2010
Spencer W. Kimball forseti (1895–1985)
Apríl 2010


Göfugs æviferils minnst

Spencer W. Kimball forseti (1895–1985)

Spencer W. Kimball, sem ólst upp á dreifbýlissvæði í Arisóna, lærði ungur að árum að leggja hart að sér. Hann var barnabarn Hebers C. Kimball (1801–68) postula og sonur stikuforseta. Spencer þróaði einnig með sér sterkan vitnisburð og mikla hollustu við fagnaðarerindið.

Þegar Spencer var drengur var það oft á tíðum ábyrgð hans að vera efst á heyvagninum og stappa saman heyinu um leið og eldri bræður hans hentu því á vagninn. Honum var heitt og hann klæjaði af öllu rykinu, en hann vann samt vinnu sína – nema þegar kirkjubjallan hringdi til merkis um að Barnafélagið væri að hefjast, því á þessum tíma voru kennslustundir Barnafélagsins á virkum dögum. Ástundun hans var fullkomin og hann ætlaði ekki að breyta því. Bræður hans höfðu hins vegar aðrar hugmyndir og köstuðu heyinu enn hraðar upp í vagninn. Þegar þeir tóku eftir því að heyið var farið að hlaðast upp var Spencer kominn hálfa leið í Barnafélagið.

Spencer W. Kimball þjónaði sem trúboði, biskup og stikuforseti áður en hann var kallaður sem postuli árið 1943. Iðjusemi hans var alþekkt, þrátt fyrir margvísleg alvarleg veikindi, þar á meðal hjartaslag og krabbamein í hálsi. Hann hvatti kirkjuþegna til að greikka sporið og kjörorð hans voru einfaldlega „gerðu það.“ Vegna heilsuleysis hans töldu sumir að þjónustíð Spencers W. Kimball sem forseta kirkjunnar yrði stutt. En hann stýrði kirkjunni í 12 ár og á þeim tíma tvöfaldaðist fjöldi starfræktra mustera, fjöldi trúboða jókst um 50 hundraðshluta og allir verðugir karlmenn í kirkjunni gátu hlotið prestdæmið.

Óhagganleg tryggð Spencers W. Kimball við fagnaðarerindið og mikil iðjusemi stuðlaði að frama hans úr auðmjúkri byrjun í dreifbýli Arisóna til yfirstjórnar kirkjunnar. Stjórnartíð hans sem forseta kirkjunnar einkenndist af stórauknu trúboðsstarfi og byggingu mustera. Til vinstri: Með Camillu eiginkonu sinni (1894–1987).