2007
Þríþættur boðskapur fyrir unga einhleypa
Apríl 2007


Þríþættur boðskapur fyrir unga einhleypa

Ljósmynd

Kæru ungur vinir, þið lifið á tímum mikilla fyrirheita. Aldrei áður í sögu mannkyns hafa valkostir verið jafn margir né tækifærin til velgengni.

Boðskapur minn til ykkar er þríþættur, er þið fótið ykkur í heiminum: Verið virkir þegnar Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, búið ykkur í dag undir morgundaginn og verið fús til að taka á ykkur skyldur hjónabands.

Verið virk í kirkjunni

Þegar þið tryggið ykkur staðgóða menntun, hefjið atvinnu og væntið hjónabands, ættuð þið alltaf að hafa í huga virkni ykkar í kirkjunni.

Hinir ungu einhleypu eru afar hreyfanlegur hópur. Þið breytið oft um heimilisfang og símanúmer. Við hryggjumst sem kirkjuleiðtogar þegar við missum samband við ykkur. Þegar það gerist, náum við ekki til ykkar til að biðja ykkur að taka að ykkur kirkjukallanir og njóta með okkur allra blessana kirkjuaðildar.

Eitt mesta áhyggjuefni okkar er, að margir ungir fullorðnir hafa ekki komið sér fyrir í deild þar sem þeir hafa biskup og biskup ber kennsl á þá. Sérhver þegn þessarar kirkju ætti að vera kunnur biskupi eða greinarforseta og vera ábyrgur gagnvart honum. Slíkt samband gefur ykkur kost á að taka þátt í helgiathöfnum prestdæmisins, fara í viðtöl, tryggja ykkur musterismeðmæli, þegar það á við, og taka á móti köllunum í kirkjunni.

Gott aðgengi ætti að vera að þeim sem hefur prestdæmislykla. Ef þið hafið tvo biskupa, hafið þið engan biskup. Ef meðlimaskýrsla ykkar er ekki í þeirri deild sem þið sækið og þið eruð ekki í stöðu til að taka á móti köllun, munuð þið fljótt átta ykkur á að þið eruð týnd leiðtogum ykkar.

Kirkjuköllun er ein dásamlegasta blessunin sem þið fáið notið á ykkar æviskeiði. Þið hafið svo mikið að gefa deild ykkar eða grein þar sem þið búið. Hæfni ykkar og geta eru nauðsynleg til vaxtar kirkjunni. Ef þið hafið farið í trúboð, getið þið haft áhrif á aðra með eldmóði ykkar og vitnisburði. Köllun er einnig mikilvæg, ef þið hafið enn ekki þjónað í trúboði.

Ef þið hafið ekki komið ykkur fyrir í deild eða grein og biskup ykkar eða greinarforseti þekkir ykkur ekki, hvet ég ykkur til að taka þeirri áskorun minni að leiðrétta það þegar í stað. Verið ábyrg gagnvart prestdæmisleiðtogum ykkar. Systur, leggið á ykkur að þekkja systur Líknarfélagsins á ykkar svæði. Takið þátt í starfi Líknarfélagsins. Ungu menn, verið verðugir þess að axla aukna ábyrgð og taka á ykkur helga sáttmála, sem er hluti af því að þróast frá Aronsprestdæminu upp í Melkísedeksprestdæmið. Komið ykkur fyrir í öldungasveit ykkar á svæðinu og verið virkir þátttakendur.

Ef þið hafið þegar komið ykkur fyrir í deild eða grein, hvet ég ykkur til að huga að vinum eða trúsystkinum, sem prestdæmisleiðtogar þeirra hafa misst sjónar af. Hvetjið þessa vini til að endurvirkja sig í fagnaðaerindinu og verða virkir þátttakendur í kirkjunni.

Búið ykkur í dag undir morgundaginn

Annað atriðið sem ég ætla að minnast á eru viturlegar ákvarðanatökur fyrir framtíð ykkar.

Ég hef átt samstarf við þúsundir nemenda á framhaldsskólaaldri. Ég get með sanni sagt að það sem þið ákveðið með tilliti til menntunar ykkar, atvinnu, hjónabands og kirkjuvirkni, á þessu æviskeiði ykkar, mun marka framtíðarstefnu ykkar.

Ef þið hafið það sem Guðs er í fyrirrúmi, munuð þið taka góðar ákvarðanir. Það er svo auðvelt að taka ákvörðun sem virðist góð á þeirri stundu sem hún er tekin, en síðan, þegar allt er tekið með í reikninginn, verður hún til að leiða ykkur burt úr ríki Guðs. Ekkert annað telst ykkur til tekna í eilífðinni, ef þið búið ykkur ekki í dag undir að dvelja að nýju hjá himneskum föður og syni hans, Jesú Kristi.

Í ritningunum eru nokkrar staðhæfingar sem geta orðið ykkur að gagni. Jesús Kristur sagði: „En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki“ (Matt 6:33).

Við aðrar aðstæður sagði hann: „Sá sem ætlar að finna líf sitt, týnir því, og sá sem týnir lífi sínu mín vegna, finnur það“ (Matt 10:39). Skiljið þið, að með því að týna eigin lífi í þjónustu við aðra getið þið fundið ykkar sanna eðli sem barn Guðs? Hinn valkosturinn – að vera eigingjarn og þjóna ekki Guði eða öðrum – leiðir til þess að þið glatið eigin lífi í eilífum skilningi.

Þegar þið búið ykkur undir framtíðina, er þjónusta ykkar og tenging við starfssemi kirkjunnar mikilvægust.

Tryggið ykkur staðgóða menntun

Við hvetjum ykkur til að afla ykkur staðgóðrar menntunar og verða ykkur úti um þá hæfni sem nauðsynleg er til að fá góða atvinnu, sjá fyrir fjölskyldu og leggja ykkar af mörkum til samfélagsins.

Menntun og starfsþjálfun getur verið kostnaðarsamt Lærið hvernig leggja má til hliðar og eyða því fé skynsamlega sem þið hafið til ráðstöfunar. Það mun lágmarka skuldir ykkar að námi loknu.

Ef þið aflið ykkur menntunar eftir giftingu, krefst það þess að þið og maki ykkar séuð fær um að taka góðar ákvarðanir, og fús til að fórna í þágu fjölskyldu ykkar. Þið verðið að ganga úr skugga um að þörfum fjölskyldu ykkar, atvinnu og menntun sé ekki teflt í tvísýnu.

Hvort sem þið eruð einhleyp eða gift, þá ættuð þið að tileinka ykkur góðar siðareglur í starfi. Verið afkastamikil og eflið starfshæfni ykkar. Verið holl atvinnuveitanda ykkar. Leitið tækifæra til framfara og aukinnar ábyrgðar. Greiðið tíund og fórnargjafir. Leggið hluta af tekjum ykkar fyrir og tileinkið ykkur sparsemi og verið sjálfbjarga.

Þekkið rétt gildi peninga

Ein mesta ákorun þessa æviskeiðs, er að vita hvernig taka á ákvarðanir varðandi peningaútlát.

Brigham Young forseti sagði: „Ef þið viljið verða efnuð, leggið þá fyrir það sem þið aflið. Hvaða kjáni sem er getur unnið sér inn peninga, en það þarf vitran mann til að leggja fyrir og fjárfesta sér í hag.“1

Það er svo margt sem lokkar og vekur áhuga í samfélagi okkar. Slíkt veitir ánægju og afþreyingu. Slíkt er forvitnilegt og virðist nauðsynlegt.

En þó segir frelsarinn:

„Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela.

Safnið yður heldur fjársjóðum á himni, þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela.

Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera“ (Matt 6:19–21).

Gætið þess að viða ekki óskynsamlega að ykkur stundlegum og efnislegum leiktækjum, sem ekki eru ykkur nauðsynleg á þessu æviskeiði. Teljið ykkur ekki trú um að þið þurfið undir eins að afla ykkur alls þess sem foreldrar ykkar áttu þegar þið fóruð að heiman. Í flestum tilvikum hefur það tekið foreldra ykkar áratugi að afla sér þæginda nútímaheimilis, og það er einfaldlega ekki raunhæft að reyna að verða sér úti um slíkt er þið hafið nýlega stofnað eigið heimili.

Ég get borið ykkur vitni um að einhverjar ljúfustu minningar okkar hjóna tengjast fyrstu búskaparárum okkar, er við bjuggum í lítilli íbúð og ég var að ljúka lögfræðinámi. Lífsþægindi okkar voru ekki mikil. En við vissum ekki að við vorum fátæk, því við höfðum hvort annað og blessanir fagnaðarerindisins. Þær blessanir yfirskyggðu algjörlega skort okkar á efnislegum gæðum.

Verið fús til að taka á ykkur ábyrgð hjónabands

Þriðja atriði sem ég ætla að gera grein fyrir – en það tengist fyrri atriðunum tveimur – er fúsleiki til að taka á sig ábyrgð hjónabands.

Bræðurnir hafa miklar og stöðugar áhyggur af því hvort hinir ungu fullorðnu í kirkjunni séu kunnugir kenningu kirkjunnar um hjónabandið. Kenning kirkjunnar varðandi eilífa fjölskyldu er skýr. Ég ætla að vitna í Kenningu og sáttmála:

„Ef maðurinn þess vegna kvænist í heiminum og hann kvænist henni hvorki af mér né eftir mínu orði, og hann gjörir sáttmála við hana og hún við hann, sem gildir svo lengi sem hann er í heiminum, er sáttmáli þeirra og hjónaband ekki í gildi, þegar þau eru látin og farin úr heiminum, og eru þau þess vegna ekki bundin neinu lögmáli, þegar þau eru farin úr heiminum.

Þegar þau eru því farin úr heiminum, kvænast þau hvorki né giftast, heldur eru þau útnefnd englar á himni, en þeir englar eru þjónustuenglar, til þjónustu þeim, sem verðugir eru dýrðar í enn ríkari og eilífari mæli“ (K&S 132:15–16).

Á einföldu og skýru máli, þá er hjónaband um tíma og eilífð nauðsynlegt til upphafningar.

Það sem orðið getur til að fresta hjónabandi

Ég ætla, með vísun í þessar ritningargreinar, að tilgreina nokkra þá þætti sem geta orðið til að fresta hjónabandi.

  1. Sumum kann að finnast að nýlega heimkomnir trúboðar þurfi ekki sérstaklega að hafa hjónabandið að markmiði. Sé það trú ykkar, er hún röng. Hvetja ætti alla heimkomna trúboða til að vera virkir í kirkjunni, afla sér menntunar og starfsþjálfunar og leita sér að eilífum lífsförunaut.

  2. Sumum ungum mönnum finnst þeir ekki geta staðið undir væntingum sumra ungra kvenna. Orðtakið „of miklar væntingar“ er oft notað til að lýsa þeim sem virðast gera meiri kröfur en aðrir fá staðið undir. Góð samskipti geta eytt þeirri óvissu.

  3. Of mikil áhersla á menntun eða starfsframa getur ýtt hjónabandsmálunum til hliðar. Hjónaband, menntun og starfsframi geta átt samleið. Starfsframi án fjölskyldu, sé fjölskylda möguleg, er harmleikur.

  4. Látið ekki líf ykkar aðeins snúast um skemmtanir eða sjálfselsku. Lífið er meira en skemmtigarður. Fallið ekki í þá gryfju að keppast við að afla ykkur eigna. Takið á ykkur ábyrgð.

  5. Neikvæð umfjöllun fjölmiðla eða reynsla fjölskyldu eða vina getur hrætt suma frá hjónabandi. Einhver sagði: „Af hverju að gifta sig þegar hjónaskilnaðir eru svona almennir?“ Þótt hjónaskilnaðir eigi sér stað, þýðir það ekki að þið getið ekki notið hamingju og farsældar í hjónabandi. Látið ekki breytni annarra hafa áhrif á ákvarðanir ykkar. Ákveðið heldur að láta hjónaband ykkar ekki fara út um þúfur.

  6. Sumir vilja ekki stofna til hjónabands af fjárhagsástæðum. Engin skynsemi felst í því að fresta hjónabandi þar til nægilega mikilla peninga hefur verið aflað til að viðhalda ákveðnum lífsstaðli. Stór hluti af sameiginlegri lífsreynslu –, stritinu, aðlöguninni og glímunni við lífsins erfiðleika – glatast sé það gert.

Þetta og margt annað getur orðið til að fresta hjónabandi. Ætlun mín er ekki sú að draga fram allar slíkar ástæður ykkur til ánægju. Ég undirstrika aðeins kenningu kirkjunnar varðandi hjónabandið og hvet ykkur til að sýna nægilega mikla trú til að takast á við þessa mikilvægustu ákvörðun lífs ykkar.

Ótti

Ef ég ætti að velja eitt hugtak sem er best lýsandi fyrir frestun hjónabands, yrði það hugtakið ótti – ótti við framtíðina, ótti við að mistakast o.s.frv. Óttinn er ekki óalgengur. Hægt er að sigrast á honum með undirbúningi og trú.

Þegar postularnir til forna óttuðust að stormurinn færði skip þeirra á kaf, reis Kristur upp, „hastaði á vindinn og sagði við vatnið: Þegi þú, haf hljótt um þig! Þá lægði vindinn og gerði stillilogn.

Og hann sagði við þá: Hví eruð þér hræddir, hafið þér enn enga trú?“ (Mark 4:39–40).

Páll postuli sagði: „Því að ekki gaf Guð oss anda hugleysis, heldur anda máttar og kærleiks og stillingar“ (2 Tím 1:7).

Ég get með sanni sagt, að þegar fólki af minni kynslóð gafst kostur á að giftast réttri manneskju, varð öflun menntunar sett í annað sætið, á eftir hinu gríðar mikilvæga tækifæri, að giftast réttri manneskju. Margir meðal unga fólksins okkar hafa þegar tekið ákvörðun hvað þetta varðar og halda áfram á lífsins braut, jafnvel þótt þau njóti ekki allra þeirra þæginda sem þau annars gætu notið. En þið haldið áfram á lífsins braut í samræmi við eilifa áætlun og að guðlegri forskrift, sem öllum býðst í þessari kirkju.

Fjölskyldan

Ég og systir Tingey eigum fjögur börn og tuttugu og eitt barnabarn, og fyrir nokkru leyfðum við afa og ömmu dætrum okkar að vera hjá okkur yfir nótt. Fimm stúlknanna, frá 6 til 14 ára, komu heim til okkar. Auk þess að vera barnabörn okkar, þá eru þær einnig miklir vinir okkar.

Við borðuðum dásamlega máltíð sem systir Tingey matreiddi. Stúlkurnar bjuggu til eitthvert handverk, sem systir Tingey hafði einnig undirbúið. Að því loknu fórum við í eftirlætis leikina okkar og loks komu þær fram og sýndu afa og ömmu hversu hæfileikaríkar þær eru. Á þeirri hæfileikasýningu sungu þær nokkra Barnafélagssöngva um afa og ömmur, þar á meðal eftirfarandi söng:

Þegar afi kemur er ég glöð,

óskaplega glöð;

klappa höndum og hrópa hátt,

og upp í fang hans fer ég brátt,

höndunum um háls hans vef,

og fast í held er hann ég hef,

strýk um vanga og hans nef,

og stóran koss ég honum gef.2

Fimm afa dætur mínar voru í fangi mér þegar þær sungu þennan söng, umváfu mig örmum, struku mér um vanga og gáfu mér stóra kossa.

Um þetta snýst málið. Þetta er fjölskylda. Þetta er fagnaðarerindið. Þetta tekur öllum efnislegum eigum fram, og öllu því sem hægt er að kaupa fyrir peninga.

Það mun reynast ykkur erfitt að taka ákvarðanir sem áhrif hafa á framtíð ykkar, ef þið ekki fáið skilið hvað framtíðin getur borið í skauti sér hvað fjölskyldu varðar. Fjölskyldan er allt sem skiptir máli. Hún er fremri öllum öðrum samböndum og ákvörðunum.

Ekki munu allir giftast

Mér er ljóst að ekki munu allir giftast í þessu lífi sem þess óska. Áætlun Drottins setur undir þann leka.

Hin dásamlega frásögn um Rut í Gamla testamentinu er um konu sem missti eiginmann sinn og valdi sjálf að láta ekki eigin hugðarefni sitja í fyrirrúmi. Rut var einhleyp, en hún helgaði sig fjölskyldunni og Guði.

Þegar tengdamóðir hennar, Naómí, hvatti hana til að halda áfram á lífsins braut, sagði Rut þessi trúarstyrkjandi orð: „Leggðu eigi að mér um það að yfirgefa þig og hverfa aftur, en fara eigi með þér, því að hvert sem þú fer, þangað fer ég, og hvar sem þú náttar, þar nátta ég. Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð“ (Ruth 1:16).

En eins og ykkur er ljóst, þá kynntist Rut Bóasi síðar á ævi sinni, og þau giftu sig og urðu hlekkir í ættarkeðju Jesú Krists. Allar blessanir, sem trúföstum fylgjendum Drottins var lofað, urðu hennar.

Fjölskyldan er sál og hjarta fagnaðarerindisins. Við þróumst inn í eilífðirnar fyrir tilstilli fjölskyldunnar. Eilíft hjónaband og eilíf fjölskylda er allrar baráttu virði.

Ég bið ykkur að íhuga þennan boðskap sem ég miðla til ykkar. Biðjist fyrir út af honum. Himneskur faðir mun blessa ykkur og gefa ykkur trú í stað ótta, ef þið ákallið hann.

Í auðmýkt ber ég vitni um að séuð þið virk í kirkjunni, hugið vel að framtíð ykkar og eruð innsigluð lífsförunaut um tíma og alla eiífið, mun það stuðla að þeirri gleði sem ykkur er lofað í fagnaðarerindi Jesú Krists.

Úr ræðu sem haldin var á kvöldvöku á vegum Fræðsludeildar kirkjunnar í Ogden–trúarstofnuninni í Utah, 2. maí 2004.

Heimildir

  1. Teachings of Presidents of the Church: Brigham Young (1997), 229.

  2. “Daddy’s Homecoming,” Children’s Songbook, 210.