2007
Hin óútskýranlega símhringing
Apríl 2007


Hin óútskýranlega símhringing

Laugardaginn 7. febrúar 2004, vorum ég og eiginkona mín á hóteli í Gijón í norðurhluta Spánar, þar sem ég þjónaði sem forseti Bilbao-trúboðsins þar í landi. Þegar við höfðum lokið við kvöldmáltíð okkar, tók ég upp farsímann minn til að hlýða á þau skilaboð sem í honum voru. Ég tók eftir því að trúboði nokkur hafði hringt í mig. Ég fann þann sem hringdi og ýtti á viðeigandi hnapp til að hringja til baka.

Trúboðinn svaraði í símann og eftir að við höfðum heilsast, spurði ég hann hvers hann þarfnaðist. Hann varð hissa og sagðist ekki hafa hringt í mig. Ég staðhæfði að í síma mínum væri skráð að hann hefði hringt, en hann staðhæfði á móti að hafa ekki hringt.

Við lukum samtali okkar, en fimm mínútum síðar hringdi hann í mig og sagði: „Forseti, ég á í vanda sem ég á erfitt með að takast á við og hef af því miklar áhyggjur. Ég baðst fyrir til að biðja Drottin um hjálp til að vita hvað ég ætti að gera. Mér fannst ekki að ég ætti að hringja í þig, en meðan ég var að spyrja Drottin um hvað gera skyldi, hringdir þú. Ég var undrandi, því ég hafði ekki hringt í þig. Mér varð ljóst að Drottinn var að segja mér að ég ætti að ræða þegar í stað við þig.“

Við ræddum saman um stund og greiddum úr vanda hans.

Þegar ég hitti öldunginn tveimur dögum síðar, spurði ég hann aftur að því hvort hann hefði hringt í mig. „Nei, forseti,“ svaraði hann, „það var verk Drottins.“ Hann staðfesti að sími hans sýndi ekki að hann hefði hringt í mitt númer, jafnvel ekki af slysni.

Drottinn hefur sagt: „Ver auðmjúkur og Drottinn Guð þinn mun leiða þig sér við hönd og svara bænum þínum“ (K&S 112:10). Alma sagði, er hann kenndi syni sínum Helaman: „Ráðgastu við Drottin um allt, sem þú tekur þér fyrir hendur, og hann mun leiðbeina þér til góðs“ (Alma 37:37). Við verðum að gera það sem himneskur faðir vill að við gerum til að finna þann frið sem við stöðugt þurfum á að halda. Þessi óútskýranlega hringing var án efa svar við bæn ungs trúboða.