2010
Þegar endur fljóta ekki
Apríl 2010


Þegar endur fljóta ekki

Við gerðum bara ráð fyrir því að andarungarnir myndu spjara sig í vatninu. Við áttum eftir að verða undrandi.

Þetta hófst allt með óvæntri gjöf sem pabbi færði þremur dætrum sínum. Stúlkurnar ískruðu af gleði þegar þær rýndu inn í kvakandi kassann. Andarungar! Við gátum ekki beðið með að teygja okkur í einn þeirra. Við ýttum svo mikið við pabba í látunum, að hann missti nærri því kassann.

„Rólegar stúlkur!“ sagði hann hlægjandi. „Þið fáið einn unga hver!“

Ég varð undrandi yfir því hversu agnarsmár unginn virtist í höndum mér. Í lófa mínum virtist heitur líkaminn vera á stærð við tíu krónu pening og sennilega álíka þungur.

„Vá, hvað hann er léttur!“ hrópaði ég. „Ekki að furða að andarungar fljóti!“

Pabbi hló aftur er hann gekk til mömmu sem var í eldhúsinu. Pabba fannst gaman að koma okkur á óvart, sérstaklega ef það fékk fjölskylduna til að brosa. Þá mundi ég eftir vaðlauginni. Hún yrði tilvalið heimili fyrir nýju endurnar okkar.

„Nora, náðu í gömlu plast sundlaugina sem er í bílskúrnum,“ skipaði ég systur minni.

Á meðan við skoðuðum endurnar okkar betur til að velja þeim nafn, dældi vatnsslangan í bakgarðinum hreinu og köldu vatni í laugina. Unginn minn hafði lítinn brúnan blett við gogginum og fáránlega stóra fætur með sundfitjum.

Allt í einu mundi ég eftir vinum mínum. Þeir myndu hlægja að því hversu spennt ég var yfir nýju gæludýrunum. Þá varð mér ljóst að vinir mínir kæmu ekki í heimsókn á næstu dögum. Foreldrar þeirra höfðu veitt þeim leyfi til að fara í útilegu í fjöllunum þar í grenndinni. Hjóla eftir gamalli troðinni slóð, velja sér tjaldstæði, setja upp tjald. Þetta yrði ótrúlega skemmtilegt hjá þeim, og síðan kæmu þeir heim og segðu hlægjandi frá útilegu sinni. Mamma mín hafði ekki veitt mér leyfi. Hún sagði að ég væri of ung!

Við systurnar söfnuðumst með mikilli tilhlökkun saman við vaðlaugina, sem nú var orðin full af vatni. Við settum blakandi og gargandi fuglana á vatnið og BLOBB. Allir þrír ungarnir sukku beint til botns!

Við dýfðum höndunum strax ofan í laugina og björguðum aumingja fuglunum, sem voru að kafna. Hvað hafði farið úrskeiðis? Við vorum ekki að biðja þá að gera eitthvað erfitt, eins og að synda. Það eina sem þeir þurftu að gera var að fljóta. Er það ekki auðvelt fyrir endur?

„Hvað gerðist?“ spurði systir mín.

„Kannski komum við þeim að óvörum!“

Við vorum sammála um að þetta væri eins og með lítil börn sem væru að læra að ganga. Stundum þurfa þau bara að fá að detta. Við komum okkur saman um að prófa aftur.

„Einn, tveir, þrír og nú!“

Pomp! Pomp! Pomp! Beint niður á botn eins og blýboltar.

Sem betur fer, fyrir andarungana, höfðum við það ekki í okkur að fylgja eftir þeirri kenningu okkar, að þeir þyrftu bara að æfa sig. Við þeyttumst allar inn í húsið eftir að Nora stakk upp á því að við þurrkuðum fjaðrir þeirra með hárblásara. Systur mínar tvær þurrkuðu vesalings fuglunum varlega með bleika hárblásaranum mínum á meðan ég leitaði eftir símanúmeri á pappakassanum.

„Halló? Við vorum að kaupa – eða pabbi okkar var að kaupa – þrjá andarunga. Já. Það er sko smá vandamál með endurnar okkar. Sjáðu til, við hefðum viljað að þær gætu flotið.“

Það sem þessi maður hafði að segja var uppgvötun fyrir mig. Ég gerði mér ekki grein fyrir hversu mikið ég hafði lært fyrr en ég heyrði sjálfa mig útskýra þetta fyrir Noru og Suzy: „Sjáðu til, dúnfjaðrirnar hrinda ekki vatni frá sér. Þær drekka í sig vatnið. Við þurfum að bíða í eina viku eða tvær þar til líkami þeirra fer að framleiða vaxkennda olíu sem mun verja fjaðrirnar.“

„En það er ekki satt,“ sagði Nora. „Ég hef séð andarunga elta móður sína á ánni. Þeir voru einungis nokkurra daga gamlir.“

„Maðurinn útskýrði það fyrir mér. Þegar endur fæðast þá sveipar móðir þeirra vængjum sínum utan um ungana til að veita þeim hlýju. Olían af vængjum móðurinnar smitast á börn hennar. Þegar ungarnir eru með móður sinni geta þeir flotið. En þegar þeir eru ekki hjá móður sinni þurfa þeir að vera aðeins eldri til þess að vera öruggir í vatni.“

Á þeirri stundu barst hugur minn á ný til fjalla og ég fór að hugsa um vini mína í tjaldinu. Kannski mamma vildi bara halda mér undir vængjum sínum aðeins lengur. Ég strauk bakið á unganum mínum með einum fingri.

„Við munum ekki setja ykkur í laugina strax aftur, litli ungi,“ lofaði ég honum. Síðan bætti ég við sem bakþanka: „Saknar þú mömmu þinnar?“

Teikning: Jim Madsen