2007
Fordæmi hins eina
Apríl 2007


Fordæmi hins eina

Ljósmynd

Efnisgluggi netpóstsins færði mér sorgleg tíðindi: „Útför Wendys Knaupp.“ Um leið og ég þerraði burtu tárin, varð mér hugsað til þess er trúboðsfélagi minn og ég hittum Wendy og Paul Knaupp fyrir 40 árum, rétt við blómabúð á lestarstöðinni í Frankfurt. Þau voru ung bandarísk hjón í Þýskalandi að gegna herskyldu, langt að heiman og áttu von á sínu fyrsta barni. Trúboðsforseti okkar hafði brýnt fyrir okkur að „nýta sérhverja stund til trúboðs,“ og því tókum við þau tali.

Ég var hrifinn af því ljósi sem ég skynjaði í sál Wendys, þegar við tókum að kenna þeim trúboðslexíurnar. Hún var glaðlynd og greind og afar andlega innstillt. Hún skynjaði merkingu endurreisnarinnar af stöku innsæi. Það voru forréttindi að fá að vera í návist hennar og fylgjast með vitnisburði hennar eflast og ljósi ásýndar hennar aukast.

Meira en 30 árum síðar, rifjaði Wendy upp fyrstu heimsókn okkar: „Ég gleymi aldrei tilfinningunni sem ég fékk þegar ég fyrst heyrði sögu Josephs Smith! Ég sé fyrir mér þakíbúðarkytruna í Þýskalandi, sem líklega var jafn stór og svefnherbergi okkar er nú og við sátum á rúmstokknum/sófanum [gegnt trúboðunum]. Ég minnist þess að hafa undrast og fundið til léttis. Ég hafði alltaf talið að eitthvað líkt þessu væri að finna einhverstaðar þarna úti. Það fólst engin skynsemi í því að Guð léti okkur ein eftir, ráfandi blint um, eins og við augljóslega gerðum… . Þetta virtist svo rétt og ég trúði því.“

Nokkru eftir að Wendy og Paul ákváðu að láta skírast, kom einhver í fjölskyldu þeirra, sem gagnrýndi reglur kirkjunnar, að máli við þau og sagði þeim frá því að aðeins karlmenn gætu fengið prestdæmið. Þau urðu ráðvillt og óviss. Þau báðu okkur um að heimsækja þau ekki oftar – nema aðeins einu sinni til að kveðja. Við vissum ekki hvernig við áttum að svara spurningum þeirra, en okkur var ljóst að þetta var okkar síðasta tækifæri. Í samtali okkar fann ég mig knúinn til að lesa með þeim ritningargrein, sem ég hafði nýlega veitt athygli í sjálfsnámi mínu, í frásögninni um Pétur og Kornelíus í Postulasögunni 10–11. Þetta kvöld kynntist ég þessu fyrirheiti Drottins til trúboða: „Yður mun gefið einmitt á þeirri stundu, já, á því andartaki, hvað segja skal … svo [og] mun heilögum anda úthellt til að bera vitni um allt það, er þér mælið“ (K&S 100:6, 8). Við upplifðum öll anda friðar þegar við báðumst fyrir saman.

Mörgum árum síðar sagði Wendy þetta um þessa reynslu: „Ég man ekki hvað þeir sögðu við okkur eða um hvað við töluðum, en ljósið … andinn … var aftur til staðar og ég vissi að þetta var sannleikur, jafnvel þótt ég skyldi ekki allt fyllilega, þá var boðskapurinn enn sannur og við þurftum að taka á móti honum og að einhvern tíma síðar myndum við hljóta skilning á þessu.“

Paul og Wendy voru skírð. Brátt voru þau innsigluð í musterinu. Í venjulegu amstri fjölskyldulífs ólu þau upp fimm börn, sem að lokum urðu öll virk í kirkjunni. Sum þeirra þjónuði í trúboði. Paul var skólakennari. Paul og Wendy sungu dásamlega tvísöng saman í kirkju. Wendy var kórstjórnandi í deild sinni í mörg ár. Musterið var þeim kært og þau kynntust af eigin raun „gleði heilagra“ (Enos 1:3).

Eitt sinn þegar ég og eiginkona mín, Marie, sóttum kirkju í London hittum við konu að nafni Libby Casas frá Maine. Þar sem Knaupps–hjónin voru eina fólkið sem við þekktum í Maine, spurðum við hvort hún þekkti þau. Andlit hennar ljómaði: „Þekki ég hana? Wendy er kær vinkona mín. Hún sagði mér frá fagnaðarerindinu!“ Wendy hafði kynnst Libby í almenningsþvottahúsi – tvær mæður að þvo af fjölskyldunni sinni – og sagt henni frá fagnaðarerindinu, rétt eins og við gerðum við Wendy á lestarstöðinni. Það sem Libby varð hrifnust af í sambandi við kirkjuna, voru áhrifin sem stöfuðu af persónulegu fordæmi Wendy – sem eiginkonu og manneskju. Wendy var sjálfur boðskapur endurreisnarinnar fyrir Libby, a.m.k. til að byrja með.

Knaupps–hjónin fluttu síðar til Oregon. Á síðasta ári, eftir að við fréttum að Wendy hefði krabbamein, nutum við þeirrar blessunar að þau hjónin komu til Utah á aðalráðstefnu. Eiginmaður Wendys, sonur þeirra, sem var ný kominn heim af trúboði, og ég veittum henni blessun. Við miðluðum hvert öðru af reynslu okkar síðustu fjóra áratugi. Það var ljóst að fagnaðarerindið var þeim algjörlega allt. Það var þungamiðja og tilgangur lífs þeirra og barna þeirra. Paul og Wendy þráðu ákaflega að vera heilsuhraust svo þau gætu uppfyllt þann draum sinn að þjóna í trúboði saman.

Wendy skrifaði mér bréf nokkru áður en hún lést: „Mér finnst í raun að ég sé í örmum Drottins. Hann getur gert allt sem hann vill, ég er í hans umsjá.“ Hún lét þakklæti í ljós fyrir fagnaðarerindið og fjölskyldu sína, og skrifaði síðan: „Er Drottinn ekki dásamlegur!“

Nú er Wendy gengin og fjölskylda hennar saknar hennar gríðarlega. Þegar sonur hennar skrifaði okkur um dauða hennar, sagði hann: „Þakka þér fyrir að leiða mömmu í ljós fagnaðarerindisins. Hún hefur verið hlýðin boðorðunum.“ Hann sagði móður sína eitt sinn hafa skrifað sér: „Ég elska Drottin og er eilíflega þakklát [honum] fyrir að færa mér hið ómetanlega fagnaðarerindi. Ég þrái meira en nokkuð annað að reynast trúföst og ég reyni það innilega.“

Vegna þess að fagnaðarerindið var Wendy og fjölskyldu hennar allt, skildum við, sem vorum trúboðar hennar, „hversu mikil [gleðin verður]“ (K&S 18:15) með henni í ríki föðurins. Fagnaðarerindið var henni allt, og því er trúboðsreynslan sem ég átti með henni mér allt. Engin furða er að Drottinn hafi sagt trúboðstarf vera „það, sem verða mun þér mest virði“ (K&S 15:6; skáletur hér).

Gordon B. Hinckley forseti sagði: „Ég brýni fyrir hinum heilögu að gera allt sem þeir mögulega geta til að koma með tilvísanir [um fólk] sem [trúboðarnir] geta kennt… . Allir þeir sem í kirkjuna koma fyrir ykkar tilstuðlan, munu færa ykkur hamingju. Ég geri það að loforði ætluðu sérhverju ykkar“ (“Inspirational Thoughts,” Liahona, okt. 2003, 3).

Ég hef af fyrstu hendi reynt hvað í þessu loforði felst. Ég brýni einnig fyrir ykkur að kynna kirkjuna fyrir a.m.k. einni manneskju á þessu ári – og að gefast ekki upp þótt á móti blási. Ef þið gangið úr skugga um að ekkert tækifæri gangi ykkur úr greipum, munið þið geta sagt með Wendy Knaupp: „Er Drottinn ekki dásamlegur!“