helgaði hjörtu þess, þeirri helgun, sem fæst með því að gefa hjörtu sín Guði“ (He 3:35).

Fyllast gleði með heilögum anda

Í mörgum ritningargreinum ræða spámennirnir á líkan hátt um það að upplifa gleði og að skynja heilagan anda. Okkur er til að mynda greint frá því í Postulasögunni að „lærisveinarnir voru fylltir fögnuði og heilögum anda“ (Post 13:52). Og Drottinn lofar þeim sem honum fylgja: „Ég mun veita þér af anda mínum, sem mun upplýsa huga þinn, sem mun fylla sál þína gleði“ (K&S 11:13).

Þegar okkur skilst að fylling gleði tengist fyllingu heilags anda, verður okkur ljóst að sönn hamingja felst í því að við iðrumst og séum verðug þess að lifa með andanum. Þegar við skynjum andann getum við auk þess upplifað mikla gleði yfir þeirri vitneskju að verið er að helga okkur frammi fyrir Guði.

Gleðin sem hlýst af iðrun er augljós á mörgum stigum. Fyrst er að nefna gleðina og huggunina sem hin iðrandi sál upplifir í hjarta, þegar byrði syndar er létt af henni. Síðan er það hin djúpa gleði– og kærleikstilfinning sem þeir upplifa sem hjálpa öðrum að takst á við ferli iðrunar. Og loks er það gleðitilfinningin yfir ástúðlegum frelsara, er hann fylgist með okkur fara að áminningarorðum sínum og reiða okkur á græðandi kraft friðþægingar hans.

Þegar við tileinkum okkur friðþæginguna í eigin lífi, verðum við að beina huga okkar að frelsaranum og óendanlegri gjöf hans til okkar, iðka trú á hann og leita andlegrar staðfestingar á að hann geti leyst okkur frá allri synd og misgjörð og muni geta það. Þannig getum við upplifað gleðina og friðinn sem við aðeins getum hlotið með heilögum anda hans. Reynsla okkar verður lík þeirri sem íbúar Sarahemla upplifðu: „Andi Drottins [kom] yfir þá, og þeir fylltust fögnuði yfir að hafa fengið fyrirgefningu synda sinna og frið við samvisku sína vegna mikillar trúar sinnar á Jesú Krist, sem koma mundi samkvæmt orðum þeim, sem Benjamín konungur hafði talað til þeirra“ (Mósía 4:3).

„Til að geta leitt sálir til iðrunar“

Eftir að við höfum upplifað gleðina sem hlýst af blessunum friðþægingarinnar, getum við einnig upplifað gleðina af því að bjóða öðrum að koma til Krists. Alma sagði er hann kenndi syni sínum Helaman: „Ég [hef] erfiðað viðstöðulaust til að geta leitt sálir til iðrunar, til að geta gefið þeim hlutdeild í hinni yfirþyrmandi gleði, sem ég kynntist, svo að þær gætu einnig fæðst af Guði og fyllst heilögum anda.

Já, og sjá nú, ó, sonur minn. Drottinn færir mér mikla gleði yfir ávöxtum erfiðis míns“ (Alma 36:24–25).

Sjálfur frelsarinn kenndi: „Og fari svo, að þér erfiðið alla yðar daga við að boða þessu fólki iðrun og leiðið, þó ekki sé nema eina sál til mín, hversu mikil skal þá gleði yðar verða með henni í ríki föður míns!

Og verði nú gleði yðar mikil með einni sál, sem þér hafið leitt til mín …, hversu mikil yrði þá gleði yðar, ef þér leidduð margar sálir til mín!“ (K&S 18:15–16).

„Hversu mikil er gleði hans yfir þeirri sál sem iðrast“

Loks get ég ekki hjá því komist að hugsa um þá ánægju sem frelsarinn hlýtur að upplifa í hvert sinn er við iðrumst synda okkar og tileinkum okkur friðþægingarfórn hans í eigin lífi. Vissulega undirstrikar Jóhannes tilfinningar frelsarans þar sem hann segir: „Ég hef enga meiri gleði en þá að heyra, að börnin mín lifi í sannleikanum“ (Jóh 1:4). Kristur sagði og vísaði til sjálfs síns: „Hversu mikil er gleði hans yfir þeirri sál sem iðrast“ (K&S 18:13).

Eftir að Jesús hafði frætt Nefítana um friðþægingu sína og það sem þeir þyrftu að gera til að vera flekklausir frammi fyrir honum, tjáði hann þeim tilfinningar sínar þessum orðum: „Gleði mín er mikil, næstum fullkomin, vegna yðar… . Já, og faðirinn, ásamt öllum hinum heilögu englum, fagnar yfir yður og þessari kynslóð, því að enginn þeirra glatast… . Í þeim er gleði mín fullkomin“ (3 Ne 27:30–31).

Ég ber vitni um að við getum einnig í þessu lífi upplifað gleðifyllingu næsta lífs, ef við „beinum sjónum vorum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar. Vegna gleði þeirrar, er beið hans, leið hann þolinmóðlega á krossi, mat smán einskis og hefur nú setst til hægri handar hásæti Guðs“ (Hebr 12:2; leturbr. hér).

Gleði hinnar iðrandi sálar

Við getum lært mikið um gleðina sem hlýst af sannri iðrun með því að ígrunda reynslu Páls og Alma yngri, þótt okkar reynsla hafi ekki verið jafn tilþrifamikil (sjá Post 8:1–3; 9:1–31; Mósía 27:8–31; Alma 36:5–24). Páll og Alma voru áhrifamiklir menn sem fóru um og ofsóttu hina heilögu. Í miðjum klíðum þessara óhæfuverka sinna, var beggja þessara manna vitjað af himneskum sendiboðum. Engill Drottins birtist Alma, en sjálfur Jesús talaði til Páls og sagði: „Hví ofsækir þú mig?“ (Post 9:4).

Báðir mannanna féllu til jarðar vegna þess sem þeir sáu og heyrðu. Alma var gerður mállaus og Páll blindur. En mikilvægara er þó að mennirnir báðir létu á líkan hátt af ranglæti sínu og föllnu ástandi. Páll spurði einfaldlega: „Drottinn, hvað vilt þú að ég geri?“ (Sjá Post 9:6, Biblíu Jakobs konungs). Hann sneri sér samstundis að frelsaranum og fylgdi nákvæmlega fyrirmælum Drottins. Alma lýsti iðrun sinni:

„Meðan ég þannig leið nístandi kvöl og hrjáðist af endurminningunni um hinar mörgu syndir mínar, sjá, þá minntist ég einnig þess að hafa heyrt föður minn spá fyrir fólkinu, að Jesús nokkur Kristur, sonur Guðs, mundi koma og friðþægja fyrir syndir heimsins.

Þegar hugur minn náði nú tökum á þessari hugsun, hrópaði ég í hjarta mínu: Ó Jesús, þú sonur Guðs, vertu mér miskunnsamur, sem fastur er í beiskjugalli og reyrður ævarandi hlekkjum dauðans.

Og sjá. Þegar ég hugleiddi þetta, gleymdi ég kvölum mínum. Já, minningin um syndir mínar hrjáði mig ekki lengur.

Og ó, hvílík gleði, hve undursamlegt ljós ég sá! Já, sál mín fylltist gleði, jafn yfirþyrmandi og kvalir mínar höfðu áður verið!“ (Alma 36:17–20; leturbr. hér).

Öldungur Craig C. Christensen, einn hinna sjötíu.