2007
Hann mun veita yður hvíld
Apríl 2007


Hann mun veita yður hvíld

Ég fann svo til með henni. Mig langaði svo mikið að hjálpa henni, því ég skynjaði að eftirsjá hennar og þrá eftir að breyta rétt var einlæg.

Ég þjónaði sem trúboði þegar ég hitti Súsönnu (breyting á nafni). Tveir trúboðar, sem störfuðu á trúboðsskrifstofunni með mér, höfðu kennt henni og fjölskyldu hennar fagnaðarerindið. Þau höfðu fengið allar lexíurnar og þegið boðið um skírn og staðfestingu. Ég naut þeirra forréttinda að eiga viðtal við þessa dásamlegu fjögurra manna fjölskyldu: Móður, föður, yngri bróður og Súsönnu.

Ég hafði lokið skírnarviðtali mínu við hin þrjú sem voru í fjölskyldunni og komist að því að þau væru eftirvæntingarfull og vel undir það búin að tilheyra ríki Drottins. En þegar Súsanna gekk inn, virtist hún þögul og hikandi við að ræða við mig.

Ég byrjaði á að spyrja hana spurninga um efnið sem henni hafði verið kennt. Hún var vel kunnug frásögninni um spámanninn Joseph Smith og trúði henni. Hún hafði lesið Mormónsbók og vissi að hún var sönn og hún viðurkenndi kirkjuna sem hina einu sönnu og lifandi kirkju á jörðu og vildi tilheyra henni. Ég spurði Súsönnu hvort hún væri fús til að lifa samkvæmt tíundarlögmálinu, Vísdómsorðinu og öðrum boðorðum. Hún sagðist skilja þau og vera fús til að lifa samkvæmt þeim allt sitt líf. Viðtalið var vissulega að miklu leyti líkt þeim sem ég hafði átt við hina í fjölskyldu hennar.

Síðan spurði ég: „Getur þú sagt mér hvað skírlífislögmálið er?“ Yfirbragð hennar breyttist skyndilega. Ég varð brátt viss um að þetta tengdist því hve óörugg hún var í viðtalinu. Áður en ég fékk komið upp orði, huldi hún andlit sitt í höndum sér, hnipraði sig saman og tók að gráta óstjórnlega.

Við sátum saman í nokkrar mínútur án þess að mæla nokkuð. Ég vissi ekki alveg hvað ég ætti að segja og Súsanna hélt áfram að gráta. Ég bað Drottin um hjálp og spurði Súsönnu hvað að væri. Loks lyfti hún höfði og sagði mér frá því að nokkrum vikum áður en hún hefði hitt trúboðana hefðu hún og unnusti hennar gert nokkuð sem trúboðarnir hefðu kennt henni að væri rangt samkvæmt lögmálum Drottins. Hún hafði þegar sagt unnusta sínum frá því sem hún hafði lært og greint honum frá að hún vildi ekki lengur vera í slíku sambandi. Hún lagði til við hann að hann hitti trúboðana og hlýddi á það sem hún nú vissi að var sannleikur. En sektarkenndin út af breytni hennar hafði samt íþyngjandi áhrif á sál hennar.

Ég fann svo til með henni. Mig langaði svo mikið að hjálpa henni, því ég skynjaði að eftirsjá hennar og þrá eftir að breyta rétt og láta skírast var einlæg. Á þeirri stundu hlaut ég greinilegt svar við bæn minni. Ég spurði hana: „Súsanna, mundir þú vilja vera laus við sektina og sársaukann af þessari synd þinni?“ Enn á ný birgði hún andlit sitt og hneigði höfuðið. Hún sagði aðeins eitt orð: „Já.“ Tár hennar streymdu jafnvel enn tíðar og ég veitti henni huggun með því að ræða um friðþæginguna og hvernig hún gæti tileinkað sér hana í eigin lífi. Ég útskýrði að einn tilgangur skírnar og staðfestingar væri að veita sálum þeirra lækningu sem væru einlæglega iðrandi og ég vissi án alls vafa að hún var einlæg.

Við lukum viðtalinu með bæn. Andi Drottins var greinilega nálægur og áhrifin sterkari en ég hafði nokkurn tíma áður fundið í viðtali.

Félagi minn og ég komum í kapelluna nokkru fyrir skírnarathafnirnar. Enginn tími gafst til að ræða við Súsönnu eða fjölskyldu hennar fyrir skírnina. Eftir söngvana og ræðurnar, voru þau skírð – fyrst móðir hennar, svo faðir hennar og þá bróðir hennar og loks Súsanna. Hún gekk niður í skírnarfontinn og bros hennar sagði allt sem segja þurfti – græðandi smyrsl meistarans var að verki í hjarta hennar. Þegar hún steig upp úr vatninu voru tár á hvörmum hennar og mínum. Bros hennar var jafnvel enn breiðara en áður og ásýnd hennar ljómaði. Á þessari stundu skildi ég hvers vegna frelsarinn sagði: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld“ (Matt 11:28).

Við ræddumst aðeins stuttlega við eftir skírnirnar. Ég bauð fjölskylduna velkomna sem nýja þegna í ríki Drottins. Þegar ég tók í hönd Súsönnu langaði mig til að segja henni hversu mikils virði þessi reynsla hefði verið mér. Ég hafði iðrast í lífi mínu og skynjað kraft friðþægingarinnar, en ég var þakklátur fyrir að hafa skynjað hana enn kröftugar en áður, vegna samskipta minna við hana.

Það er í sjálfu sér átak að ganga í kirkjuna. En að ganga í hana við þessar erfiðu aðstæður, hlaut að vera jafnvel enn meira átak fyrir Súsönnu, líkt og það er fyrir marga aðra nýja meðlimi. En friðþæging Jesú Krists gerði áskorun þessa yfirstíganlega og leiddi til þess að þessi dásamlega dóttir Guðs snerist til trúar og hlaut lækningu sálarinnar. Og kenndi einnig hrifnæmum ungum trúboða þá mikilvægu lexíu, að tileinka sér friðþæginguna í eigin lífi.