2010
Hann er upp risinn
Apríl 2010


Hverju við trúum

Hann er upp risinn

Þegar ég ferðast reyni ég að heimsækja kirkjugarðinn á staðnum. Þar getur maður átt hugleiðslustund, velt fyrir sér tilgangi lífsins og dauðanum óhjákvæmilega. Í litlum kirkjugarði Santa Clara borgar, Utah, eru svissnesk nöfn í meirihluta á veðurbörnum legsteinunum. Margir sem þar eru grafnir yfirgáfu fjölskyldu sína í Sviss í þeim tilgangi að svara kallinu um að „koma … til Síonar.“ Þeir settust að í þeim samfélögum þar sem þeir nú „hvíla í friði.“ Þeir tókust á við vorflóðin, sumarþurrkana, rýra uppskerutíma og atvinnustrit. Fórnin var arfleifð þeirra.

Stærstu kirkjugarðarnir, og þeir sem yfirleitt vekja einna sárustu tilfinningarnar, eru helgaðir sem hvíldarstaðir þeirra sem í einkennisbúningum lands síns létu lífið á blóðugum orrustuvöllum stríðandi fylkinga. Þar snúast hugsanir um drauma sem ekki rættust, brostnar vonir, sorgbitin hjörtu og þá sem féllu um aldur fram í miskunnarlausu stríði.

Stór landsvæði þakin einföldum hvítum krossum í borgum Frakklands og Belgíu bera vitni um skelfilegar afleiðingar fyrri heimsstyrjaldarinnar. Þessi landsvæði eru í raun risavaxinn kirkjugarður. Á vori hverju, þegar bændur plægja jörð, koma þeir á einum stað niður á stríðshjálm og á öðrum stað niður á byssustæði – sem óþyrmilega minnir á þær milljónir manna sem í raun hafa gegnvætt jarðveginn með blóði sínu.

Dauðinn, kaflaskipti lífsins

Fyrir mörgum árum var ég við dánarbeð ungs manns, tveggja barna föður, sem var milli þessa lífs og móðunnar miklu. Hann tók um hönd mína, horfði í augu mín og sagði bænarröddu: „Biskup, ég veit að skammt er í dauðastundina. Segðu mér hvað um anda minn verður þegar ég dey.“

Ég leitaði í bæn eftir himneskri leiðsögn. Athygli minni var beint að Mormónsbók, sem lá á borðinu við hliðina á rúmi hans. Ég las upphátt:

„En varðandi ástand sálarinnar frá dauða og fram að upprisu – … að um leið og andar allra manna yfirgefa þennan dauðlega líkama, séu þeir, … fluttir heim til þess Guðs, sem gaf þeim líf.”

… Í andaheiminum er tekið á móti hinum réttlátu öndum „inn í sæluríki, sem nefnist paradís, ríki hvíldar og friðar, þar sem þeir hvílast frá öllu erfiði, áhyggjum og sorgum“ (Al 40:11–12).

Hinn ungi vinur minn lauk aftur augunum, lét einlægar þakkir í ljós og hvarf hljóðlega á braut til þeirrar paradísar sem við lásum um.

Sigur yfir gröfinni

Leyfum lækninum Lúkasi að lýsa reynslu Maríu og hinnar Maríu er þær nálguðust grafhvelfinguna í garðinum:

„Þær sáu þá, að steininum hafði verið velt frá gröfinni, …

… þegar þær stigu inn, fundu þær ekki líkama Drottins Jesú.

… Þær skildu ekkert í þessu, en þá brá svo við, að hjá þeim stóðu tveir menn í leiftrandi klæðum.

En þeir sögðu við þær: Hví leitið þér hins lifanda meðal dauðra?

Hann er ekki hér, hann er upp risinn“ (Lúk 24:2–6).

Þetta er lúðurhljómur kristindómsins. Raunveruleiki upprisunnar veitir hverjum og einum frið æðri öllum skilningi. Hann hughreystir þá sem átt hafa ástvini er liggja á ökrum Flæmingjalands, eða fórust á sjó, eða hvíla í hinni litlu Santa Clara. Hann er alheimssannleikur.

Sem hinn lítilmótlegasti meðal lærisveina hans gef ég ykkur vitnisburð minn um að dauðinn er að velli lagður, sigur yfir gröfinni er staðreynd. Megi orðin er hann helgaði og uppfyllti verða öllum að raunveruleg vitneskju. Hafið þau í huga. Varðveitið þau. Heiðrið þau. Hann er upp risinn.

  1. Við höfum komið til jarðar til að lifa og læra, til að njóta framþróunar á eilífri ferð okkar til fullkomnunar.

  2. Sumir staldra stutt við á jörðu en aðrir verða langlífir. Viðmiðunin er ekki hversu langlíf við verðum, heldur hversu vel við lifum.

  3. Dauðinn kemur og kaflaskipti lífsins verða að veruleika.

  4. Eftir þessi kaflaskipti kemur að dýrðardegi upprisunnar, þegar andi og líkami sameinast að nýju og verða aldrei framar aðskildir.

Úr “He Is Risen,” Liahona, apr. 2003, 2–7.

Við hina harmþrungnu Mörtu sagði Kristur: „Ég er upprisan og lífið, sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja“ (Jóh 11:25–26).

Sem hluti af friðþægingunni opnar upprisa Krists leiðina, svo við getum öll upp risið.

Frá vinstri: Endurlausnari minn lifir, : Roger Loveless, má ekki afrita; ljósmyndir: Matthew Reier, Christina Smith og Welden C. Andersen; Lítið á hendur mínar og fætur, : Harry Anderson; Lasarus,: Carl Heinrich Bloch