2010
Sjálfstraustspróf: Frá ótta til trúar við ákvörðun um hjónaband
Apríl 2010


Sjálfstraustspróf Frá ótta til trúar við ákvörðun um hjónaband

Ræða flutt 25. september 2007 á helgistund við Brigham Young háskólann – Idaho.

Ljósmynd
Elder Lance B. Wickman

Ég var skipaður liðsforingi í Bandaríkjaher eftir að ég útskrifaðist úr framhaldsskóla árið 1964. Ég bauð mig fram í þjálfun fyrir bandaríska herlögreglumenn. Þjálfun herlögreglumanna er mjög erfitt námskeið í sérþjálfun og tækni fótgönguliða. Markmiðið er að fá sérþjálfaða og mjög færa liðsforinga og undirforingja.

Þjálfun mín fól í sér röð „sjálfstraustsprófa,“ eins og stjórnendur herlögreglumannanna kölluðu þau. Þessi próf áttu að reyna á líkamlegan styrk, úthald og kjark. Að sigrast á hindrunum, klifra og yfirstíga ísi þakta klettaveggi sem voru rúmlega 30 metra háir, fenjaganga á nóttunni innan um krókódíla og eitraða snáka og 16 km löng áttavita þraut að nóttu til yfir ógreiðfært landsvæði – þetta var einungis hluti þeirra prófa sem við urðum að standast. Eitt af markmiðum þessara sjálfstraustsprófa var að kenna herlögreglumönnum, að við erfiðar aðstæður sem mikið reyna á, eins og í bardaga, getum við gert meira en við höldum að við getum. Leiðtogar okkar kenndu okkur að treysta á okkur sjálfa og á eigin þjálfun. Oftar en einu sinni veittu þær lexíur sem ég lærði í sjálfstraustsprófum herlögregluskólans mér aukið hugrekki er ég tókst á við erfiðar prófraunir í bardaga.

Á lífsins göngu horfumst við í augu við þýðingarmeiri sjálfstraustspróf en ég upplifði í þjálfun minni. Þetta eru í raun ekki sjálfstraustspróf á okkur sjálf heldur traust á það sem við meðtökum frá anda Guðs. Hver á eftir öðrum hafa spámenn ráðlagt okkur að muna eftir því sem við vitum – til að viðhalda trausti okkar á Drottni. Jakob reyndi að tendra á ný trú fólks síns þegar hann endurtekið sagði: „Ég veit að þér vitið“ (2 Ne 9:4,5, leturbreyting hér). Páll var jafnvel enn afdráttarlausari: „Varpið því eigi frá yður djörfung yðar. Hún mun hljóta mikla umbun“ (Hebr 10:35; leturbreyting hér). Öll stöndum við andspænis óráðinni framtíð. En þegar við munum eftir því sem við nú þegar vitum stöndum við andspænis henni í trú. Við stöndum andspænis henni vonglöð. Við stöndum andspænis henni með sjálfstrausti.

Það er ákvörðunin um að giftast. Núverandi kynslóð ungs fólks nálgast enga aðra ákvörðun af jafn miklum beig. Þetta er viðfangsefni sem veldur miklum kvíða.

Ótti tengdur hjónabandi

Þótt ég sé ekki viss um hverjar allar ástæðurnar eru sem liggja hér að baki, tel ég að nokkrar þeirra séu þessar:

  • Hve auðvelt er að láta reka á reiðanum. Margt ungt fólk kippir sér „út úr þeim leik“ að finna sér réttan maka með því að halda sig of mikið í hópum. Vegna þess að í slíkum hópum er fólk af báðum kynjum, karlar og konur, gera sumir þau mistök að halda að þau séu í raun að taka þátt í því sigtunarferli sem nauðsynlegt er í leitinni að eilífum félaga. En þannig er það ekki. Hópsamvera getur komið í veg fyrir tækifæri til að kanna náið skapgerð og persónuleika þess útvalda, sem er nauðsynlegur þáttur í skynsamlegu vali.

  • Ótti við að gera mistök. Tölfræði skilnaða er vel þekkt. Sumt ungt fólk hefur þurft að lifa við það hugarangur að sjá hjónaband foreldra sinna eða vina mistakast, eða hefur sjálft gengið í gegnum skilnað. Það hefur upplifað hið mikla áfall sem tengist slíkum sambandsslitum. Stundum verður afleiðingin hræðsla við hjónaband, því að þau gætu valið ranga manneskju.

  • Ungæðislegur ótti við ábyrgð. Hjá að minnsta kosti sumum er tregða við að blanda eigin löngunum og áhugamálum saman við annarra. Slík sjálfselska fær suma til að fresta ákvörðun um hjónaband.

Villandi hugsun

Hver sem ástæðan að baki óttans við ákvörðun um hjónaband er, þá leiðir hún til villandi hugsunar, og veldur því að viðkomandi „varpar burt“ eigin sjálfstrausti. Það veldur því síðan að viðkomandi nær ekki tökum á sinni eigin ábyrgð við þessa ákvörðun. Jafnvel þótt afleiðing slíks ótta sé ekki sú að fresta eða forðast giftingu, getur hún leitt til annarra ranghugsana. Sumir hneigjast til dæmis til þess að líta á ákvörðunina sem eingöngu andlega ákvörðun. Þeir sniðganga eigin skyldur og bíða eftir jafngildi þess að himneskur fingur skrifi svarið á vegginn, að hafið klofni eða einhverju öðru yfirnáttúrulegu fyrirbæri, sem afdráttarlaust segi þeim að þessi eða hinn sé „hinn rétti.“

Sumir vilja að aðrir taki ákvörðunina fyrir þá. Stikuforseti við Brigham Young háskólann sagði mér að ekki væri óalgengt hjá sumum konum að fara eftir áliti núverandi kærasta, sem segir henni að hann sé „hinn rétti.“ Aðrir fara eftir mati foreldra – oft föður – sem hefur tekið ákvörðun fyrir þau áður. Í báðum tilvikum er verið að afsala sér ábyrgð á mikilvægasta valinu í þessu lífi.

Ráðgjöf foreldra, biskupa og annarra verðugra, getur verið dýrmæt. En þegar allt kemur til alls getur enginn annar – né ætti nokkur annar – að segja ykkur hvað gera skal. Ákvörðunin varðandi val á maka er einstaklega persónuleg.

„Varpið því eigi frá yður djörfung yðar. Hún mun hljóta mikla umbun!“ Munið eftir því að við fæðumst á þessa jörð með meðfædda þrá eftir að verða ástfangin. Ekki gera það erfiðara en það er! Munið eftir því sem þið vitið og haldið áfram í trausti á himneskan föður og á stöðu ykkar sem synir eða dætur hans.

Ráðleggingar um tilhugalíf

Tilhugalíf er tækifæri fyrir tvær manneskjur að kynnast betur. Tími til að kynnast einhverjum, áhugamálum hans eða hennar, venjum og viðhorfum til lífsins og fagnaðarerindisins. Það er tími til að segja frá takmarki sínu og draumum, vonum og ótta. Það er tími til þess að láta reyna á skuldbindingu viðkomandi gagnvart fagnaðarerindinu.

Öldungur David A. Bednar úr Tólfpostulasveitinni sagði frá fyrrverandi trúboða sem hafði kynnst sérstakri stúlku. Honum var verulega annt um hana og hann íhugaði alvarlega að biðja hennar. Þetta var eftir að Gordon B. Hinckley forseti (1910–2008) hafði ráðlagt konum að nota einungis eitt par af eyrnalokkum. Þessi ungi maður beið þolinmóður um hríð, sagði öldungur Bednar, eftir að unga konan fjarlægði aukaparið af eyrnalokkum sínum. En það gerðist ekki. Af þeim sökum og öðrum dró hann sig vonsvikinn út úr þessu sambandi.

Þegar öldungur Bednar sagði frá þessari reynslu sagði hann: „Ég get mér þess til að einhverjum ykkar … finnist ungi maðurinn hafa verið of dómharður eða jafnvel að það sé kjánalegt eða öfgafullt að byggja svo eilíflega mikilvæga ákvörðun, jafnvel þótt aðeins sé að hluta til, á því sem talið er smávægilegt atriði. Ef til vill angrar það ykkur að dæmið beinist að ungri stúlku sem brást ekki við spámannlegri ráðleggingu, í stað þess að snúast um ungan mann. [En má ég benda ykkur á] að eyrnalokkarnir voru ekki málið!“1

Hér er annað ráð. Gætið þess í tilhugalífinu að byggja ekki mat ykkar eingöngu á því sem lýsa mætti sem yfirborðslegu, því sýnilega. Með því á ég við að þið byggið ekki ákvörðun ykkar eingöngu á því hvort viðkomandi hafi þjónað sem fastatrúboði eða hefur ákveðna köllun í deild ykkar. Þessi atriði geta verið, ættu að vera og eru venjulega, vísbending um hollustu, trúfestu og heilindi. En þó ekki alltaf. Þess vegna þurfið þið að kynnast nánar. Kynnist einhverjum það vel að þið þekkið hjarta viðkomandi og persónuleika frá fyrstu hendi, en ekki eingöngu „trúarlega ferilskrá“ hans eða hennar.

Ályktunin er þessi: Forðist að dæma viðkomandi þar til þið hafið kynnst þeim betur. Neikvæðir skyndidómar geta verið alveg jafn rangir og villandi og jákvæðir skyndidómar. Verið jafn vakandi fyrir demanti og þið eruð gagnvart glópagulli.

Að biðjast fyrir um ákvörðunina

Eingöngu eftir að hafa gefið ykkur nægan tíma í sambandinu til þess að geta með góðu móti lagt dóm á það sjálf, ættuð þið að leita staðfestingar í bæn. Munið að rétt eins og með allar mikilvægar ákvarðanir þá er hjónabandið ykkar val. Drottinn reiknar með að þið notið ykkar eigin dómgreind. Eins og hann sagði við Oliver Cowdery: „Sjá, þú hefur ekki skilið. Þú hefur talið að ég gæfi þér það, og ekki þyrfti að hugsa um annað en að spyrja mig“ (K&S 9:7). Eftir að þið hafið gert ykkar hluta með viðeigandi tilhugalífi og tekið bráðabirgðaákvörðun, skuluð þið hafa trú á að himneskur faðir svari bæn ykkar.

Drottinn ætlar ykkur að nota ykkar eigin skynsemi. Hann væntir þess að þið treystið ykkar eigin eðlislægu tilfinningum varðandi hið meðfædda aðdráttarafl milli karls og konu. Njótið þýðingarmikils tilhugalífs með henni eða honum, þegar þið hafið laðast að einhverri manneskju af gagnstæðu kyni, og fullvissið ykkur um að viðkomandi deili með ykkur sömu gildum og sé sú persóna sem þið viljið glöð eiga nánasta sambandið við – síðan skuluð þið leggja málið fyrir himneskan föður. Skortur á andsvari við ykkar eigin tilfinningar getur verið Hans leið til að segja ykkur að hann hafi ekkert á móti vali ykkar.

Sýnið Drottni traust

Mörg ár hafa liðið síðan ég var í þessari erfiðu þjálfun. Straumar lífsins hafa borið mig langt frá þeim sjálfstraustsprófum sem ég þreytti í herþjónustu minni. En minningarnar um þau og lexíur þeirra vara. Við höfum getu til þess að standast storma lífsins, jafnvel á enn áhrifaríkari hátt en við héldum. Málið snýst einfaldlega um að muna ætíð eftir því sem við vitum.

„Varpið því eigi frá yður djörfung yðar. Hún mun hljóta mikla umbun!“ Treystið því sem þið vitið! Þá munuð þið takast á við sjálfstraustspróf ykkar af hugrekki og sóma og Drottinn mun vissulega leiðbeina ykkur.

Heimildir

  1. David A. Bednar, “Quick to Observe,” Liahona, des. 2006, 17.

Teikningar: Dilleen Marsh

Hópsamvera getur komið í veg fyrir tækifæri til að kanna náið skapgerð og persónuleika þess útvalda, sem er nauðsynlegur þáttur í skynsamlegu vali.

Þið þurfið að kynnast. Kynnist einhverjum það vel að þið þekkið hjarta viðkomandi og persónuleika frá fyrstu hendi, en ekki eingöngu „trúarlega ferilskrá“ hans eða hennar.