2007
Ljóðið
Apríl 2007


Ljóðið

Þegar ég var barn fann ég ljóð á blaðsíðu sem hafði verið rifin úr bæklingi, er einhver hafði tætt í sundur og hent á gangstéttina. Ég ólst upp í fjölbýlishúsi félagsíbúða og var einfari, en átti mér þrjú áhugasvið: Bækur, kvikmyndir með Elvis Presley og ljóðlist. Ég hafði yndi af ljóðlist. Hún höfðaði til mín á einhvern þann hátt sem ég fæ ekki skilgreint: Engin orð virðast geta lýst því. Ljóðið vakti forvitni mína og ég tók því síðuna og fór með hana heim.

Ég las ljóðið dag hvern og stundum nokkrum sinnum á dag á komandi árum. Þegar ég sat í námsbekkjum, gekk á milli námsbekkja, sat ein í frímínútum, kom hluti ljóðsins upp í huga minn. Ég hafði aldrei lært ljóð utanbókar áður, en öðru gegndi um þetta ljóð. Það var eitthvað í ljóðinu sem höfðaði til mín og snerti mig.

Framandi’ að sé hér í heimi,

hvíslar eitthvað þrátt mér að,

og mér segist ég hef reikað

úr öðrum sælu meiri stað.

Ég var alltaf öðruvísi en önnur börn. Mér fannst stundum ég vera frá öðrum stað og ef ég reyndi ákaflega gæti hann rifjast upp fyrir mér. Ljóðið jók þessar tilfinningar. Endrum og eins náði ég í það úr skúffunni til að lesa það. Ég velti fyrir mér hve margir í heiminum væru eins og ég og hvort ég myndi einhvern tíma hitta eitthvert þeirra.

Dýrðar sendiför lést fara,

faðir mig til jarðar hér,

frumtilveru og fyrri vina

fallna gleymsku lést þú mér.

Þið getið ímyndað ykkur hvernig mér leið þegar ég mörgum árum síðar sat á minni fyrstu sakramentissamkomu, sem trúarnemi, og lauk upp sálmabókinni á tiltekinni síðu og sá ljóðið sem ég hafði fundið fyrir mörgum árum. Útsetningin var ekki nákvæmlega eins og sálmsins sem ég hafði sungið upphátt þegar ég átti erfitt með svefn eða vaknaði upp grátandi um miðja nótt, en ég þekkti lagið sem spilað var á píanóið.

Ó, minn faðir, æ sem ríkir

í þeim dýrðarsölum há,

hvenær skal mér endurauðnast

auglit dýrðar þitt að sjá.

Meðan allir aðrir sungu „Ó, minn faðir“ (Sálmar, nr. 96), sat ég aðeins og grét, meðvituð um að Guð hafði sett þennan sálm á veg minn sem barn.

Í þínum helgu híbýlunum

hlaut tilveru andi minn.

Á frumbernsku aldri mínum,

ég leit maktar kraftinn þinn.

Þar sem ég sat á sakramentissamkomunni og hlustaði á ljóðið mitt sungið af söfnuðinum, vissi ég að ég var á réttri leið. Mér varð ljóst að það sem trúboðarnir höfðu kennt mér var sannleikur. Ég vissi að Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu væri eina sanna kirkja Guðs á jörðu. Og þegar ég því spurði Guð hvort hún væri sönn fyrir honum, hvort ég ætti að taka á móti skírn og staðfestingu í kirkjunni, kom mér það ekki á óvart að fá jákvætt svar.

Að lokinni þriggja vikna kennslu öldungs Walkers og öldungs Whittaker, var ég skírð niðurdýfingarskírn af öldungi Walker. Ég var hrein, hreinni en ég hafði áður upplifað eða ímyndað mér að hægt væri að vera. Í prestdæmishringnum, meðal þessara öldunga sem staðfestu mig sem meðlim, var biskup minn, maðurinn sem svaraði í símann daginn sem ég hringdi til að fara þess á leit að trúboðar kæmu heim til mín.

Hið kæra ljóð mitt hljómaði í ljúfu stefi meðal allra sem ég þar þekkti og í hverju því skrefi sem leiddi mig í kirkjuna – orð sem haft höfðu áhrif á hjarta sem þráði að nýju að þekkja sinn eilífa föður.

Þig að kalla þekkti föður,

þó hvers vegna vissi ei par,

uns til jarðar endursendir

anda og lykil viskunnar.