2007
Kristur þungamiðjan í boðskap Æðsta forsætisráðsins á jólasamkomu þess
Apríl 2007


Kristur þungamiðjan í boðskap Æðsta forsætisráðsins á jólasamkomu þess

„Af öllum hátíðum ársins er engin jafn falleg og jólin,“ sagði Gordon B. Hinckley forseti á hinni venjubundnu jólasamkomu sem haldin var í ráðstefnuhöllinni í Salt Lake City og send út um heim allan.

„Við hugum að hinum nauðstöddu. Elska sigrar illsku. … Elskan verður örlítið heitari, hjörtun örlítið örlátari. Við gerum betur við að styrkja veikburða hné og lyfta máttvana höndum. Við gleðjum börnin. Andrúmsloftið verður töfrum líkast. Mikil gleði hvílir yfir öllu.“

Hinckley forseti sagði frá missi móður sinnar, stuttu fyrir jólin árið 1930, og erfiðum missi eiginkonu sinnar árið 2004 og sagði síðan: „Enn að nýju skín himnesk ímynd sonar Guðs, sem gaf líf sitt svo við mættum lifa, í gegnum allt myrkrið. Í því felst hin sanna merking jólanna, raunveruleiki friðþægingarinnar, sem frelsari heimsins gerði að veruleika.“

Hinckley forseti bar vitni um að frelsarinn gæfi von um sáluhjálp allra, jafnvel á þessum tímum stríðs, átaka og erfiðra vandamála.

Thomas S. Monson forseti, fyrsti ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu, sagði að jólin væru „tími fjölskyldunnar, tími minninganna, tími þakklætis.

Andi jólanna er andi elsku, örlætis og góðvildar. … Ég vona að við höfum öll anda jólanna í hjörtum okkar og lífi, ekki aðeins á jólunum sjálfum, heldur allt komandi ár.“

Monson forseti sagði okkur hafa anda Krists, er við hefðum anda jólanna.

„Jósef og María voru ekki ein um að vera vísað burtu með orðunum ‚eigi [er] rúm,‘ rétt fyrir fæðingu Jesú, því Jesús þurfti oft í þjónustu sinni að hlýða á slíkar kveðjur,“ sagði Monson forseti.

„Á heimilum okkar höfum við stað til að borða á, stað til að sofa á og stað fyrir tómstundir og samveru. En gefum við Kristi rúm í hjarta okkar? Við gefum okkur tíma … til að gera allt sem daglegt líf krefst af okkur. En gefum við Kristi af tíma okkar?“

James E. Faust forseti, annar ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu, sagði að „á þessum árstíma, þegar við minnumst fæðingar [frelsarans], ættum við einnig að gefa okkur tíma til að íhuga af djúpri lotningu dauða hans og undursamlega upprisu.“

Faust forseti lagði áherslu á eina „undursamlega og djúpa kenningu [frelsarans], … : þá, að gera það fyrir aðra sem þeir ekki geta gert sjálfir.“

Faust forseti sagði ónafngreindar gjafir endurspegla elsku frelsarans. Hann sagði: „Ég vil láta þakklæti mitt í ljós til allra þeirra sem ljúka upp hjarta sínu og gefa öðrum.

Þau okkar sem gefa án þess að geta nafns síns, uppskera ljúfa tilfinningu andans, sem vex hið innra þegar við gerum eitthvað fyrir aðra sem ekki verður rakið til okkar. Að gefa án þess að nafn okkar komi fram, ljær gjöfinni æðri blæ helgunar.“