2010
Trúarreynsla mín
Apríl 2010


Unglingar

Trúarreynsla mín

Ég hóf að lesa í Mormónsbók á hverjum degi þegar ég var 13 ára gamall og síðan hef ég dag hvern notið blessunar.

Sunnudagaskóla bekkurinn okkar, sem í voru 13 ára unglingar, var ekki beint þekktur fyrir lotningu. Hins vegar vorum við með dásamlegan kennara sem reyndi eftir bestu getu að kenna með andanum hverja lexíu. Ein slík lexía var um ritningarlestur.

Hún skoraði á okkur í lok lexíunnar. Áskorunin var til okkar allra, en einhverra hluta vegna horfði hún beint á mig þegar hún sagði: „Ég skora á ykkur að lesa í Mormónsbók á hverju einasta degi!“ Ég hugsaði með sjálfum mér: „Ég skal sko sýna þér. Ég mun gera það!“

Þetta sama kvöld hóf ég lesturinn á fyrsta kafla í 1. Nefí og las á hverjum degi. Viðhorf mitt var sennilega ekki rétt þegar ég hóf lesturinn, en smám saman fór mér að líka þær tilfinningar sem ég fann við lesturinn í Mormónsbók. Að lesa á hverju kvöldi varð að ánægjulegri venju.

Nokkrum mánuðum síðar var ég kominn að Alma 32 og fannst mikið til um þá hugmynd að gera tilraun með trú. Í skólanum höfðum við nýlega lært að gera vísindalegar tilraunir, svo ég kraup í bæn og sagði við himneskan föður að ég væri að hefja tilraunina. Ég bað um að fá að vita hvort Mormónsbók væri sönn.

Eftir á að hyggja sé ég að himneskur faðir svaraði bænum mínum mörgum sinnum. Við að lesa daglega í Mormónsbók jókst geta mín til að yfirstíga hið illa. Mér fannst ég vera nær föður mínum á himni. Mér fannst kraftur heilags anda veita mér styrk til að yfirstíga hindranir. Það sem Alma sagði varðandi tilraun með orð Guðs er satt: „Það er farið að víkka sálarsvið mitt. Já, það er farið að upplýsa skilning minn, já, það er farið að verða mér unun“ (Al 32:28).