2007
Sakramentið og fórnin
Apríl 2007


Sígildar trúarsögur

Sakramentið og fórnin

David B. Haight fæddist 2. september 1906, í Oakley, Idaho, foreldrum sínum Hector C. og Clara Tuttle Haight. Hann kvongaðist Ruby Olson í Salt Lake musterinu 4. september 1930. Áður en hann var kallaður sem aðalvaldhafi hafði hann notið velgengni í fasteignaviðskiptum. Hann var einnig bæjarstjóri í Palo Alto, Kaliforníu og í forsæti skoska trúboðsins. Hann var vígður postuli 8. janúar 1976. Hann lést 31. júlí 2004, 97 ára að aldri.

Ljósmynd

Fyrir sex mánuðum, í apríl á aðalráðstefnu, tók ég ekki þátt í ræðuhöldum, þar sem ég þurfti að ná mér eftir alvarlega skurðaðgerð. Lífi mínu hefur verið þyrmt og ég nýt nú með ánægju blessana, hughreystingar og hjálpfýsi bræðranna í Æðsta forsætisráðinu og Tólfpostulasveitinni og annars dásamlegs samstarfsfólks og vina, sem ég stend í þakkarskuld við og sem umluktu ástkæra eiginkonu mína, Ruby, og fjölskyldu mína, með tíma sínum, umhyggju og bænum… .

Þetta kvöld þegar heilsan brást mér, varð mér ljóst að eitthvað mjög alvarlegt væri að mér. Allt gerðist þetta svo snögglega – sársaukinn varð skerandi, mín ástkæra Ruby hringdi í lækninn og fjölskyldu mína og ég á hnjánum við baðkarið í von um að sársaukanum létti. Ég sárbað himneskan föður um að þyrma lífi mínu um stund svo ég gæti lagt mig fram við að vinna verk hans, væri það hans vilji.

Ég tók að missa meðvitund meðan ég baðst fyrir. Sírenur sjúkrabílsins voru það síðasta sem ég heyrði áður en ég missti alveg meðvitund, sem varði í nokkra daga.

Skerandi sársaukinn og skarkalinn í fólkinu fjaraði út. Ég komst í kyrrlátt og friðsælt ástand; allt varð stillt og hljótt. Ég sá í fjarlægð tvo einstaklinga standa á hæð og stóð annar hærra en hinn. Ég greindi ekki sérkenni umhverfis. Sá sem stóð hærra benti á eitthvað sem ég ekki sá.

Ég heyrði engar raddir, en var meðvitaður um að ég væri í helgri návist og helgu umhverfi. Á þeim stundum og dögum sem á eftir fylgdu varð ég stöðugt fyrir hughrifum um eilíft hlutverk og upphafna stöðu mannssonarins. Ég ber ykkur vitni um að hann er Jesús Kristur, sonur Guðs, lausnari allra, frelsari alls mannkyns, sá er veitir ótakmarkaða elsku, miskunn og fyrirgefningu, ljós og líf heimsins. Ég þekkti þennan sannleika áður – um hann hafði ég aldrei efast. En nú hlaut ég á einstæðan hátt vitneskju um þennan guðlega sannleika, vegna þess að andinn hafði áhrif á hjarta mitt og sál.

Ég hlaut yfirgripsmikla sýn yfir jarðneska þjónustu hans: Yfir skírn hans, kennslu, lækningu sjúkra og lamaðra, háðuleg réttarhöldin, krossfestingu hans, upprisu og uppstigningu. Í kjölfarið sá ég í huga mér jarðneska þjónustu hans í smáatriðum, sem staðfesting á frásögnum sjónarvotta ritninganna. Ég hlaut kennslu, og heilagur andi Guðs veitti mér skilning á mörgum hlutum.

Fyrsta sögusviðið var af frelsaranum og postulum hans í þakherberginu á því kvöldi er hann var svikinn. Að lokinni páskakvöldmáltíðinni, veitti hann fræðslu og reiddi fram sakramenti kvöldmáltíðar Drottins, fyrir kæra vini sína, til minningar um fórnina sem fyrir höndum var. Þetta var mér svo áhrifarík opinberun – yfirþyrmandi elska frelsarans til hvers okkar. Ég var vitni að umhyggju hans og mikilvægum smáatriðunum – er hann laugaði rykuga fætur hvers postula, braut og blessaði dökkt brauðið og blessaði vínið og síðan afhjúpaði hin hræðilegu svik eins þeirra.

Hann útskýrði brotthvarf Júdasar og sagði hinum frá því sem fyrir dyrum stæði.

Í kjölfarið fylgdi svo þessi mikilvæga fræðsla frelsarans til hinna ellefu: „Þetta hef ég talað við yður, svo að þér eigið frið í mér. Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn“ (Jóh 16:33).

Frelsari okkar bað til föður síns og játaði föðurinn sem uppsprettu valds síns og kraftar – jafnvel veitingu eilífs lífs til allra sem eru þess verðugir.

Hann bað: „En það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“

Jesús bætti síðan við af lotningu:

„Ég hef gjört þig dýrlegan á jörðu með því að fullkomna það verk, sem þú fékkst mér að vinna.

Faðir, gjör mig nú dýrlegan hjá þér með þeirri dýrð, sem ég hafði hjá þér, áður en heimur var til“ (Jóh 17:3–5).

Hann bað ekki aðeins fyrir lærisveinunum, sem úr heiminum voru kallaðir, og verið höfðu hollir vitnisburðinum um hann, „heldur og fyrir þeim, sem á mig trúa fyrir orð þeirra“ (Jóh 17:20).

Þegar Jesús og hinir ellefu höfðu sungið sálm, fóru þeir til Olíufjallsins. Þar í garðinum tók frelsarinn á sig, á einhvern þann hátt sem við ekki fáum skilið, syndabyrði mannkyns, allt frá Adam til loka heimsins. Að sögn Lúkasar var angist hans í garðinum svo mikil að „sveiti hans varð eins og blóðdropar, er féllu á jörðina“ (Lúk 22:44). Angist hans og byrði voru slíkar að enginn maður hefði getað þolað þær eða borið. Á þeirri stundu angistar sigraðist frelsarinn á öllum krafti Satans.

Hinn dýrðlegi Drottinn opinberaði Joseph Smith þessi aðvörunarorð, ætluð öllu mannkyni:

„Þess vegna býð ég þér að iðrast… .

Því að … ég, Guð, hef þolað þetta fyrir alla, svo að þeir þurfi ekki að þjást, ef þeir iðrast– …

Þjáningu, sem varð þess valdandi, að ég, sjálfur Guð, æðstur allra, skalf af sársauka og blóð draup úr hverri svitaholu, …

Þess vegna býð ég þér enn að iðrast, ella auðmýki ég þig með almáttugu valdi mínu, og að þú játir syndir þínar, ella verður þú að þola þær refsingar“ (K&S 19:15–16, 18, 20).

Á þessum tíma meðvitundarleysis, hlaut ég fyrir kraft heilags anda fullkomnari þekkingu á hlutverki hans. Mér veittist fyllri skilningur á merkingu þess að nota í hans nafni valdið til að ljúka upp leyndardómum himnaríkis, til sáluhjálpar öllum hinum trúföstu. Sál mín var aftur og aftur frædd um atburði svikanna, réttarhöld múgsins og jafnvel hýðingu holds eins af Guðdóminum. Ég varð vitni að því er hann í vanmætti barðist upp hæðina með krossinn, er hann var settur á hann á jörðinni og grófir fleygarnir negldir í gegnum hendur hans og fætur með slaghamri, til að tryggja að líkami hans væri vel fastur meðan hann hékk á krossinum fyrir allra sjónum.

Krossfestingin – hinn hræðilegi og sársaukafulli dauðdagi – var ákveðin allt frá upphafi. Með þessum kvalafulla dauða, sté hann niður fyrir allt, líkt og skráð er, svo að hann gæti, fyrir upprisu sína, risið ofar öllu (sjá K&S 88:6).

Jesús Kristur dó raunverulega, líkt og við öll deyjum. Líkami hans lá í gröfinni. Hinn ódauðlegi andi Jesú, útvalinn sem frelsari mannkyns, fór til hinna ótalmörgu anda sem skilið höfðu við jarðlífið á hinum ýmsu stigum réttlætis bundnum lögmálum Guðs. Hann greindi þeim frá „hinum dýrðlegu tíðinum endurlausnar frá hlekkjum dauðans og um mögulega sáluhjálp … [sem var] hluti af forútnefndri og einstakri þjónustu frelsara [okkar] í þágu alls mannkyns.“1

Mér er varla unnt að veita ykkur skilning á djúpum áhrifum þessarar sýnar á sál mína. Ég skynja eilífa þýðingu hennar og er ljóst að „ekkert í allri sáluhjálparáætluninni er á nokkurn hátt samanburðarhæft við mikilvægi hins dýrðlegasta allra atburða, friðþægingu Drottins okkar. Hann er það mikilvægasta sem gerst hefur í allri sköpunarsögunni; hann er undirstöðubjargið sem fagnaðarerindið og allt annað hvílir á,“2 líkt og greint hefur verið frá.

Faðirinn Lehí kenndi syni sínum, Jakob, og okkur einnig: „Vegna þessa felst endurlausnin í heilögum Messíasi og kemur með honum, því að hann er fullur náðar og sannleika.

Sjá, hann færði sjálfan sig fram sem fórn fyrir syndina til að uppfylla tilgang lögmálsins fyrir alla þá, sem hafa sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda. Og uppfylling lögmálsins kemur engum öðrum að gagni.

Hversu mikilvægt er það því ekki að kynna íbúum jarðar þetta, svo að þeim sé ljóst, að ekkert hold getur dvalið í návist Guðs nema fyrir verðleika, miskunn og náð heilags Messíasar, sem fórnaði lífi sínu í holdinu og tók það aftur fyrir kraft andans til að koma til leiðar upprisu dauðra og verða sjálfur hinn fyrsti til að rísa upp.

Hann er þess vegna frumgróði Guðs, þar eð hann mun annast meðalgöngu fyrir öll mannanna börn, og þeir, sem á hann trúa, munu frelsast“ (2 Ne 2:6–9).

„Dýrmætasta tilbeiðsluupplifun okkar á sakramentissamkomu er hin helga athöfn sakramentis, því hún gefur okkur kost á að beina huga og hjarta að frelsaranum og fórn hans.

Páll postuli varaði hina fyrri heilögu við að eta brauðið og drekka bikar Drottins óverðug“ (sjá 1 Kor 11:27–30).

Sjálfur frelsari okkar kenndi Nefítum: „Hver sá, sem óverðugur etur og drekkur hold mitt og blóð, etur og drekkur sálu sinni til fordæmingar“ (3 Ne 18:29)

Þeir sem verðugir meðtaka sakramentið eru í samhljóm vð Drottin og taka á sig sáttmála við hann um að hafa fórn hans í þágu heimsins ávallt í huga, taka á sig nafn Krists og hafa hann ávallt í huga og halda boðorð hans. Frelsarinn gerir sáttmála um að þeir sem það gera muni hafa anda hans með sér og erfa eilíft líf, séu þeir trúfastir allt til enda.

Drottinn opinberaði Joseph Smith, að „engin gjöf [væri] meiri en gjöf hjálpræðisins“ (K&S 6:13), en sú áætlun inniheldur helgiathöfn sakramentis, til stöðugrar áminningar um friðþægingarfórn frelsarans. Hann gaf fyrirmæli um að „kirkjan komi oft saman til að meðtaka brauð og vín í minningu Drottins Jesú“ (K&S 20:75).

Öll hljótum við ódauðleika sem endurgjaldslausa gjöf aðeins fyrir náð Guðs, án réttlætisverka. Eilíft líf er hins vegar umbun fyrir hlýðni við lögmál og helgiathafnir fagnaðarerindis hans.

Ég ber ykkur öllum vitni um að himneskur faðir svarar réttlátum bænum okkar. Þessi aukna þekking sem ég hef hlotið hefur haft djúpstæð áhrif á líf mitt. Gjöf heilags anda er ómetanleg eign og lýkur upp dyrum áframhaldandi þekkingar um Guð og eilífa gleði.

Úr aðalráðstefnuræðu, október 1989.

Heimildir

  1. James E. Talmage, Jesus the Christ, 6. útg. (1922), 671.

  2. Bruce R. McConkie, Mormon Doctrine, 2. útg. (1966), 60.