2007
Auðga hjónabandið
Apríl 2007


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins

Auðga hjónabandið

Ljósmynd

Fyrir mörgum árum, þegar ég var starfandi lögfræðingur, leitaði kona hjá mér ráða, en hún vildi skilja við eiginmann sinn á grunndvelli sem ég taldi réttlætanlegan. Eftir skilnaðinn sá ég hana ekki aftur í mörg ár. Ég mætti henni svo af tilviljun á götu og veitti þá athygli að úr eitt sinn fögru andliti hennar skein nú margra ára einmanaleiki og vonbrigði.

Eftir að við höfðum kastað kveðju á hvort annað, barst tal hennar brátt að því að lífið hefði ekki leikið við hana og að hún væri þreytt á að takast einsömul á við erfiðleikana. Mér brá þegar hún hnykkti út með þessum orðum: „Jafn slæmt og það var, þá hefði ég ekki sótt um skilnað, með þá reynslu sem ég nú hef, ef ég mætti upplifa það á ný. Þetta er verra.“

Tölfræðilega séð er erfitt að komast hjá hjónaskilnaði. Sérfræðingar áætla að um helmingur kvenna í Bandaríkjunum þurfi að leysa upp hjónaband sitt einhvern tíma á lífsleiðinni. Hjónaskilnaðir eru einnig að aukast í mörgum öðrum löndum. Ef núverandi hlutfall stöðugt fleiri hjónaskilnaða minnkar ekki, munu jafnvel enn fleiri hjónabönd fá hörmulegan endi.

Hjónaskilnað er aðeins hægt að réttlæta í afar sjaldgæfum tilvikum. Að mínu viti ætti „réttlátur málstaður“ til hjónaskilnaðar ekki að vera léttvægari en svo, að reynt hafi verið til hlítar að bæta langvarandi ástand sem grafið hefur undan mannlegri reisn og er augljóslega óbætanlegt. Hjónaskilnaður kallar oft hörmungar yfir fólk og óhamingju yfir fjölskyldur. Hjón sem skilja glata oft meiru en því sem þau ávinna.

Áfallið sem fólk verður fyrir eftir hjónaskilnað virðist lítt skilgreint og er hugsanlega alvarlegra en ætlað er. Vissulega þarf að sýna þeim aukna samúð og skilning sem gengið hafa í gegnum slíkar hörmungar og ekki geta bætt líf sitt. Þeir sem skilið hafa geta samt gert sér miklar vonir og væntingar um lífsfyllingu og hamingju, einkum er þeir gleyma sjálfum sér og þjóna öðrum.

Erfiðar spurningar

Hvers vegna er hamingja í hjónabandi svo brothætt og hverful hjá sumum og svo ríkuleg hjá öðrum? Hvers vegna þurfa angist og þjáningar að vera svo langvarandi og hafa áhrif á svo marga saklausa?

Hvaða auðgandi þætti vantar í svo mörg hjónabönd sem byrjuðu með mikilli hamingju og miklum væntingum?

Ég hef lengi velt þessum erfiðu spurningum fyrir mér. Ég hef fengist við mannlegt eðli næstum heila lífsævi og er því nokkuð kunnugur vanda hamingjusnauðra hjónabanda, hjónaskilnuðum og niðurbrotnum fjölskyldum. Þökk sé minni ástkæru Ruth að ég get einnig rætt um mikla hamingju, því ég hef upplifað í hjónabandi hina ríkulegustu fyllingu mannlegrar tilveru.

Ástæður hjónaskilnaðar

Engin einföld svör finnast við hinum erfiðu og margslungnu spurningum um hamingju í hjónabandi. Meðal margra hinna gefnu ástæðna hjónaskilnaða eru alvarleg vandamál sjálfselsku, vanþroska, skorts á skuldbindingu, ófullnægjandi samskipti og ótryggð.

Að mínu viti er enn ein ástæða misbresta í hjónabandi, sem ekki er eins augljós en gnæfir þó yfir allar hinar. Hún er skortur á að reynt sé stöðugt að auðga hjónabandið, vöntun á einhverri viðbót sem gerir það hjartfólgið, sérstakt og unaðslegt, sem án þess gerir það erfitt og litlaust.

Auðgun hjónabands

Þið kunnið að hugsa með ykkur: „Hvernig má stöðugt auðga hjónabandið?“ Við grundvöllum hjónaband okkar á traustri vináttu, hollustu og ráðvendni og einnig á þjónustu og stuðningi við hvort annað á erfiðum tímum. Adam vísaði til Evu og sagði: „Þetta er loks bein af mínum beinum og hold af mínu holdi“ (1 Mós 2:23). Það eru nokkrar einfaldar og viðeigandi spurningar sem sérhver sem giftur er eða íhugar giftingu ætti af heiðarleika að spyrja sig í viðleitni sinni til að verða „eitt hold.“ Þær eru:

Fyrsta: Get ég látið hjónaband mitt og maka ganga fyrir, áður en ég huga að eigin þrám?

Önnur: Hve djúp er skuldbinding mín við lífsförunaut minn miðað við önnur hugðarefni?

Þriðja: Er hann eða hún besti vinur minn?

Fjórða: Ber ég virðingu fyrir maka mínum og met hann sem dýrmætan einstakling?

Fimmta: Eru peningar deiluefni okkar? Peningaeign gera hjón ekki hamingjusamari og peningaskortur er ekki vís til að gera þau óhamingjusöm. Það ber oft vott um sjálfselsku að deila um peninga.

Sjötta: Eru andleg og helg tengsl á milli ykkar?

Byggja brú auðgunar

Nokkur lykilatriði sem geta auðgað hjónabandið.

Bæn. Góð samskipti geta auðgað og bætt hjónabandið. Ein mikilvæg leið til þess er að biðja saman. Það mun leysa margan ágreining milli hjóna, sé hann fyrir hendi, áður en þau leggjast til hvílu. Meiningin er ekki að gera of mikið úr skoðanamun, en hann er raunverulegur og áhugavekjandi. Ég trúi að skoðanamunur sé aðeins til þess fallin að krydda hjónabandið örlítið.

Við eigum samskipti á ótal vegu, líkt og með brosi, hárstroku og ljúfri snertingu. Dag hvern ættum við að minnast þess að segja: „Ég elska þig.“ Eiginmenn ættu að segja við eiginkonu sína: „Þú ert falleg.“ Önnur mikilvæg orð sem bæði hjónin geta sagt, þegar það á við, eru: „Mér þykir það leitt.“ Hlustun er einnig frábær samskiptaleið.

Traust. Algjört og gagnkvæmt traust er einn mikilvægasti auðgunarþáttur hjónabands. Ekkert brýtur gagnkvæmt traust, hinn nauðsynlega þátt til að viðhalda góðu sambandi, eins mikið niður og ótryggð. Ekkert réttlætir hórdóm. Stundum er mögulegt að bjarga hjónaböndum og varðveita fjölskyldur, þrátt fyrir slíka eyðileggjandi reynslu. Eigi slíkt að vera mögulegt, krefst það þess að sá aðilinn sem særður var geti sýnt ótakmarkaða elsku, næga til að fyrirgefa og gleyma. Það krefst þess að hinn villuráfandi aðili hjónabandsins hafi sterka þrá til að iðrast og láti af hinni illu breytni.

Tryggð við eilífan lífsförunaut okkar ætti ekki aðeins að vera líkamlegs eðlis, heldur einnig andlegs og tilfinningalegs eðlis. Úr því að skaðlaust daður er ekki til og afbrýðissemi og hjónaband fara ekki saman, er best að forðast birtingu hins illa með því að sneiða hjá öllu vafasömu sambandi við þá sem við erum ekki gift.

Dyggð. Dyggðin er hið öfluga lím sem heldur hjónabandinu saman. Drottinn sagði: „Þú skalt elska eiginkonu þína af öllu hjarta þínu og vera bundinn henni og engu öðru“ (K&S 42:22).

Návist hins guðlega. Af öllu því sem getur orðið hjónabandi til blessunar, er eitt sem getur auðgað það einna mest og stuðlað að sameiningu karls og konu á afar raunverulegan, helgan og andlegan hátt. Það er návist hins guðlega í hjónabandi. Shakespeare, sem mælti fyrir munn Ísabellu drottningar í Hinrik fimmta konungi, sagði: „Drottinn sem knýtir best öll hjónabönd, sameini hjörtu … í eitt;“ (5.2.356-7). Guð varðveitir einnig hjónabönd best.

Það er margt sem auðgað getur hjónabandið, en sumt virðist þó falla þar undir hismið. Að búa að samfélagi og njóta ávaxta heilagrar og guðlegrar návistar verður kjarni ríkulegrar hamingju í hjónabandi. Andleg eining er akkerið. Hægur leki í hinum helga mælikvarða hjónabandsins, veldur því oft að hjónabandið koðnar niður.

Ég tel að fjölgun hjónaskilnaða megi í mörgum tilvikum rekja til skorts á einingu sem helgar og blessar og eflist þegar boðorð Guðs eru haldin. Hjónaband getur fjarað út fái það ekki andlega næringu.

Tíund. Í nærri tuttugu ára þjónustu sem biskup og stikuforseti hefur mér lærst að tíundargreiðsla sé góð trygging gegn hjónaskilnaði. Tíundargreiðsla virðist styrkja okkar andlegu rafhlöður, svo við fáum staðist þann tíma er okkar andlegi rafall virðist lítt eða alls ekki starfandi.

Enginn stórfenglegur söngur er til sem stöðugt skapar samhljóm mikillar elsku. Fullkomnasti söngurinn er tvær raddir sem renna saman í einn andlegan söng. Hjónabandið er háttur Guðs til uppfyllingar hinni æðstu mannlegu þrá, grundvallað á gagnkvæmri virðingu, þroska, óeigingirni, velsæmi, skuldbindingu og heiðarleika. Hamingja sem hjónaband og foreldrahlutverk veitir getur orðið þúsund sinnum auðugri en hamingja sem eitthvað annað veitir.

Foreldrahlutverkið. Ímynd hjónabandsins mun stórlega eflast, svo og hin andlega framþróun, þegar hjón verða foreldrar. Foreldrahlutverkið ætti að veita þeim hjónum sem geta átt börn mestu mögulegu hamingju. Karlar þroskast vegna þess að sem feður þurfa þeir að annast fjölskyldu sína. Konur blómstra vegna þess að sem mæður þurfa þær að gleyma sjálfri sér. Við skiljum best dýpstu merkingu elsku þegar við verðum foreldrar. Láti börnin hins vegar bíða eftir sér, munu þau hjón, sem þrátt fyrir það búa sig undir að taka elskandi á móti þeim, njóta sæmdar og blessunar Drottins fyrir hollustu sína. Heimili okkar ættu að vera meðal helgustu allra íverustaða jarðar.

Þegar auðgun hjónabands er annars vegar, gerir margt smátt eitt stórt. Stöðugs þakklætis verður að gæta fyrir hvort annað og hugulsemi í verki. Hjón verða að hvetja hvort annað og stuðla að þroska hvors annars. Hjónaband er sameiginlegt verkefni við að tileinka sér hið góða, fagra og guðlega.

Frelsarinn sagði: „Sjá, ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum, þá mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér“ (Op 3:20).

Megi návist Guðs auðga og blessa öll hjónabönd og heimili, einkum hinna heilögu, sem hluti af hinni eilífu áætlun hans.

Fyrir heimiliskennara

Þegar þið hafið í bænaranda kynnt ykkur boðskap þennan, skuluð þið miðla honum þannig að þeir sem þið kennið séu þátttakendur með ykkur. Nokkur dæmi fara hér á eftir:

  1. Búið til tvær kúlur úr leir og hafið sinn hvorn litinn á þeim. Útskýrið að litirnir tákni sinn hvorn aðila hjónabands. Blandið kúlunum saman og búið til eina úr þeim tveimur. Biðjið einhvern í fjölskyldunni um að aðskilja kúlurnar tvær í sömu litum. Ræðið hinar sex spurningar Faust forseta, sem sá eða sú sem er í hjónabandshugleiðingum ætti að spyrja sig að. Berið vitni um mikilvægi einingar í hjónabandi.

  2. Biðjið fjölskylduna að standa upp og mynda saman hring. Látið hvern í fjölskyldunni tákna lykilatriði í auðgun hjónabands. Látið þau mynda hring með því að leiðast eða krækja saman örmum, samhliða því að þið ræðið það sem þau eiga að tákna. Útskýrið að hringurinn rofni og að hlekk vanti, ef einhver í fjölskyldunni fer úr hringnum. Berið vitni um mikilvægi þess að viðhalda öflugu hjónabandi.

  3. Komið með saltstauk. Getið þess að salt bæti bragð matar. Lesið setninguna þar sem Faust forseti líkir skoðanamun í hjónabandi við örlítið krydd og ræðið hvernig skoðanamunur getur auðgað hjónabandið. Ef þið kennið hjónum, spyrjið þá hvað þau hafi gert til að verða þakklátari fyrir hvort annað.