2007
Lært um lögmál Guðs
Apríl 2007


Lært um lögmál Guðs

„Færið alla tíundina í forðabúrið til þess að fæðsla sé til í húsi mínu“ (Mal 3:10).

Byggt á sannri sögu

„Þetta er tíunda hlassið,“ kallaði faðir Davids til hans. „Aktu að hlíðinni þarna.“ Hinn ungi David O. McKay leit yfir túnið, þangað sem faðir hans benti. Fyrstu níu heyhlössin sem þeir höfðu náð í voru í öðrum gæðaflokki. David var ljóst að faðir hans hafði í huga að tíunda hlassið af úrvalsheyi færi í forðabúr biskups sem tíndargreiðsla þeirra. En hann skildi ekki hvers vegna þeir gátu ekki afhent Drottni hey í sama gæðaflokki og þeir hefðu þegar náð í.

David kallaði á föður sinn: „Nei, tökum heldur heyið í réttri röð.“

Faðir Davids svaraði honum ekki. David var í þann mund að kalla aftur þegar hann sá föður sinn snúa sér við og ganga rakleiðis til sín. Skyndilega lægði goluna á túninu og sólskinið olli miklum hita. David strauk svitann af enni sér og aftan af hálsinum. Honum varð ljóst að faðir hans var ekki á leið yfir túnið til að klappa honum á bakið fyrir yfirlætisfullt svarið. Hann kom alla þessa leið til að vera viss um að David skildi eitthvað ákveðið.

„Nei, David.“ Faðir hans var strangur í röddinni, en þó rólegur, og það kallaði á óskipta athygli Davids. „Þetta er tíunda hlassið og það besta er ekki of gott fyrir Guð.“ Faðir Davids horfði beint framan í son sinn til að vera viss um hann hefði heyrt það sem hann sagði. Síðan sneri hann sér við og gekk í burtu.

David kyngdi kökkinum í hálsinum og beindi hestunum síðan að hlíðinni. Meðan hann hlóð besta heyinu á vagninn hugleiddi hann það sem faðir hans hafði reynt að kenna honum. Þótt honum væri ljóst að tíundin væri lögmál, á sama hátt og hlýðni og fórn, vildi David hafa þarfir þeirra í fyrirrúmi. En Guð hafði sagt að taka skyldi frumburði hjarðanna – það allra besta – og fórna honum því (sjá 5 Mós 12:6).

„Faðir minn lætur Guð fá það besta og við fáum það næst besta,“ hugsaði David með sér. „Kannski er þetta lýsandi fyrir það að hafa Drottin sem þungamiðju hugsana okkar og lífs.“

Stundum fylgdist David með móður sinni þegar hún greiddi tíund með peningum. Í stað þess að eyða í það sem hún þurfti og vona svo að hún hefði nóg fyrir tíund, sendi hún tíundarféð þegar í stað til biskupsins og lét sér síðan nægja það sem eftir var. Það fremsta og besta var alltaf látið Guði í té.

David sneri heyvagninum við og hélt niður rykugan veginn í átt að forðabúri biskups. Hann ók inn í portið og afhlóð heyinu. Það var fórn fyrir föður hans að láta Drottni í té besta heyið, en David var ljóst að faðir hans vildi ekki hafa það á neinn annan hátt. Hann vildi láta Drottni í té það besta, á sama hátt og himneskur faðir hafði látið heiminum í té sinn fullkomna son.

Þegar David sneri vagninum í átt að heimili sínu, kom yfir hann góð tilfinning. Hann gladdist yfir að faðir hans hafði frætt hann um tíundarlögmálið. Þetta var lexía sem hann byggi að allt sitt líf.

Tekið úr Teachings of Presidents of the Church: David O. McKay (2003), xv. McKay forseti (1873–1970) var níundi forseti kirkjunnar, frá 1951 til 1970.

Ljósmynd

„Tíundargreiðslan sýnir að við göngumst undir fórnarlögmálið. Hún býr okkur einnig undir helgunarlögmálið og önnur æðri lögmál himneska ríkisins.“

Öldungur Dallin H. Oaks í Tólfpostulasveitinni, “Tithing,” Ensign, maí 1994, 34.