2010
Fidjieyjar: Ávextir trúarinnar
Apríl 2010


Fidjieyjar Ávextir trúarinnar

Uppgötvun einnar fjölskyldu á sannleikanum, vaxandi kærleiksbönd annarar fjölskyldu og trúartraust ungrar konu.

Eitt sinn var litið á Fidjieyjar sem frekar fjarlægan stað – sem hægt var að hverfa til frá vandamálum hraðari lífsstíls þéttbýlisins. Það er ekki hægt lengur. Flugvélin, gervihnötturinn og alþjóða viðskipti hafa flutt allar áskoranir nútímans sem fyrirfinnast í öðrum löndum að ströndum Fidjieyja. Leiðin fyrir kirkjuþegna á Fidjieyjum til þess að takast með árangri á við þessar áskoranir er sú sama og í öllum öðrum heimshlutum: trúföst hlýðni við reglur fagnaðarerindisins.

Þrjú dæmi frá Fidjieyjum sýna hvernig þessar reglur móta líf manna.

Kumar fjölskyldan

George Kumar var einungis að leita að leið sem myndi tryggja að eldri sonur hans, Ryan, lifði árangursríku og siðavöndu lífi. Kumar fjölskyldan fann miklu meira en það: Eilífan sanneik fagnaðarerindisins sem færði þeim öllum nýjan og hamingjuríkari lífsstíl.

Fagnaðarerindið endurlífgaði fjölskyldu þeirra segir bróðir Kumar. „Við verjum fleiri stundum saman – betri stundum og samband okkar er opnara.“ Fjölskyldubænir eru fluttar daglega og regluleg fjölskyldukvöld er „algjör nauðsyn,“ segir Ryan.

Það var Ryan sem var í fararbroddi inn í kirkjuna.

George Kumar fór að hafa áhyggjur af hvaða braut sonur hans ætti eftir að feta þegar Ryan var á miðjum táningsaldri. George hafði áhyggjur af því að Ryan og vinir hans væru ekki að verja tíma sínum á heilbrigðan hátt og fann því leið til þess að sonur hans væri umkringdur ungu fólki sem hagaði sér öðru vísi. George ræddi við ættingja sinn, sem vinnur í framhaldsskóla SDH í Suva á Fidjieyjum, um hvort Ryan gæti uppfyllt skilyrðin fyrir inngöngu. (Framhaldsskóli kirkjunnar er miðskóli sem jafngildir síðustu tveimur árum í grunnskóla á öðrum svæðum og fyrstu tveimur árum í framhaldsskóla.)

Hegðun Ryans fór að batna eftir að hann hóf nám í framhaldsskóla kirkjunnar. „Það var fordæmi annarra nemenda,“ sagði hann. Áður hafði hann varið miklum tíma í fánýtan hégóma með vinum sínum. En eftir að hafa séð muninn á lífsháttum nemenda í skóla kirkjunnar segir hann: „Öll þrá mín eftir slíku hvarf.“

Ryan hlaut vitnisburð um fagnaðarerindið. Foreldrar hans voru svo yfir sig ánægð með breytingarnar í lífi hans, að þegar hann bað um leyfi þeirra til að láta skírast og vera staðfestur inn í kirkjuna, veittu þau fúslega leyfi sitt. Ryan sleit sambandi sínu við gamla vinahópinn sinn. Hann hafði eignast nýja vini.

Þegar hann bauð hins vegar foreldrum sínum að hlusta á trúboðana „vorum við treg til,“ segir George. Samt höfðu þau séð þær breytingar sem fagnaðarerindið hafði haft á líf Ryans og því vissu þau að kirkjan hlaut að vera af hinu góða. Umskiptin í hegðun Ryans voru slík að á þriðja og síðasta ári hans í skóla kirkjunnar var hann útnefndur höfðingspiltur, sem er heiður venjulega veittur nemanda sem hefur varið öllum sínum skólaferli í skólanum.

Foreldrum Ryans fannst sumar breytingar á hegðun hans undarlegar í fyrstu. Af hverju, til að mynda, gátu þau ekki fengið hann til þess að borða á fyrsta sunnudegi mánaðarins? En þegar Ryan útskýrði tilgang föstunnar skildu foreldrar hans að breytingarnar í lífi hans ristu dýpra en þau höfðu gert sér grein fyrir.

Yngri bróðir Ryans, Michael, hafði einnig tekið eftir breytingunum hjá bróður sínum og Michael hlustaði á trúboðana kenna fagnaðarerindið. „Ryan fór að fara á ýmsar athafnir í kirkjunni og ég tók eftir því að alltaf þegar hann kom til baka var hann hamingjusamur,“ segir Michael. „Ég hreinlega bauð mig fram við trúboðana. Mig langaði að læra lexíurnar. Mig langaði að láta skírast og verða staðfestur.“

Þegar trúboðarnir voru að kenna Michael lexíur fyrir nýja meðlimi fór móðir hans, Alitiana, að hlusta. Þetta hafði áhrif á eiginmann hennar og brátt höfðu bæði George og eiginkona hans fengið eigin vitnisburð.

Stuttu áður en Ryan hóf þjónustu sína í Wellington trúboðinu á Nýja Sjálandi árið 2006 naut hann þeirra forréttinda að skíra báða foreldra sína inn í kirkjuna. Síðar, og áður en Michael fór í sitt trúboð, urðu það hans forréttindi að fylgja foreldrum sínum í musterið. Öldungur Michael Kumar fór til suður trúboðsins í Salt Lake City, Utah, í ágúst 2008, skömmu áður en Ryan snéri aftur heim frá Nýja Sjálandi.

Það var erfitt fyrir Kumar fjölskylduna að greiða tíund og greiða fyrir trúboð sonar síns. Laun bróðir Kumars fóru að fullu í greiðslur á húsnæðislánum þeirra sem og aðrar skuldbindingar. En þau færðu þær fórnir sem þau þurftu og þörfina fyrir það skildi öll fjölskyldan. Þegar bróðir Kumar sagði til dæmis glaðlega að þau myndu snæða „venjulega“ máltíð um kvöldið skildi fjölskyldan að ekkert kjöt yrði á boðstólunum. „Þá daga borðuðum við einungis brauð og kakó,“ minnist Michael.

Ryan er þakklátur fyrir fórn foreldra sinna. „Ég komst að því að þau eru algjörlega trú þeim sáttmálum sem þau gerðu.“

Yngri bróðir Ryans segir að síðan trúskipti þeirra áttu sér stað „stöndumst við fjölskyldan betur ýmsar raunir. Himneskur faðir hefur hjálpað okkur.“

Trúskipti fjölskyldunnar hafði einnig fljótt áhrif á líf annarra. Tveir frændur Ryans og Michaels, sem dvöldu um skeið hjá Kumar fjölskyldunni, völdu einnig að hlusta á lexíur trúboðanna og ganga í kirkjuna.

Bróðir Kumar segir að þær blessanir sem fjölskylda hans hefur hlotið hafi bæði verið stundlegar og andlegar. Þeim hafi tekist að láta peningana nægja fyrir þörfum sínum. Bróðir Kumar fékk aðra vinnu eftir að Michael fór í trúboð sitt og vonar hann að það geri honum kleift að greiða niður húsnæðislán sitt hraðar.

En þær andlegu blessanir sem Kumar fjölskyldan hefur meðtekið hafa verið öllu mikilvægari í lífi þeirra. George og Alitiana finna að þau fá stuðning í köllunum sínum – hann sem öldungasveitarforseti í Lami 2. deild í Suva-stiku Norður-Fidjieyja og hún sem annar ráðgjafi í Barnafélaginu.

Ryan segir að viðhorf sitt til lífsins sé ekki ósvipað viðhorfi margra jafningja sinna: „Ég hef alltaf eitthvað að gera – eitthvað sem byggir upp ríkið.“ Varðandi framtíðaráform segir hann fagnaðarerindið fá hina trúuðu „til að horfa á hlutina í eilífu samhengi.“

Bæði George og Alitiana Kumar höfðu hlotið kennslu í kristinfræði áður en þau komust í snertingu við fagnaðarerindið. Hins vegar höfðu þau ekki fundið stuðning og huggun í því sem þeim hafði verið kennt. „Í öðrum trúarbrögðum,“ segir bróðir Kumar, „er þér kennt að óttast reiði Guðs – að vera hræddur. En friðþægingarfórn Jesú Krists veitir þér annað tækifæri.“

Kumar fjölskyldan reynir sitt besta til þess að nýta sér til fulls þetta síðara tækifæri.

Naivaluvou fjölskyldan

Fjölskylda Peni og Jieni Naivaluvou stækkaði um helming þegar þau tóku til sín fjórar stúlkur frá Vanuatu sem sóttu framhaldsskóla SDH á Fidjieyjum. Naivaluvou fjölskyldan leit ekki á þetta sem fórn. Þeim finnst þau hafa hlotið ríkulegar blessanir fyrir að hafa gert þetta. Þau telja að ein af þeim blessunum sé barnið Hagoth sem fæddist inn í fjölskyldu þeirra í janúar 2009.

Snemma árs 2008 fréttu bróðir og systir Naivaluvou í Tamavua deild í Suva-stiku á Norður-Fidjieyjum að tvo unga nemendur frá Vanuatu vantaði húsnæði. Því íhugaði Naivaluvou fjölskyldan eigin aðstæður. Synir þeirra, Soane 18 ára og Ross 16 ára, voru að heiman, því þeir sóttu kirkjuskóla í Tonga, landi forfeðra sinna. Stúlkurnar tvær frá Vanuatu gistu á heimili fólks í Suva sem ekki var í kirkjunni og kostaði það foreldra þeirra mikinn pening. Stúlkurnar tvær gætu verið Andreu Naivaluvou, sem þá var 13 ára, góður félagsskapur. Andrea sótti einnig framhaldsskóla kirkunnar og kom heim um það leyti sem foreldrar hennar fóru í vinnu. Því tóku bróðir og systir Naivaluvou þá ákvörðun að bjóða stúlkunum tveimur frá Vanuatu að búa hjá sér endurgjaldslaust.

Þrátt fyrir að stúlkurnar hafi krafist þess að taka þátt í kostnaðinum, þá var hann einungis tæplega helmingur þeirrar upphæðar sem áður hafði verið greidd – blessun fyrir fjölskyldur þeirra.

Í apríl komu tvær aðrar stúlkur frá Vanuatu í heimsókn og leið vel á heimili Naivaluvou fjölskyldunnar. Nokkru síðar spurðu þessar tvær stúlkur hvort þær mættu einnig búa hjá þeim. Naivaluvou fjölskyldan tók glöð á móti þeim.

Hvernig gekk það, að bæta fjórum ungmennum við á heimilinu? „Við höfum myndað góð tengsl, svo góð að þær eru meira eins og dætur okkar,“ sagði Naivaluvou biskup. Naivaluvou fjölskyldan gerði það ljóst í upphafi að líta ætti á stúlkurnar sem hluta af fjölskyldunni. Stúlkurnar fjórar frá Vanuatu eru í raun skyldar en á heimili Naivaluvou fjölskyldunnar koma þær fram við hver aðra sem systur fæddar af sömu foreldrum. Andrea Naivaluvou tók þeim einnig „sem systrum mínum,“ sagði hún. Eldri stúlkurnar fylgdust með henni og veittu henni aðstoð við heimanámið þegar svo bar undir. Stúlkurnar fjórar fóru að kalla bróður og systur Naivaluvou Ta og Na – „pabba“ og „mömmu“ á Fidjimáli.

Vera má að þetta sé í fyrsta sinn sem stúlkur frá Vanuatu, sem sækja framhaldsskóla kirkjunnar, hafa búið hjá kirkjuþegnum, segir systir Naivaluvou. Faðir einnar stúlkunnar heimsótti Naivaluvou fjölskylduna og lét í ljós djúpt þakklæti sitt til þeirra fyrir þann kærleika sem þau höfðu sýnt dóttur hans.

Systir Naivaluvou bendir á að ein stúlknanna, sem er dóttir umdæmisforseta á Vanuatu, hafi sýnt fjölskyldu sinni mjög gott fordæmi um trú. Naivaluvou biskup segir að fordæmi hennar hafi hjálpað fjölskyldunni að sinna ritningarnámi og fjölskyldubæn af meiri festu.

Naivaluvou hjónin segja að þau hafi hlotið stundlegar blessanir vegna þess að þau hafi deilt eigum sínum með öðrum. Fjármunir þeirra hafi nýst betur. Og systir Naivaluvou trúir því að sú blessun, að geta orðið þunguð aftur eftir 13 ár, tengist vilja þeirra til að deila kærleika sínum með öðrum.

Þegar synirnir tveir snéru aftur heim í lok skólaárs síns á Tonga tóku þeir einnig stúlkunum sem hluta af fjölskyldunni. Þó má skynja að Soane lítur ekki á stúlkurnar nákvæmlega eins og systur sínar. Hann var valinn til að fara með einni þeirra á skóladansleik. Hann hegðaði sér sem mesta prúðmenni.

Það var erfitt að kveðja stúlkurnar í lok skólaárs þeirra árið 2008, segir Naivaluvou biskup. Það var eins og þau hjónin væru að kveðja fjórar dætur. Og er skólaárið hófst á ný árið 2009 tóku Naivaluvou hjónin aftur glöð á móti fjórum „dætrum“ sínum – ásamt tveimur til viðbótar.

Sumir myndu furða sig á því hvernig þau gætu komið sex stúlkum til viðbótar fyrir á heimili sínu, ásamt eigin dóttur og litlu barni, og hafa einungis fjögur svefnherbergi. En Naivaluvou fjölskyldan var ekki lengi að finna lausn á því.

Þrátt fyrir allt snérist málið ekki um persónulegt rými. Málið snérist einfaldlega um að útvíkka vaxandi kærleiksbönd.

Asenaca Ramasima

Árið 2008 hlaut Asenaca Ramasima tvenn verðlaun sem eru sennilega mest virtu verðlaunin er nemendur geta hlotið í framhaldsskóla SDH á Fidjieyjum. Í fyrsta lagi dúxaði hún, var með hæstu einkunn í skólanum. Þeim verðlaunum fylgir styrkur fyrir skólagjöldum. Einnig hlaut hún verðlaunin Ljón Drottins sem veitt eru fyrirmyndar nemanda í yngri deild Trúarskólans. Hún metur síðari verðlaunin jafnvel meira en þau fyrri, vegna þess að þau minna hana á hvernig hún hafi reynt að sýna trú á himneskan föður í daglegu lífi sínu.

Asenaca hefur nú þegar fengið sinn skerf af erfiðleikum í lífinu, þótt hún sé einungis 19 ára gömul. Samt virðist hún geisla af gleði – gleði í þeirri vitneskju að hún á eilífa fjölskyldu, því þau innsigluðust í Suva-musterinu á Fidjieyjum árið 2001 og gleði í þeirri vitneskju að himneskur faðir þekkir hana og elskar.

Asenaca er yngst fimm barna. Hún á fjóra bræður. Þegar faðir þeirra andaðist var elsti bróðirinn í trúboði. Hann hvatti fjölskyldu sína til að minnast þess að faðir þeirra var ekki horfinn, hann yrði ætíð nálægt þeim.

Bræður hennar brauðfæða fjölskylduna, en móðir þeirra er hinn andlegi kraftur sem heldur fjölskyldunni saman. Það hefur orðið börnunum til heilla að fylgja fordæmi foreldra sinna.

„Faðir minn var mér innblástur. Hann kenndi okkur ætíð að ,leggja hart að okkur‘ sagði hin milda Asenaca. Hún hefur heiðrað minningu föður síns með því að leggja hart að sér í skólanum og með því að hjálpa móður sinni. Styrkurinn sem fylgir dúx viðurkenningunni er dýrmætt framlag sem Asenaca hefur lagt á vogarskálarnar til að kosta eigin menntun.

Fordæmi foreldra hennar lögðu einnig grunninn að andlegri menntun hennar. „Við lærðum á hverjum degi heima með ritningarlestri fjölskyldunnar og kennslu frá foreldrum okkar,“ segir Asenaca. Hún bætir því við að móðir hennar haldi áfram uppbyggingu fjölskyldunnar á þeim sama grunni.

Reglulegt nám í ritningunum hjálpar Asenaca að viðhalda og styrkja trú sína á Jesú Krist. Það skiptir ekki máli hversu upptekin hún kann að vera, hún finnur tíma til þess að læra í ritningunum.

Trú á Jesú Krist hefur hjálpað henni að vera nærri föður sínum á himni, svo hún geti leitað hans leiðsagnar. „Ég veit að hann er ætíð til staðar,“ segir hún. „Ef ég geri það sem hann vill að ég geri, þá mun hann vera með mér og andi hans mun staðfesta það sem rétt er.“

Þessi leiðsögn er mikilvæg þegar stúlkur á hennar aldri reyna að fá hana til „að skemmta sér“ á sama hátt og þær skemmta sér – með áfengisdrykkju, reykingum og virðingarleysi fyrir skírlífislögmálinu. En „slíkt brýtur gegn samvisku minni,“ segir Asenaca, og vegna trúar hennar og öryggis sem hún finnur í leiðsögn himnsesks föðurs, „get ég sagt nei.“

Þjónusta í kirkjunni hefur hjálpað henni að byggja upp það sjálfstraust sem hún annars myndi ekki hafa, segir hún. Sjálfstraustið verður henni dýrmætt þegar hún lýkur námi sínu í framhaldsskóla kirkjunnar, vegna þess að næst stefnir hún á bókhaldsnám við Brigham Young háskólann í Provo, Utah eða BYU – Hawaii.

Þessir skólar eru staðsettir í órafjarlægð frá hennar afskekkta svæði í útjaðri Suva. Er hún ekki svolítið hrædd við að fara svo langt að heiman? Asenaca hugsar sig um andartak og brosir síðan sínu glaðværa brosi. Jú, svarar hún – en hún mun gera það til þess að ná markmiðum sínum.

Það er auðvelt að trúa því að Asenaca muni gera það sem hún segist ætla að gera. Hingað til hefur henni gengið mjög vel að ná markmiðum sínum. Hún hefur, líkt og aðrir trúfastir kirkjuþegnar á Fidjieyjum, fundið bæði andlegan vöxt og stundlega framþróun er hún hefur ræktað trú sína og haldið boðorðin.

Ljósmyndir eftir Don L. Searle

George, Alitiana og Ryan Kumar.

Öldungur Michael Kumar þegar hann þjónaði í suður trúboðinu í Salt Lake City, Utah.

Fremri röð: Peni, Jieni og Andrea Naivaluvou. Aftari röð: Soane og Ross Naivaluvou.

Suva-musterið á Fidjieyjum.