2010
Innsiglaðar grafir
Apríl 2010


Uns við hittumst heil

Innsiglaðar grafir

Fullyrðingarnar í sölubæklingnum virtust ósennilegar – næstum því hlægilegar – en þær minntu mig á loforð sem hefur eilífa ábyrgð.

Móðir mín, systkin mín og ég þurftum að fara í útfararstofuna daginn eftir að pabbi dó til að ganga frá fyrirkomulagi jarðarfararinnar. Verkefni okkar var að velja líkkistu og hvelfingu sem ætti að hýsa líkkistuna.

Þegar við íhuguðum valmöguleikana tók ég eftir sölubæklingi þar sem verið var að auglýsa ákveðna hvelfingu. Þar var meðal annars fullyrt að hvelfingin væri sjálfinnsiglandi og sú innsiglun hefði 75 ára ábyrgð. Jafnvel þótt tilefni okkar á útfararstofunni væri grafalvarlegt, fannst mér ábyrgðin kátbrosleg.

„Hver á eftir að athuga innsiglið eftir 75 ár?“ velti ég fyrir mér. „Og ef svo vildi til að einhver kæmist að því að innsiglið virkaði ekki, hver myndi þá leggja inn kröfu um ábyrgðina? Hverjar eru í raun líkurnar,“ velti ég fyrir mér, „að hvelfingin haldist innsigluð?“

Það var á þessu augnabliki, þegar ég velti þessu fyrir mér, að hugsanir mínar beindust að annarri hvelfingu, þeirri sem lýst er í Matteus 27. Á þeirri hvelfingu, sem var í raun grafhvelfing staðsett í fjarlægu landi og fyrir löngu síðan, var op sem lokað var með stórum steini:

„Næsta dag, daginn eftir aðfangadag, gengu æðstu prestarnir og farísearnir saman fyrir Pílatus og sögðu:

Herra, vér minnumst þess, að svikari þessi sagði í lifanda lífi: Eftir þrjá daga rís ég upp.

Bjóð því, að grafarinnar sé vandlega gætt allt til þriðja dags, ella gætu lærisveinar hans komið og stolið honum og sagt fólkinu: Hann er risinn frá dauðum. Þá verða síðari svikin verri hinum fyrri.

Pílatus sagði við þá: Hér hafið þér varðmenn, farið og búið svo tryggilega um sem best þér kunnið.

Þeir fóru og gengu tryggilega frá gröfinni og innsigluðu steininn með aðstoð varðmannanna“ (Matt 27:62–66).

Af öllum skipunum sem nokkru sinni hafa verið gefnar í sögu konunga, hershöfðingja og stjórnenda, þá var skipun Pílatusar um að halda grafhvelfingunni lokaðri ef til vill sú gagnslausasta.

Hvaða möguleika hafði grafhvelfingin á því að haldast lokuð? Í raun var engin leið fyrir hermennina að framfylgja þessari skipun, því það var engin leið að grafhvelfingin myndi ekki opnast: „Þá varð landskjálfti mikill, því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann“ (Matt 28:2).

Allar hvelfingar, grafir og grafhvelfingar sem hafa nokkru sinni verið innsiglaðar munu opnast vegna þessarar einu grafhvelfingar sem opnaðist. Þetta er hægt að ábyrgjast.

Bjarg sáluhjálpar okkar frelsar okkur frá dauða og víti. Hann er „upprisan og lífið“ (Jóh 11:25). Vegna hans verður „víti að skila aftur sínum fjötruðu öndum. Og gröfin verður að skila aftur sínum fjötruðu líkömum, og líkamar og andar manna tengjast hvorir öðrum á ný. Og það gjörist fyrir upprisukraft hins heilaga Ísraels“ (2 Ne 9:12).

Grafhýsið í garðinum: Linda Curley Christensen, © 2000 IRI