2007
Laufskálakórinn heiðraður með viðurkenningunni Móðir Teresa
Apríl 2007


Laufskálakórinn heiðraður með viðurkenningunni Móðir Teresa

Hin látna móðir Teresa sagði eitt sinn: „Heiminn hungrar ekki aðeins í mat, heldur einnig í fegurð.“ Í nóvember 2006 hlaut Laufskálakór mormóna viðurkenningu, sem ber nafn hennar, og er helguð „afrekum þeirra sem færa heiminum fegurð, einkum á sviði trúarbragða, réttlætismála og lista.“

Dan Paulos, framkvæmdastjóri listastofnunarinnar St. Bernadette Institute of Sacred Art, sem sér um að veita viðurkenninguna Móðir Teresa, sagði: „Þetta er eini kórinn sem haft hefur áhrif á allan heiminn með því að færa honum fegurð. Margir kórar eru til, en enginn jafn markverður. Hann er gjöf frá Guði og þeirri gjöf ætti að miðla til heimsins.“

Kórinn var heiðraður við látlausa athöfn að lokinni vikulegri útsendingu á Tónlist og talað orð, sunnudaginn 19. nóvember 2006. Séra Joseph Mayor, sóknarprestur í dómkirkjunni Cathedral of the Madeline, afhenti viðurkenninguna Mac Christensen, forseta kórsins, og Craig Jessop, kórstjórnanda, sem tóku við henni fyrir hönd kórsins.

„Okkur er heiður af því að taka á móti þessari viðurkenningu fyrir hönd allra þeirra sjálfboðaliða sem að kórnum standa. Okkur er einnig heiður af því að tengjast nafni hinnar guðhræddu konu, móður Teresu,“ sagði Scott L. Barrick, framkvæmdastjóri kórsins.

Stofnunin hóf og veitir þessa viðurkenningu til að „verðlauna andlegt starf í hinum veraldlega heimi.“

Styttan er nútíma líkneski af móður Teresu. Þeir sem hljóta viðurkenninguna eru að mestu tilnefndir af almenningi og valdir af viðurkenningarnefnd Móður Teresu.

Í kórnum eru 350 sjálfboðaliðar, karlar og konur, sem hafa mismunandi bakgrunn, atvinnu og aldur. Kórinn hefur öðlast heimsfrægð fyrir hinar mörgu hljóðritanir, söngferðalög og vikulegar útsendingar í stjónvarpi og útvarpi.

Þeir sem áður hafa hlotið þessa viðurkenningu eru m.a Jóhannes Páll II páfi, Maya Angelou, Nelson Mandela og Jimmy Carter.