2010
Spurningar og svör
Apríl 2010


Spurningar og svör

„Hvernig get ég haldið hugsunum mínum hreinum þegar ég sé hið mikla siðleysi í kringum mig?“

Ykkur kann að finnast þið hvergi geta verið í dag án þess að sjá fólk klætt á ósiðsamlegan máta, hvort sem það er í fjölmiðlum eða úti á götu. Þið getið ef til vill ekki alltaf stjórnað umhverfi ykkar, en þið getið stjórnað hugsunum ykkar.

Ef þið sjáið ósiðlega klædda manneskju, getið þið litið fljótt undan eða farið á annan stað. Ef óhrein hugsun kemur í huga ykkar, veljið þá að dvelja ekki við þá hugsun heldur ýta henni burt með hreinum hugsunum. „Lát dyggðir prýða hugsanir þínar linnulaust, og þá … [verður] heilagur andi … þér stöðugur förunautur“ (K&S 121:45–46). Hreinar hugsanir gera ykkur hamingjusamari og þið fáið notið áhrifa andans.

Gerið það að vana að hugsa ætíð hreinar hugsanir. Reynið að vera með fólki sem klæðir sig á siðsaman hátt og forðist aðstæður þar sem þið gætuð séð ósiðsamlegan klæðnað. Leitið hjálpar himnesks föður í bæn. Leggið sálma á minnið eða ritningargreinar til þess að hugsa um hið góða þegar ykkar er freistað. Lesið í ritningunum reglulega og sækið musterið heim, ef það er mögulegt. Þið getið hugsað um eitthvað jákvætt þegar þið sjáið einhvern klæddan á ósiðsamlegan hátt.

Við erum ekki af heiminum

Við ættum að muna að við erum í heiminum en ekki af heiminum. Við erum sérstakir synir og dætur okkar ástkæra himneska föður. Því freistar andstæðingurinn okkar jafnvel enn meira. Hins vegar verðum við að vera sterkari en freistingin. Veraldleg manneskja getur klætt sig ósiðlega vegna þess að hún veit ekki að líkaminn er heilagt musteri. En Síðari daga heilagir búa yfir þeirri þekkingu. Því ættum við að halda okkur dyggðugum og hreinum. Ef slæmar hugsanir sækja á huga okkar, ættum við tafarlaust að leita hjálpar himnesks föður í bæn. Enginn getur hjálpað okkur betur en hann.

Dayana H., 19 ára, São Paulo, Brasilíu

Biðjið vini ykkar um hjálp

Ég er sú eina í 6. bekk mínum sem er Síðari daga heilög og því tekst ég á við klúrt málfar, ósiðsemi og þrýsting um að fylgja hópnum. En í byrjun ársins útskýrði ég fyrir vinum mínum staðlana sem ég lifi eftir og að ég færi eftir þeim, hvað sem á dyndi. Á síðustu mánuðum hafa þau lært um gildi kirkju minnar. Vinir þínir munu hjálpa þér, ef þú útskýrir gildi þín og staðlana sem tengjast þeim. Viðhorf, klæðaburður og málfar vina minna hefur breyst til hins betra. Ég hef komist að því, að ef þeir eru í raun vinir mínir, þá munu þeir hjálpa mér að hugsa hreinar hugsanir og að fylgja hinum krappa og þrönga vegi.

Celia N.,12 ára, Virginia, Bandaríkjunum

Bæn hjálpar

Ég komst að því, er ég átti í basli með að hugsa hreinar hugsanir, að bæn var í raun svarið. Hún gerir einnig andanum kleift að vera með mér hvar og hvenær sem er. Að biðja um hjálp himnesks föður á hverjum morgni og biðja hann að veita mér leiðsögn yfir daginn og síðan þakka honum að kvöldi, hefur styrkt samband mitt við hann og hjálpað mér að komast hjá ósiðsemi og halda staðla mína. Morgun- og kvöldbæn getur hjálpað þér að finna andann er þú tekst á við veraldlegar áskoranir. „[Verið] staðföst og óbifanleg og rík af góðum verkum“ (Mósía 5:15).

Gunnar R., 16 ára, Wisconsin, Bandaríkjunum

Við erum musteri

Ekki gagnrýna fólk í kringum þig sem klæðir sig ósiðsamlega, því þú þarft að hugsa góðar hugsanir. Sýndu þeim gott fordæmi með því að sýna að þú fylgir reglum kirkjunnar. Og hjálpaðu fólki með því að sýna því væntumþykju og segja því að himneskur faðir elskar það og vill að það sé siðferðislega hreint, bæði í verki og hugsun. Hreinleiki er nauðsynlegur í sáluhjálp okkar, vegna þess að við erum musteri Guðs.

Maricris B., 19 ára, Quezon, Filippseyjum

Lifa eftir fagnaðarerindinu

Ég veit að við getum haft hreinar hugsanir með því að nema í ritningunum og fara eftir þeirri kennslu í lífi okkar. Við getum öðlast hreinar hugsanir þegar við lifum eftir öllum þeim gildum sem okkur eru kennd í kirkjunni, þegar við lesum í Til styrktar æskunni og þegar við förum í musterið.

Jossi O., 16 ára, Antioquia, Kólumbíu

Hugurinn er eins og leiksvið

Í Boða fagnaðarerindi mitt er kafli sem fjallar um dyggð. Þar segir að hugur okkar sé eins og svið í leikhúsi. Það getur einungis ein manneskja verið á þessu sviði á hverjum tíma. Þegar við hugsum hreinar, dyggðugar hugsanir mun hugur okkar einblína á þær hugsanir og óæskilegar hugsanir geta ekki yfirtekið svið huga okkar. Dyggð er eiginleiki Jesú Krists sem okkur er sagt að þróa. Við lærum í kirkjunni að við verðum ætíð að hugsa hreinar hugsanir og þegar eitthvað óhreint freistar okkur getum við sungið uppáhalds sálminn okkar eða hugsað um uppáhalds ritningargrein okkar. Bestu hjálpina er að finna í 2 Nefí 32:9, en þar segir að við verðum að: „Biðja án afláts og meg[um] aldrei láta hugfallast.“

Öldungur McEachron, 21 árs, João Pessoa trúboðinu í Brasilíu

Hugsið um aðra sem börn Guðs

Þú getur ráðið hvernig þú bregst við því sem þú sérð. Þú þarft ekki að færa allt sem þú sérð inn á svið huga þíns, bara af því þú sérð það. Þú velur hugsanir þínar. Veldu að halda þeim hreinum. Þú skalt forðast eins mikið og þú getur að horfa á ósiðsemi og ætíð klæðast siðsamlega. Líttu síðan á það fólk sem þið hittið sem börn Guðs, með himneska möguleika, sem faðir okkar á himnum elskar hvert og eitt. Það er erfitt að finna nokkuð annað en sorg þegar litið er á aðra sem börn Guðs, þrátt fyrir ósiðsemi þeirra.

Amy S., 19 ára, Utah, Bandaríkjunum