2007
Hæ! Ég heiti Clara Christensen. Ég á heima í Keewatin, Ontario, Kanada
Apríl 2007


Vinátta

Hæ! Ég heiti Clara Christensen. Ég á heima í Keewatin, Ontario, Kanada

Úr bakgarði Clöru Christensen, sem er 11 ára, er svo fallegt útsýni að það myndi sóma sér vel á póstkorti. Húsið sem hún býr í er á hæðarbrún og við blasir tært og víðáttumikið stöðuvatn, umlukið skógi, sem nær inn í Bandaríkin að sunnan og Manitoba að vestan. Á sumrin lýsir sólin upp vatnið svo af því ljómar. Á veturna er það ísilagt og snjórinn endurkastar fallegri birtu.

Stöðuvatnið og skógurinn umhverfis er ævintýraland fyrir virka útilífsunnendur líkt og Clöru. Á sumrin syndir hún, rær, veiðir og fer í göngur og útilegur. Á veturna hefur hún gaman af skautum, vélsleðaferðum, göngum og skíðum, og að renna sér niður brattar brekkur á teppabútum. Frostið á veturna getur farið niður í -40˚C á næturnar og snjólagið er 1 til 2 metra djúpt. En samt eru veturnir og haustin eftirlætistími Clara.

Þessi harðgerða útilífsstúlka á sér líka áhugamál innandyra. Hún hefur gaman af að lesa, prjóna og leika á flautu og píanó. Hún hefur sett sér það markmið að geta leikið alla sálma og söngva Barnafélagsins. Clara má ekkert aumt sjá og hefur unun af að annast bæði fólk og dýr. Hún passar oft frændsystkini sín og þegar önnur börn eru ekki fyrir hendi, leikur hún sér að brúðunum sínum. Hún hefur líka unun af köttum. Lilo, Hero og Hope laðast að henni og sofa oft hjá henni í rúminu. Henni finnst sagan um Örkina hans Nóa skemmtilegust, vegna allra dýranna í henni. Þegar Clara verður fullorðin vill hún hafa atvinnu af því að hugsa um börn eða ketti.

Hvort heldur hún velur, mun hún vanda til verka, því hún heldur sér að verki þar til því er lokið. Þessi eiginleiki hennar hefur nýst henni vel í sumum erfiðleikum hennar. Clara var greind með barnamálhelti. Það lýsir sér í því að þegar hún hugðist færa hugsanir sínar í orð rugluðust boðin sem bárust milli heila og talfæra, svo hún gat ekki talað skýrt og greinilega. Clara hefur eytt óteljandi stundum í að æfa sig í að hreyfa kjálka, varir og tungu til að ná fram réttum hljóðum og mynda orð úr þeim. Það hefur reynst henni afar erfitt, en með hjálp foreldra sinna hefur hún æft sig þrotlaust til að gera sig skiljanlega. Nú gengur henni vel að tala, þótt hún eigi enn afar erfitt með að segja sum orð.

Á síðast liðnu ári voru börnin í fjórða bekk Clöru beðin að flytja fjögurra til fimm mínútna ræður. Clara kaus að flytja ræðu um Helförina, þar sem hún lést vera stúlka í útrýmingarbúðum. Fyrst þegar hún tók að æfa sig við ræðuflutninginn, var hún tíu mínútur og fjörutíu sekúndur að flytja hana, því henni reyndist afar erfitt að segja sum orðannna. Hún æfði sig aftur og aftur. Ræðuflutningurinn tók smám saman styttri tíma og hún lærði að segja orðin hindrunarlaust. Að lokum tókst henni að flytja ræðuna á fjórum mínútum og fjörutíu sekúndum og bekkjarfélagar hennar völdu hana til að flytja ræðuna fyrir alla í skólanum. Þegar hún hafði flutt hana brutust út mikil fagnaðarlæti meðal allra nemenda. Margir þeirra höfðu þekkt Clara frá því í fyrsta bekk og framfarir hennar virtust kraftaverki líkastar. „Skólastjórinn tárfelldi,“ segir móðir Clara. „Kennari Clöru í öðrum bekk tárfelldi líka. Kennari hennar í fjórða bekk fagnaði innlega. Þetta var svo stór sigur – ein stærsta stund lífs míns!“

Hvað lærði Clara af þessari reynslu? „Haldið áfram að reyna,“ er ráðlegging hennar til barna hvarvetna. „Gefist aldrei upp.“

Bænin átti auðvitað stóran þátt í sigri Clöru. Hún á sterka trú á himneskan föður og Jesú Krist. Barnafélagið, fjölskyldukvöld, ritningarnám og kennsla foreldra hennar hafa hjálpað. Eldri systur hennar hafa líka lagt sitt af mörkum, bæði með góðu fordæmi og lestrarefni sínu. Um leið og Carly, 18 ára, og Josie, 15 ára, urðu 12 ára, tóku þær að setja efni úr tímaritinu New Era á speglana sína. Clara hefur líka lært utanbókar valritningargreinar trúarskólans og lært með systrum sínum boðskap Hinckleys forseta til æskufólks í apríl úgáfu Líahóna 2001.

Faðir hennar er greinarforseti og móðir hennar forseti Stúlknafélagsins, svo Clara tekur þátt í starfsemi greinar sinnar. Kenora–greinin er fámenn á haustin, veturna og vorin. Clara er í raun yfirleitt ein í Barnafélagsbekk sínum, sem amma hennar kennir, en hún er Barnafélagsforseti. En á sumrin, þegar þúsundir ferðamanna streyma að til að njóta náttúrunnar, er fullt af gestum í greininni hvern sunnudag. Clara nýtur þess að eignast alla þessa nýju vini. Fjölskyldan heldur sig fast að kirkjunni allt árið um kring með því að taka þátt í stikustarfi í Winnipeg, Manitoba, sem er í vesturátt og tekur um tvær og hálfa klukkustund að fara þangað. Á heimleið á kvöldin sér hún oft norðurljósin blakta á himninum.

Clara heldur sig líka fast að stórfjölskyldunni. Á aðfangadagskvöld koma frændur og frænkur saman hjá ömmu hennar. Þar er borðað, sungið, jólasokkar hengdir upp, sviðsmynd af fæðingu Jesú sett upp, hlustað á jólafrásögnina og kropið saman í bæn. Á jóladagsmorgun er heittur súkkulaðidrykkur framreiddur og gjafir gefnar. Á jóladagskvöld kemur fjölskyldan saman að nýju á heimili Clöru í matarboð. Á öðrum í jólum eru hinir ýmsu réttir framreiddir á heimili hverrar fjölskyldu.

Clara hefur í uppvextinum notið innblásturs frá náttúrunni, kærleiksríkri fjölskyldu og ljósi fagnaðarerindis Jesú Krists. Áhrifa alls þessa gætir greinilega í viðmóti hennar og fasi. Jafnvel á hinum kaldasta degi vetrar, megnar hún að verma hjarta þeirra sem best til hennar þekkja. Og móðir hennar segir: „Þökk sé Guði fyrir Clöru.“