2007
Sonur minn lifir einnig
Apríl 2007


Sonur minn lifir einnig

Kona nokkur í deild minni kenndi mér dýrmæta lexíu um þann frið sem hlýst af staðfastri trú á Jesú Krist og friðþægingu hans.

Konu þessari var heitið í patríarkablessun sinni að hún fengi að upplifa gleði móðurhlutverksins. En ár liðu og hún og eiginmaður hennar báðust fyrir og væntu þess að eignast barn. Loks kom að því að þau voru bænheyrð. Í níu mánuði var líf þeirra fullt gleði og undirbúnings. Þau máluðu herbergi fyrir barnið, keyptu húsgögn, fatnað og annað sem ungbörn þurfa á að halda, og báðust oft fyrir. Læknarnir sögðu hana ekki geta eignast annað barn að þessu loknu, svo allir hennar draumar voru bundnir þessu barni.

Dagurinn rann upp er systir þessi fæddi barnið og heyrði grátur þess.

„Þetta er fallegur drengur,“ sagði hjúkrunarkonan.

Hin nýorðna móðir lauk aftur augum og bar fram þakkarbæn. Fjórum mínútum síðar lést barnið hennar.

Ég sá hana á sakramentissamkomu tveimur vikum síðar. Hún gekk fremst í kapelluna, því hún var söngstjórnandi og fékk sér sæti við hlið orgelsins. Hún stjórnaði og við sungum: „Ég veit minn lifir lausnarinn“ (Sálmar, nr. 36). Hún stóð keik og bein, ásjóna hennar ljómaði, vitnisburður hennar lýsti. Endrum og eins átti hún í vandræðum með textann. En hún kyngdi og beit á jaxlinnn. Hún hætti svo að syngja, en hélt áfram að stjórna söngnum með hendinni.

Síðar gaf þessi systir vitnisburð sinn, er tárin streymdu niður vangana, og hún sagði: „Ég veit að lausnari minn lifir. Ég veit að hann er réttlátur og að hann elskar okkur. Og vegna þess að hann lifir, þá lifir sonur minn einnig.“

Í trú hennar fann ég fullvissu um raunveruleika frelsara okkar, sem með friðþægingu sinni gerir ódauðleika okkar og eilíft líf að veruleika. Sonur hennar var tekinn í burtu, en hún vissi að hann yrði endurreistur henni að nýju.