2007
Áhrif móður
Apríl 2007


Frá vini til vinar

Áhrif móður

„Hafna eigi viðvörun móður þinnar“ (Sálm 1:8).

Ljósmynd

Móðir mín er afar sérstök kona. Ég er elstur af átta bræðrum og ég á sjö systur. Ábyrgð móður minnar var mikil með svona fjölmenna fjölskyldu. Það besta sem móðir mín gerði fyrir okkur var að láta skírast í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Hún gaf okkur kost á að læra um fagnaðarerindið. Það tækifæri breytti lífi okkar.

Ég man eftir þeim degi er við tókum á móti trúboðunum. Ég var um 10 eða 11 ára gamall. Trúboðarnir miðluðu okkur boðskap um Fyrstu sýnina. Móðir mín snerist til trúar um leið og hún tók að hlusta. Hún trúði að Joseph Smith hefði séð föðurinn og soninn.

Við tókum að sækja kirkju. Í fyrstu vildi ég ekki taka á móti fagnaðarerindinu, en trúboðarnir sannfærðu mig og sýndu mér um hvað það snerist. Um leið og ég skildi það, varð það mér kært. Ég er svo þakklátur fyrir móður mína. Hún hlaut vitnisburð í fyrstu heimsókn trúboðanna. Frá því að hún skírðist og fram til þessa dags, hefur hún aldrei misst úr kirkjusamkomu.

Móðir mín var okkur mikill styrkur. Hún þvoði alltaf hvítu skyrturnar okkar á laugardögum, svo við gætum farið í þær á sunnudögum. Við fægðum sjálf skóna okkar og skó yngri systkina okkar. Við bjuggum í fátækrahverfi í Guatemala og nágrannar okkar hlógu að okkur þegar við fórum í kirkju í hvítum skyrtum með bindi.

Móðir mín veitti okkur alltaf styrk til réttrar breytni. Við erum afar virk í kirkjunni, vegna áhrifa hennar. Ég minnist þess að eitt sinn þjónaði faðir minn sem sunnudagaskólaforseti, eldri systir mín sem Barnafélagsforseti, móðir mín sem Líknarfélagsforseti og fjórir bræðra minna tilreiddu sakramentið, blessuðu það og útdeildu.

Faðir minn vænti þess að ég hjálpaði til við öflun peninga, vegna fjárhagsstöðu okkar. Ég vildi þjóna í trúboði, en þegar ég varð 19 ára bað hann mig að bíða í eitt ár með að fara í trúboð, svo ég gæti haldið áfram að vinna til hjálpar fjölskyldu minni. Þegar ég var 20 ára bað hann mig að hinkra enn eitt árið með að þjóna.

Rétt áður en ég varð 21 árs, vildi hann að ég hinkraði enn eitt árið. En móðir mín sagði við hann: „Leyfðu honum að fara og það verður okkur til blessunar.“ Það gerðist sannlega. Áður en ég fór í trúboð, höfðu aðeins ég og yngri bróðir minn unnið til hjálpar fjölskyldunni. Um leið og ég fór í trúboð, fengu þrír af bræðrum mínum vinnu og tvær elstu systur mínar einnig, svo fjölskyldunni reiddi betur af fjárhagslega.

Allar blessanir og kallanir sem ég hef hlotið í kirkjunni, hafa orðið til þess að auka aðdáun á móður minni. Á öllum sviðum lífs míns, minnist ég fordæmis hennar og góðra áhrifa. Móðir mín hafði aðeins grunnmenntun, en þekking hennar á sannleika fagnaðarerindisins og hagnýt þekking hennar og skilningur á lífinu voru mikil.

Ég átti gleðilega æsku, því móðir mín var alltaf heima til að hugsa um mig. Hún var mjög glettin og spaugsöm og fann alltaf leiðir til að gera allt skemmtilegt. Hún eyddi mörgum klukkustundum í að segja okkur sögur af æskuárum sínum, um ömmu mína, frænkur og frændur og sambandi hennar við þau.

Ég hef trú á boðorðinu um að heiðra foreldra sína. Allt sem ég geri, jafnvel í dag, má rekja til áhrifa móður minnar.