2010
Blessun mömmu Taamino
Apríl 2010


Blessun mömmu Taamino

Victor D. Cave, Kirkjutímaritin

Ég var ungur trúboði að þjóna í mínu eigin heimalandi þegar ég hitti Taumatagi Taamino. Systir Taamino var aldin ekkja, bogin í baki af elli og erfiðri vinnu, en hún rétti alltaf fram hendur sínar til mín og félaga míns og kyssti okkur á báðar kinnar eins og venja er í Frönsku Pólýnesíu.

Systir Taamino var veikburða og gekk hægt og varfærnislega, en hún hugsaði um alla. Hún sá til þess að við félagi minn höfðum ætíð hrein og straujuð föt. Börnunum þótti gott að vera í kringum hana, því þau voru velkomin og hún hlustaði á það sem þau höfðu að segja. Hún lifði fábrotnu lífi í tveggja herbergja húsi umkringdu sandi, pálmatrjám, fjölskyldu og vinum. Í virðingar skyni kölluðu allir hana „mömmu Taamino“

Trúboðsforseti Tahiti Papeete trúboðsins hafði beðið félaga minn, öldung Tchan Fat, og mig að hjálpa til við að búa 80 manna hóp af Síðari daga heilögum undir að taka á móti musterisgjöf sinni og innsiglast sem fjölskyldur í næsta musteri – Hamilton-musterinu á Nýja Sjálandi, en þangað er fimm klukkustunda flug. Mamma Taamino hafði ferðast til musterisins á hverju ári í sex ár og þetta árið ætlaði hún aftur. Ég velti því fyrir mér hvernig hún hefði ráð á að fara í svona dýrt ferðalag þegar aðstæður hennar voru svona fábrotnar. Sex árum síðar fékk ég svar.

Árið 1976 var ég forseti Papeete Tahiti stikunnar og skoðaði reglulega samkomuhús stikunnar. Dag einn um hádegisbil kom ég við í kapellunni í Tipaerui. Á þeim tíma greiddum við fyrir þrif á byggingunum og þar kom ég að mömmu Taamino, nú komin vel á sjötugsaldurinn, sem þar vann sem ræstitæknir til að brauðfæða stóra fjölskyldu sína. Hún heilsaði mér með sínu venjubundna Komdu, fáum okkur að borða.“ Ég svaraði hins vegar: „Mamma Taamino, þú ert ekki lengur ung og í hádegismat hefur þú aðeins lítinn brauðbita, örlitla dós af sardínum og litla flösku af safa? Duga launin þín ekki fyrir meiri mat en þetta?“

Hún svaraði: „Ég er aftur að safna fyrir ferð til musterisins.“ Mér hlýnaði um hjartað af aðdáun á fordæmi hennar, kærleika og fórn. Mama Taamino fór nærri því 15 sinnum til musterisins á Nýja Sjálandi – á hverju ári þar til Papeete Tahiti musterið var vígt í október 1983. Hún ljómaði af gleði við vígsluathöfnina.

Ég hitti mömmu Taamino aftur árið 1995, nú sem trúboðsforseti. Hún hafði flutt aftur til kóraleyjunnar Makemo, ekki langt frá fæðingarstað sínum. Hún var nú á níræðis aldri og gat ekki lengur gengið, en hrukkurnar á andliti hennar báru vott um frið, þolinmæði og mikinn skilning á lífinu og fagnaðarerindinu. Bros hennar var enn fallegt og augu hennar sýndu hreinan kærleika.

Snemma næsta morgun kom ég að henni þar sem hún sat í einu af blómabeðum samkomuhússins og reytti þar arfa og hreinsaði til. Einn af sonum hennar hafði borið hana þangað. Eftir að hún hafði lokið við að hreinsa eitt svæði, notaði hún handleggi sína og hendur til að færa sig yfir á það næsta. Þetta var hennar leið til að halda áfram að þjóna Drottni.

Þegar ég var með viðtöl vegna musterismeðmæla síðla dags, var mamma Taamino færð til mín þar sem ég sat í skugganum af tré einu nálægt kapellunni. Hún vildi fá tækifæri til að svara hverri spurningu sem krafist er í viðtalinu.

„Forseti, ég get ekki lengur farið í musterið,“ sagði hún. „Ég er að eldast og orðin veik, en ég vil ætíð hafa gild musterismeðmæli á mér.“

Ég gat séð hversu mjög hana langaði til að fara í musterið og ég vissi að löngun hennar var Guði þóknanleg. Hún yfirgaf jarðneskan líkama sinn ekki löngu síðar til að sameinast þeim sem hún hafði trúfastlega þjónað í húsi Drottins. Hún tók ekkert með sér annað en trú sína, vitnisburð, góðmennsku, kærleika og vilja til að þjóna.

Mamma Taamino var sannur pólýnesískur brautryðjandi og fordæmi hennar hefur blessað marga bræður hennar og systur – þar á meðal mig.

Jafnvel á níræðis aldri vann systir Taamino við að reyta arfa og hreinsa blómabeð samkomuhússins. Þetta var hennar leið til að halda áfram að þjóna Drottni.