2010
Gildi kennarans
Apríl 2010


Að þjóna í kirkjunni

Gildi kennarans

Útdráttur úr “Only a Teacher,” Tambuli, okt. 1990, 3–8.

Ljósmynd
President Thomas S. Monson

Fyrir nokkru síðan voru þrír drengir að ræða um feður sína. Einn sagði: „Pabbi minn er stærri en pabbi þinn.“ Því svaraði annar drengur: „Jæja, en pabbi minn er vitrari en pabbi þinn.“ Þriðji drengurinn sagði: „Pabbi minn er læknir.“ Síðan snéri hann sér að öðrum drengjanna og sagði með hæðni: „Og pabbi þinn er bara kennari.“

Til er einn kennari sem með lífi sínu gnæfir yfir alla aðra. Hann lifði ekki til að hljóta þjónustu heldur til að þjóna öðrum, ekki til að þiggja heldur til að gefa, ekki til að bjarga eigin lífi heldur til að fórna því fyrir aðra. Hann lýsti ást sem var fegurri en girnd, fátækt sem var ríkari en fjársjóður. Hann kenndi með valdi en ekki eins og fræðimennirnir gerðu. Ég er að tala um kennara kennaranna, sjálfan Jesú Krist, son Guðs, frelsara og endurlausnara alls mannkyns.

Þegar dyggir kennarar bregðast við hans blíða boði „komið og lærið af mér“ meðtaka þeir af hans himneska krafti.

Sem ungur drengur upplifði ég það að verða fyrir áhrifum slíks kennara. Í sunnudagaskólabekk okkar kenndi hún okkur að bera virðingu fyrir sköpunarverki jarðar, falli Adams og friðþægingu Jesú. Hún kom með í kennslustund heiðursgesti líkt og Móse, Jósúa, Pétur, Tómas, Pál og jafnvel Krist. Þótt þeir hafi ekki staðið frammi fyrir okkur, lærðist okkur að elska þá og virða og líkja eftir þeim.

Þegar drengurinn heyrði hæðnina: „Pabbi minn er stærri en þinn,“ „Pabbi minn er vitrari en þinn,“ „Pabbi minn er læknir“ hefði hann hæglega getað svarað: „Vera má að pabbi þinn sé stærri en minn, að pabbi þinn sé vitrari en minn, að pabbi þinn sé flugmaður eða verkfræðingur eða læknir, en pabbi minn er kennari.“

Megi sérhvert okkar ætíð hljóta svo einlægt og verðugt hrós!

Fjallræðan,eftir Carl Heinrich Bloch, birt með leyfi Þjóðminjasafnsins í Friðriksborg í Hilleröd, Danmörku, má ekki afrita.