2007
Frelsi til að dansa
Apríl 2007


Frelsi til að dansa

Ballettdansmær svífur yfir sviðið – snýr sér í hringi og stekkur upp í loftið, svo auðveldlega að svo virðist sem þyngdaraflið sé ekki fyrir hendi. Allar hennar hreyfingar tjá frelsi.

Þegar Maria Victoria Rojas Rivera frá Chile – kölluð Mavi af vinum sínum – var fjögurra ára ákvað hún, líkt og margar litlar telpur, að verða ballettdansmær. Og líkt og allar aðrar litlar telpur uppgötvaði hún fljótt að yndisþokkinn og frelsið sem hún sá á sviðinu var nokkuð dýru verði keypt. Áreynslan og sjálfsaginn sem það krefst að verða atvinnuballettdansmær er mörgu ungu draumórafólkinu um megn.

Gjald draumsins

„Á bernskuárum skilur maður ekki fórnina að baki þessu,“ sagði Mavi. „Þegar ég byrjaði að læra ballett, sagði kennari okkar að við yrðum dansandi hálfa ævi okkar. Við yrðum að gefa margt upp á bátinn.“

Eins og frítíma og ákveðið mataræði. Mavi varð að leggja mikla vinnu og áreynslu í æfingar og þjálfun. Hún varð að gæta vandlega að því sem hún borðaði. Og að skóla og dansæfingum loknum, var ekki mikill tími eftir til að sinna vinunum.

Mavi ákvað að þessi draumur væri henni svo mikilvægur að hún ætlaði að reyna.

„Unglingsárin geta verið nokkuð erfið,“ segir hún. „Vinir mínir skildu ekki alltaf hvers vegna ég vildi ekki borða ákveðnar matartegundir eða vera með þeim fram eftir kvöldi.“

Gjald frelsis

Mavi lærðist snemma, að það sem virtist takmarka frelsi hennar var í raun það eina sem hún gat gert til að losa sig við það sem komið gæti í veg fyrir að hún næði markmiði sínu.

„Ég valdi að vera ekki úti fram eftir og ég valdi að stunda æfingar í stað þess að fara í verslanir með vinum mínum,“ sagði Mavi. „Ef ég væri of þreytt vegna þess að ég var úti fram eftir kvöldi, eða ég kunni ekki danssporin vegna æfingarleysis, þá gæti ég ekki dansað.“

Slíkur sjálfsagi er ekki auðveldur, en að sögn Mavi er hann þess virði.

„Allir verða fyrir því að undanlátsemi nær yfirtökum,“ játar Mavi, „en maður getur valið. Sjálfsagi getur virst takmarkandi, en hann er valkostur. Og ég vel að takast á við þennan lífsstíl til að geta dansað.“

Langtíma markmið

Á einhverjum tímapunkti á leið Mavi til að verða ballettdansmær, varð henni ljóst að dansinn var ekki eina markmið hennar eða takmark sem var þess virði að fórna sér fyrir.

Á þeirri leið hlaut hún þrá eftir að fylgja Jesú Kristi, og henni varð ljóst að það sem hún hafði lært um sjálfsaga í ballettinum átti einnig við um reglur fagnaðarerindisins. Rétt eins og vinir hennar spurðu hana hvers vegna hún fórnaði sér svona fyrir dansinn, spurðu þeir hana einnig hvers vegna hún lifði eftir svona heftandi trúarreglum.

„Ég útskýrði að við hefðum frelsi til að velja og að ég hefði valið þennan lífsstíl til að vera frjáls frá synd og hafa heilagan anda hjá mér,“ segir hún.

Frelsarinn orðaði það svo, að við yrðum að „[taka] kross [okkar],“ sem er að hafna öllu óguðlegu og lostafullu og halda boðorð Guðs (sjá Þýðingu Josephs Smith, Matt 16:26). Slíkur sjálfsagi veitir okkur „frelsi og eilíft líf fyrir atbeina hins mikla meðalgöngumanns,“ en reyni menn hins vegar að lifa án boðorðanna, mun það kalla yfir þá „helsi og dauða í samræmi við ánauð og vald djöfulsins“ (2 Ne 2:27).

„Hlýðni leiðir til meira frelsis og friðar en nokkuð annað,“ segir Mavi. „Markmið mín einskorðast ekki við jarðlífið, heldur eilífðina.“

Fórnarinnar virði

Mavi svífur um sviðið líkt og laufblað í vindi, í síbreytilegum hreyfingum líkamans, frá einni stöðu til þeirrar næstu – développé og pirouette, glissade og grand jeté.

Ballettdansmær getur beitt líkama sínum á þann hátt að flestir aðrir myndu meiðast af. Þetta frelsi líkamlegra hreyfinga er nauðsynlegt til að geta tjáð sig við áhorfendur. En þótt ballettdansmær geti látið allar hreyfingar líta út sem áreynslulausar á sviðinu, þá hefur hún reynt mikið á sig utan sviðsins.

Að loknum átta erfiðum árum og margra klukkustunda æfingum dag hvern, hefur draumur hennar um að dansa á sviði ræst – og einnig hvað fagnaðarerindinu viðkemur.

„Fólki finnst hreyfingarnar svo fallegar og þokkafullar,“ segir Mavi. „En hreyfingarnar eru afar nákvæmar. Það þarf mikinn styrk til slíkrar líkamsstjórnunar.“

Samlíkingin við fagnaðarerindið er mikilvæg. Það þarf styrk til að fylgja Kristi. Og launin eru ljúf.

„Laun þess að hafa fært slíkar fórnir eru þau að ég get dansað,“ segir Mavi. „Mér finnst ég sterk og ég skynja leiðsögn heilags anda í hverju spori sem ég tek – á sviðinu og utan þess.“

Dansinum enn ekki lokið

Að Nefís sögn, verðum við að standast allt til enda, þegar við höfum þrá til að fylgja Kristi og meðtaka skírn og staðfestingu (sjá 2 Ne 31:19–20). Fyrir Mavi krefst ballettinn álíka helgunar.

Hún sneri aftur til Viña del Mar, Chile, eftir að hafa dansað í Paragvæ, til að kenna í nokkur ár. Nú ætlar hún að fara á næsta stig í dansinum. Hún hefur sett sér ný markmið, sem hafa leitt hana til Argentínu, Þýskalands, Írlands og Spánar, til að afla sér lærdóms og reynslu hjá hinum ýmsu balletthópum.

Henni er ljóst að hún verður að halda áfram að æfa af krafti – bæði fyrir sviðið og hvað fagnaðarerindið varðar. Hún verður að halda áfram að beita sig aga, ef hún ætlar sér að njóta þess frelsis sem dansinn veitir. Og hún verður að halda áfram í trú, ef hún ætlar sér að njóta þess frelsis sem staða lærisveinsins veitir. „Ef þér eruð stöðugir í orði mínu,“ sagði Drottinn, „eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa“ (Jóh 8:31–32).

Dansað af visku

Mavi verður að æfa sig af krafti utan sviðsins til að vera í formi og viðhalda hreysti sinni. Auk þess að gæta vel að mataræði sinu og að vera vel hvíld, æfir Mavi heilmikið og dansar a.m.k. fimm klukkstundir næstum dag hvern. En hún leggur ekki aðeins rækt við sjálfa sig vegna þess að hún er dansmær.

„Ég hef einnig skilning á því sem meðlimur kirkjunnar að líkami minn er musteri anda míns. Ég þarf á því að halda sem listamaður að allir hlutar líkama míns starfi rétt, svo ég verð að vernda hann eins vel og mér er framast unnt. En mér var þegar ljóst sem meðlimur að ég ætti að gera það.“

Vitnisburður hennar um innblásið eðli Vísdómsorðsins hefur styrkst af reynslu hennar af ballettinum. „Maður finnur það þegar maður er hirðulaus hvað líkamann varðar,“ segir hún.

Ef maður er ballettdansmær, þarf maður að leggja rækt við sjálfan sig, en Mavi segir: „Við ættum öll að leggja rækt við líkama okkar, jafnvel þótt við séum ekki dansarar. Við fáum ekki að velja okkur líkama, en öll ættum við að vera þakklát fyrir og leggja rækt við það sem okkur hefur verið gefið. Hann er gjöf frá Guði og öllum er okkur gefinn líkami í ákveðnum tilgangi.“