2007
Gáttir himins
Apríl 2007


Gáttir himins

Ljósmynd

Þegar ég var 13 ára fékk ég fyrst alvöru atvinnu. En það var við blaðaútburð. Ég minnist þess enn er ég á hverju kvöldi hjólaði um hverfið mitt í Salt Lake City og kastaði blaði upp á dyraþrep húsanna. Launin voru nú ekkert til að hrópa húrra yfir, en í hverjum mánuði þegar ég fékk þau í hendur, kom aldrei annað til greina en að greiða af þeim tíund. Foreldrar mínir höfðu sett mér fordæmi um að greiða tíund og mér var ljóst að um boðorð Drottins var að ræða (sjá K&S 119:3–4).

Ég man eftir því þegar ég ungur að árum fór með foreldrum mínum í tíundaruppgjör. Það var mér svo eðlilegt að fara til biskupsins og greina honum frá því að ég hefði greitt fulla tíund. Þegar ég svo varð eldri og tók að afla mér tekna greiddi ég alltaf fyrst tíund af þeim.

Þegar að því kom að ég varð faðir, var það mér afar mikilvægt að hvert barna minna færi til biskupsins til tíundaruppgjörs. Við hjónin reyndum að kenna þeim á unga aldri að greiða tíund af þeim litlu upphæðum sem þau fengu hjá okkur, svo að þegar þau yxu úr grasi hefðu þau þegar kynnst blessunum þess og væri ljóst hvað þeim bar að gera.

Blessanir munu koma

Þegar systir Richards og ég giftum okkur vorum við í skóla og höfðum afar lítið handa á milli til að mæta útgjöldunum. Að greiða tíund var mikil fórn fyrir okkur. En það hvarflaði aldrei að systur Richards að nota tíundarfé okkar til að greiða fyrir eitthvað annað sem við þurftum mikið á að halda, líkt og mat eða leigu. Hún krafðist þess að við greiddum tíund okkar fyrst og það gerðum við alltaf. Stundum áttum við aðeins fáeinar krónur eftir þegar við höfðum staðið við allar fjárskuldbindingar okkar, en við virtumst alltaf hafa nóg til að standa skil á þeim. Það var blessun sem við uppskárum af trúfestu okkar við að greiða tíund.

Ein þeirra blessana sem við höfum hlotið fyrir að greiða tíund er sú að ég hef aldrei verið lengi án atvinnu. Í eitt skipti, snemma á starfsferli mínum, missti ég starf mitt, en innan tveggja vikna hafði ég fengið annað starf sem var betur borgað en hið fyrra. Á þeim 25 árum sem ég starfaði hjá einu fyrirtæki, komu oft upp tímabil þar sem mörgu starfsfólki var sagt upp, en mér ekki. Ég trúi því að Drottinn hafi blessað mig á þann hátt fyrir að greiða tíund.

Kæru ungu bræður mínir og systur, ef þið viljið iðka nauðsynlega trú með því að greiða tíund, þá heiti ég ykkur því að þið munuð hljóta blessanir fyrir það. Greiðið tíund án þess að hika, hversu lítið sem framlag ykkar kann að vera. Látið það verða það fyrsta sem þið gerið þegar þið aflið ykkur tekna. Þið munuð þá rækta með ykkur trú til að gera hluti sem þið að öðrum kosti hefðuð ekki getu til að gera. Þið verðið skynsamari í ykkar eigin fjármálum og hljótið ljúfa fullvissu um að þið séuð að gera það sem Drottinn hefur boðið ykkur að gera. Það mun verða ykkur til styrktar og á komandi tíð getið þið búið að þeim styrk.

Ég veit að systir Richards og ég höfum hlotið margar blessanir fyrir að greiða tíund. Ég hef einnig orðið vitni að þeim yfirgnæfandi blessunum sem hinir trúföstu Síðari daga heilögu hafa hlotið á sumum afskekktum landsvæðum heims, vegna þess að þeir hafa greitt tíund.

Kirkjan á Indlandi

Eitt slíkt atvik hafði einkum mikil áhrif á mig. Árið 2000 gafst mér kostur á að vera viðstaddur þegar fyrsta skóflustungan var tekin að byggingu fyrsta samkomuhúss Síðari daga heilagra á Indlandi. Kapella þessi var staðsett í Rajahmundry, sem er borg við austurströnd landsins. Hún telst tiltölulega lítil á Indlandi, jafnvel þótt þar búi þrjár milljónir manna.

Ég ferðaðist til Rajahmundry ásamt eiginkonu minni, trúboðsforsetanum þar, Ebenezer Solomon, og eiginkonu hans. Þegar við komum á hina fjölmennu lestarstöð í Rajahmundry, fann ég til samúðar gagnvart hinum mörgu sem bjuggu við afar bágbornar aðstæður. Margir sváfu þarna á hörðu gólfinu, hvar sem pláss var að finna. Þegar ég kom á svæðið þar sem taka átti skóflustunguna, veitti ég því athygli að hin mikla eymd sem ég hafði rétt áður orðið vitni að stakk í stúf við gleðina sem geislaði af þeim meðlimum sem þar voru saman komnir til að taka á móti okkur. Þeir brostu og veifuðu þegar við nálguðumst. Þeir voru svo glaðir og eftirvæntingarfullir. Þótt þeir byggju einnig við bágbornar aðstæður, voru engin merki um örvæntingu eða tómleika hjá þeim.

Jafnframt tók að renna upp fyrir mér hvers vegna kapellunni hafði verið valin þessi staðsetning. Ég viðurkenni að ég hafði haft nokkrar efasemdir um hvers vegna kirkjan hefði einblínt á þetta afskekkta svæði. En eftir að ég hafði stuttlega rætt við hina heilögu í Rajahmundry, var öllum mínum spurningum svarað. Þessir Síðari daga heilagir voru svo trúfastir og eftirvæntingarfullir að fá sitt eigið samkomuhús.

Eyrir ekkjunnar

Þegar fyrsta skóflustungan hafði verið tekin, kynnti Solomon forseti mig fyrir fjórum ekkjum, sem höfðu verið skírðar fyrir nokkrum árum. Þær voru allar á áttræðisaldri. Solomon forseti sagði mér frá því að allar þessar konur hefðu greitt fulla tíund frá því að þær skírðust. Mér fannst mikið til þess koma að á þessu svæði, þar sem neyðin var svo mikil, hefðu þessar trúföstu systur aldrei misst úr tíundargreiðslu og ég er viss um að þær hafa þurft að fórna miklu til þess.

Ég spurði Solomon forseta að því hve mikið hver systranna greiddi í tíund hvern mánuð. Hann sagði mér hversu margar rúpíur þær greiddu, sem er gjaldmiðill Indlands. Ég áttaði mig ekki á upphæðinni, svo ég spurði hann hversu mikið þær greiddu í bandarískum dollurum. Ég gleymi svari hans aldrei: „Þær greiða um eitt og hálft eða tvö penný.“ Enn var ég minntur á það að tíund snýst ekki um peninga, heldur trú! Ég fann til auðmýktar þegar mér varð ljóst að þessir heilögu hefðu verið blessaðir með kapellu vegna þess að þeir voru fúsir til að fórna með greiðslu tíundar – jafnvel þótt hún væri aðeins örfáir smápeningar. Ég tel víst að Drottinn hafi umbreytt þessum smápeningum í milljónir dollara.

Tíund er ekki tímabundið boðorð – hún er grundvallarregla trúar. Drottinn fer fram á 10 prósent af tekjum okkar og hinkrar svo við til að láta á það reyna hvort við iðkum trú á hann og fórnum á þennan hátt. Hinir heilögu í Rajahmundry áttu slíka trú.

Þegar ég kom á byggingarlóðina fannst mér mikið til þess koma að rauður dregill var lagður frá veginum að tjaldbúðinni þar sem þessir heilögu komu saman. Hann var um 30 metra langur. Undir tjaldhimninum voru rauðir flauelsstólar. Þeir voru stórir og tilkomumiklir. Dregillinn og stólarnir voru slitnir, en þetta var það besta sem þessir heilögu gátu boðið. Þeir vildu ekki gefa minna en sitt besta. Þetta var reynsla sem knúði mig til auðmýktar. Þessir heilögu í Rajahmundry sýndu fordæmi um að veita Drottni af trúfesti, hvort sem það var að greiða tíund sína eða veita af því besta sem þeir áttu til heimsóknar kirkjuleiðtoga.

Ykkur kann að virðast að 10 prósent af tekjum ykkar, miklum eða litlum, komi ekki miklu góðu til leiðar eða séu ekki mjög mikilvæg. Ég heiti ykkur því að þau eru mikilvæg. Það er svo mikilvægt fyrir ykkur að lifa samkvæmt tíundarlögmálinu núna, því það mun efla trú ykkar og búa ykkur undir komandi prófraunir.

Drottinn gaf okkur loforð um, að ef við hlýddum þessu boðorði hans, væri hann bundinn því að veita okkur þá blessun sem hann hefur lofað (sjá K&S 82:10; 130:21). Ég varð vitni að þeirri blessun í lífi hinna heilögu í Rajahmundry og þið getið orðið vitni að þeirri blessun í ykkar lífi, ef þið greiðið tíund af trúfesti.