2007
Ættfræðisafnið heldur erfðavenjur víða um heim hátíðlegar
Apríl 2007


Ættfræðisafnið heldur erfðavenjur víða um heim hátíðlegar

Vefnaður á skandinavísku jólaskrauti og söngur á skoskri útsetningu söngsins „Auld Lang Syne“ var aðeins tvennt af því sem gert var í desembermánuði í ættfræðisafninu í Salt Lake City. Þeir sem sóttu endurgjaldslausar kennslustundir frá 28. nóvember til 22. desember, hlutu fræðslu í hátíðarsiðum hinna ýmsu landa og þjóðfélagshópa.

Íbúar hinna ýmsu landa skipulögðu að mestu hinar stuttu kennslustundir og tóku að sér að kenna efnið, svo sem hátíðarhöld desembermánaðar, matarvenjur, skreytingar og tónlist. Kennslan var opin almenningi og ýmislegt stóð fjölskyldunni til boða.

Fjölskyldur voru hvattar til að fylla út áatal þar sem börnin eru fyrsti ættliður. Börnin voru hvött til að teikna myndir af sjálfum sér, foreldrum sínum og öfum og ömmum á blaðið. Öllum var boðið sælgæti með piparmintubragði og þær fjölskyldur sem gátu útfyllt blað fjögurra kynslóða fengu penna að gjöf með árituninni: „Ættfræði er skemmtileg.“

Listi yfir hugmyndir varðandi fjölskyldukvöld og ættfræði stóð fjölskyldum til boða til að hafa með sér heim. Á einu slíku leiðbeiningablaði var útskýrt hvernig börn og foreldrar geta haft viðtal við afa og ömmur.

Þátttökulönd voru m.a. Noregur, Frakkland, Þýskaland, Skotland, Holland, Tékkland, Svíþjóð og Danmörk. Einnig var fjallað um siði Gyðinga og frumbyggja.

Diane Loosle, umsjónarmaður þjónustu fyrir byrjendur, sagði þetta vera í fyrsta sinn sem ættfræðisafnið stæði að slíkum atburði.

Systir Loosle sagði þetta miða að því að laða að fólk sem notfærði sér að öllu jöfnu ekki þjónustu ættfræðisafnsins. Hún sagði: „Eitt af markmiðum safnsins er að bæta upplifun þeirra sem sækja það. Við viljum að fólk komi og upplifi að ættfræði sé ekki jafn flókin og það áður hélt.“

Aðal ættfræðisafn kirkjunnar er stærsta safn sinnar tegundar og það stendur almenningi til boða endurgjaldslaust. Áætlað er að 1.900 manns komi í safnið á degi hverjum þegar það er opið.

Endurgjaldslaus kennsla stendur fólki á mismunandi stigi til boða, einnig byrjendum, og 125 starfsmenn, í fullu og hluta starfi, eru fúsir til að veita aðstoð. Nærri 400 þjálfaðir sjálfboðaliðar veita einnig fúslega aðstoð. Sjá til frekari upplýsinga www.familysearch.org.