2010
Faðmlag föður
Apríl 2010


Hvernig ég veit

Faðmlag föður

Ég missti föður minn þegar ég var sjö ára. Ég hætti nærri því að treysta himneskum föður vegna efans sem fylgdi í kjölfarið.

Fjölskylda mín var um það bil að yfirgefa veisluna, en mig langaði enn að fara á línuskauta. Faðir minn faðmaði mig og spurði hvort ég vildi vera lengur svo hann gæti farið með mér á línuskauta.

„Nei!“ sagði ég reiður.

„Þú getur treyst mér,“ sagði hann.

Aðrir vildu fara svo við fórum inn í bílinn. Tíu mínútum síðar lentum við í árekstri. Það var kraftaverk að ég skyldi lifa af áreksturinn, en faðir minn lést. Þetta „nei!“ var það síðasta sem ég sagði við hann og í mörg ár var hann síðasta manneskjan sem ég hafði faðmað.

Líf mitt var spírall niður á við næstu 11 árin. Ég missti allt sjálfstraust og fór að vantreysta öllum. Ég var svo óhamingjusamur að dag einn, þegar ég var 18 ára og átti í mikilli baráttu við gríðarleg vonleysi, grátbað ég Guð um að sýna mér leiðina að hamingjusömu lífi.

Tveimur vikum síðar komu trúboðar til mín. Þeir sýndu mér bók og sögðu mér að ég skyldi biðja til að fá að vita um sannleiksgildi hennar. Það sem þeir báðu um virtist svo lítið, en sárin sem andlát föður míns höfðu skilið eftir voru djúp. Ég leit á mót mitt við trúboðana sem algjöra tilviljun, en ekki svar frá Guði sem elskaði mig.

Samt las ég Mormónsbók og bað, leitaði að svari – þó ekki með einbeittum huga. Því það myndi þýða að ég þyrfti að treysta Guði, taka honum og svari hans opnum örmum. Auðveldara var að samþykkja þá gagnrýni sem var til staðar á kirkjuna. Einnig hafði ég komist að því að margt af hinu mikla og sögufræga fólki sem ég hafði lært um í skóla átti sínar dökku hliðar. Hvað ef Joseph Smith væri eins og það?

Að lokum skírðist ég þó og var staðfestur. Ég vissi að ég þyrfti á leiðsögn að halda í lífi mínu og mér líkaði við kirkjuna og þegna hennar. En ég geri mér nú grein fyrir því að ég gekk í kirkjuna án þess að hafa raunverulegan vitnisburð, slíkan sem brennur í hjarta. Trúin mín stafaði af því að mér var ljóst að röksemdir þeirra sem löstuðu kirkjuna voru illa grundaðar. Þar sem vantraustið var enn fyrir hendi, varð að lokum yfirþyrmandi að viðhalda þessari trú. Kynni mín af kirkjunni höfðu hafist vegna vantrausts míns og óhamingju og ég var aftur farinn að feta þann veg.

Því tók ég afgerandi ákvörðun: Ég ætlaði að biðja, en í þetta skipti ætlaði ég gera rétt eins og Moróní bauð, í „trú á Krist,“ með „einbeittum huga,“ og í „hjartans einlægni“ (Moró 10:4). Ég fastaði og bað um leiðsögn á þeim degi sem ég hafði fyrirfram valið. Ég varði deginum við að íhuga allt sem hafði átt sér stað.

Þetta kvöld kraup ég við rúmið mitt. Ég laut höfði og spurði himneskan föður um sannleiksgildi Mormónsbókar. Í huga mínum tók allur efinn að birtast. Ég lokaði augum mínum, spennti fast greipar og spurði aftur – í einlægni, með ásetningi og í trú á frelsara okkar.

Svo virtist sem heimurinn stæði kyrr. Ég fann hlýju og mér fannst ég vera umvafinn ljósi. Í 11 löng ár hafði ég þráð þetta og að lokum var ég aftur faðmaður af föður – himneskum föður. Að lokum hafði ég fundið einhvern sem ég gat treyst. „Já,“ sagði ég með tár á vöngum, „ég treysti þér.“

Teikning: Doug Fakkel