2010
Musteri fyrir Kona stikuna
Apríl 2010


Musteri fyrir Kona stikuna

Þegar Leroy og Rose Alip tóku ákvörðun um að færa þá fórn sem þurfti til að sækja musterið heim í hverjum mánuði, blessaði Drottinn þau umfram fjárhagsgetu getu þeirra – og til að taka annað fólk með sér.

Leroy Alip hlustaði af ákafa er hann var settur í embætti háráðsmanns í stikunni á Big Island á Hawaii. Bróður Alip var sagt í blessuninni að hann myndi vera á eyjunni þegar musteri yrði byggt þar og að hann myndi þjóna í því musteri. Þetta var árið 1984 og eina musterið á Hawaii var á eyjunni Oahu, en þangað er löng leið með skipi eða flugvél.

Prestdæmisblessunin var hvatning fyrir bróður Alip. „Ég trúi því að þegar okkur er veitt blessun þá berum við þá ábyrgð að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að blessunin verði að veruleika,“ sagði hann. Því ákváðu hann og eiginkona hans, Rose, að sækja musterið á Oahu heim einu sinni í mánuði.

En það var ekki auðvelt. Ferðakostnaðurinn er 300 Bandaríkjadalir, mjög mikill peningur fyrir hjón sem rétt náðu að láta enda ná saman á þeim launum sem bróðir Alips fékk hjá ríkisstjórninni sem hann vann hjá. Eina leiðin fyrir þau að komast í musterið var að seilast í sparifé sitt. Og það gerðu þau með gleði.

Áður en árið var á enda runnið höfðu þau notað allt sparifé sitt. „En hjörtu okkar voru í musterinu,“ sagði bróðir Alip. „Við vildum halda áfram að fara í musterið. Því leituðum við aðstoðar í bæn.“

Innan skamms fékk bróðir Alip óvænt tækifæri til að auka tekjur sínar með því að dreifa blöðum fyrir fyrirtæki í heimabæ sínum. Hann fékk nærri því 700 Bandaríkjadali á mánuði fyrir að dreifa blaðinu snemma á morgnana. Þar sem þau höfðu nú meira en nóg fyrir ferðakostnaði til musterisins, fengu bróðir og systir Alip innblástur um að leggja umframféð inn á sinn eigin musterissjóð.

Í júní árið 1986 varð þeim ljóst af hverju innblásturinn hafði komið: Þau gátu nú, þar sem þau bjuggu í Kona stikunni á Hawaii, farið með nokkrar konur úr stikunni til musterisins, sem voru verðugar en höfðu áður ekki getað tekið á móti eigin musterisgjöf. Því tóku Alip hjónin með sér eina systur í mánuði til musterisins á Oahu. Í hvert skipti snéri systirin aftur heim og bar vitnisburð sinn um andlegan kraft og þá gleði sem hún hafði fundið er hún sinnti musterisþjónustu fyrir sig og aðra. Brátt breiddist viðhorfið til musterisþjónustunnar út um alla stikuna og fleiri kirkjuþegnar fóru að leita leiða til að sækja musterið heim.

Í gegnum sambönd sem bróðir Alip hafði í ferðamannageiranum náði hann að fá afslátt af flugfargjöldum, rútugjöldum og gistingu fyrir alla í stikunni sem höfðu löngun til að fara. Þegar árið 1994 rann upp sóttu rúmlega 100 kirkjuþegnar í Kona stikunni Laie-musterið á Hawaii heim í hverjum mánuði. Bróðir Alip hlær. Hann minnist þess að „musterisforsetinn hafi í gríni sagt að hinir heilögu frá Kona stikunni væru að slíta gólfteppunum því svo margir þeirra kæmu í musterið.“

Árið 1997 tilkynnti Gordon B. Hinckley (1910–2008) breytingu á áætlun um byggingu nýrra mustera. Með því að byggja smærri musteri væri hægt að byggja fleiri musteri. Trúfesti hinna heilögu á Big Island var verðlaunuð sex mánuðum síðar þegar Hinckley forseti tilkynnti að musteri yrði byggt fyrir Kona stikuna. Bróðir Alip var kallaður sem annar ráðgjafi í forsætisráði musterisins eftir að musterið var vígt árið 2000. Í dag er hann alfarið kominn á eftirlaun en heldur áfram fullu starfi í verki Drottins. Hann stjórnar þeim sem sjá um að halda musterislóð Kona-musterisins á Hawaii fallegri.

Bróðir og systir Alip eru þakklát fyrir að himneskur faðir hefur blessað þau með því sem þau þurfa á að halda til þess að geta haldið áfram að þjóna öðrum. Fyrst er þau fluttu til Kona segir bróðir Alip: „Við áttum ekkert skjól nema litlu hjallana uppi í hæðunum sem byggðir voru fyrir vinnumennina á kaffiökrunum.“ Þar bjuggu þau svo mánuðum skipti þar til þau höfðu efni á að leigja lítið hús.

Þó nokkrum árum síðar höfðu þau safnað nægu sparifé og voru með nægilega góð laun til þess að geta hugað að betra heimili en ekkert virtist henta þeim. Dag einn þegar bróðir Alip var að vinna á musterislóðinni í Kona gekk roskin trúsystir hans framhjá. Hún grét. Bróðir Alip hristi höfuðið. „Hún hafði verið borin út af eigin heimili og átti engan samastað. Af einhverri ástæðu sagði ég henni að heimsækja barnabörn sín og þegar hún kæmi til baka gæti hún flutt inn til okkur.“ Vandamálið var að heimili Alips hjónanna var ekki nægilega stórt. Því hófu þau að biðja – og leita einlæglega að leiðum til að öðlast þá blessun sem þau leituðu eftir.

Stuttu síðar bauð fasteignasali þeim að íhuga tveggja hæða hús sem í voru sex svefnherbergi. Þeim þótti það dásamlegt en reiknuðu með að það yrði of dýrt fyrir þau. Þau höfnuðu því boðinu með semingi.

En leið opnaðist. Á nokkrum vikum hafði verðið á húsinu lækkað og Alip hjónin komust að því að greiðslugeta þeirra var nægjanleg til þess að kaupa það. Úr varð að systirin sem átti hvergi heima flutti inn með bróður og systur Alip þegar hún snéri aftur til Kona og þrjú börn Alip hjónanna, sem sjálf voru þurfandi, fengu heimili fyrir fjölskyldur sínar í húsinu.

„Drottinn hefur hugsað vel um okkur,“ sagði bróðir Alip. „Þegar við sýnum honum að við erum fús til að fórna tíma okkar, hæfileikum og peningum fyrir hann þá úthellir hann yfir okkur sinni mildu miskunn.“

Myndir: Steve Kropp, ljósmynd: R. Val Johnson