2010
Brúðarkjóll og áætlun
Apríl 2010


Brúðarkjóll og áætlun

„Hjónabandið hefur Guð vígt“ (K&S 49:15).

Lori sat á rúmi eldri systur sinnar er Karyn lauk við að setja í musteristöskuna sína. Karyn ætlaði að giftast í dag.

Lori hlakkaði til að fara í giftingarveisluna um kvöldið en hún var einnig hrygg. Eldri bróðir hennar, sem hafði þjónað í trúboði, gat farið inn í musterið með Karyn. Foreldrar hennar gátu einnig farið. En Lori og tveir yngri bræður hennar gátu ekki farið inn í musterið.

„Ég vildi að ég gæti farið í musterið með þér,“ sagði Lori.

Karyn leit upp. „Ég líka, en þú verður rétt fyrir utan. Og einhvern daginn mun ég fara í musterið með þér þegar þú giftir þig.“

Lori var ekki lengur eins hrygg og áður, en hún velti öðru fyrir sér. „Hvernig vissir þú að þú vildir giftast Matt?“ spurði hún.

Karyn settist á rúmið við hliðina á Lori. „Fyrir löngu síðan lærði ég að himneskur faðir hefur áætlun fyrir mig. Þegar ég hitti Matt gerði ég mér ljóst að við gætum uppfyllt þá áætlun saman.“

„Hefur þú lokið þessari áætlun?“ spurði Lori.

Karyn hristi höfuð sitt neitandi. „Matt og ég viljum eignast börn, ljúka menntun okkar og miklu meira.“

Lori horfði á fallega hvíta brúðarkjólinn sem hékk á skáphurðinni. „Kjóllinn þinn er svo fallegur,“ sagði hún.

Karyn brosti. „Það er annar hluti af áætluninni,“ sagði hún. „Mig hefur alltaf langað til að giftast í musterinu og því þarf kjóllinn að vera siðsamlegur.“

Nokkrum klukkustundum síðar horfði Lori á Karyn og Matt koma út úr musterinu. Andlit þeirra ljómuðu.

Lori hljóp til Karyn og faðmaði hana.

Nokkrum vikum síðar fékk Lori ljósmynd í pósti. Það var mynd af Karyn og Matt þar sem þau stóðu fyrir framan musterið. Karyn hafði skrifað efst á myndina: „Himneskur faðir hefur áætlun fyrir þig.“

Lori setti ljósmyndina á kommóðuna sína. Hún lofaði sjálfri sér að einhvern daginn myndi hún fara í musterið og andlit hennar myndi ljóma á sama hátt og andlit systur hennar.

Teikning: Jennifer Tolman; ljósmynd © Busath.com