2010
Hjálpaðu til við að láta það gerast
Apríl 2010


Hjálpaðu til við að láta það gerast

Það segja þessar stúlkur frá Indlandi, en hið einfalda þjónustuverkefni þeirra vakti áhuga allrar greinarinnar á fjölskyldukvöldum.

Stúlkunum í 2. grein í Chennai umdæminu á Indlandi langaði að hvetja meðlimi greinarinnar til að halda fjölskyldukvöld. Ekki leið á löngu þar til einföld en hagnýt hugmynd vaknaði. Þær útbjuggu fjölskyldukvölda-hjól: Hringlaga spjöld sem snúa mátti og á voru letruð verkefni, eins og að fara með bæn, kenna lexíu og undirbúa „hressingu.“

Pappírshjólin voru einföld en litskrúðug. Þau voru sett saman á fundi Stúlknafélagsins í samkomuhúsinu eitt kvöldið. Hvert þeirra var gert persónulegra með því að setja ljósmynd af viðkomandi fjölskyldu á hjólið. Tvær stúlknanna, Sushmitha Santhosh Kumar 15 ára og systir hennar Sujeetha 14 ára, voru sérstaklega spenntar þegar þær komust að því að fjölskylda þeirra, sem nýlega hafði skírst inn í kirkjuna, fengi fyrsta hjólið.

„Eftir fundinn fórum við allar saman heim til þeirra og gáfum föður þeirra hjólið,“ segir Daisy Daniel sem er 16 ára gömul. „Öll fjölskyldan virtist mjög glöð.“ Fjölskyldan hafði áður rætt um fjölskyldukvöld við trúboðana og hjólið veitti þeim hvatningu til þess að fylgja eftir því sem þau höfðu lært.

Stúlkurnar útbjuggu nægilega mörg hjól til að hver fjölskylda sem átti barn í Barnafélaginu fengi eitt slíkt. Síðan útbjuggu þær fleiri hjól sem fastatrúboðarnir gætu gefið nýskírðum kirkjuþegnum.

„Mörg okkar í greininni erum nýskírð og við erum ekki vön því að halda fjölskyldukvöld,“ segir Daisy. „En ég hef vitnisburð um að fjölskyldukvöld muni gera börn og foreldra samhentari, og ég vona að í hvert sinn sem þessar fjölskyldur sjá fjölskyldukvölda-hjólin þá muni þau hugsa sem svo: ,Þegnar kirkjunnar elska okkur og gáfu okkur þessa áminningu og því skulum við halda fjölskyldukvöldin okkar.‘“ Hún spáir að brátt muni fjölskyldukvöld verða vikulegur viðburður hjá mörgum í greininni.

Góð þjónusta leiðir til annarrar

Fjölskyldukvölda-hjólin eru einungis eitt af nokkrum þjónustuverkefnum sem þessar stúlkur hafa lokið við. Stúlkurnar hafa skreytt körfu og fyllt hana af stuttum og glaðlegum handskrifuðum miðum handa ekkju í greininni, svo að hún sé ekki eins einmana. „Það er enginn þar til að hugsa um hana,“ segir Daisy. „Því langaði okkur að minna hana á að kirkjuþegnar greinarinnar hugsi til hennar.“ Stúlkurnar afhentu körfuna sjálfar og útskýrðu að hún gæti lesið einn miða á dag sem fengi hana til að brosa.

Karfan með miðunum var kveikjan að annarri hugmynd. Stúlkurnar tóku ákvörðun um að skrifa þakkarbréf til hver annarrar.„Hver okkar skrifaði fallegt bréf til allra hinna,“ útskýrir Monisha Kalai Selvam sem er 13 ára gömul.

Lengi lifi fjölskyldukvöldin!

Stúlkurnar í Chennai 2. grein læra með þessum og öðrum verkefnum að jafnvel einföld þjónusta getur fært fólk nær frelsaranum. Vera má að lengi verði munað eftir fjölskyldukvölda-hjólunum því margir kirkjuþegnar greinarinnar fengu þau og eru nú þegar farnir að nota þau. En jafnvel þótt hjólin séu einungis tímabundin áminning, þá er það í lagi.

„Hver sem er getur útbúið eigið hjól eða spjald eða bara sest niður með blýant og pappír og gert áætlun,“ segir Daisy. „Við vitum bara að fjölskyldukvöld eru mikilvæg fyrir alla og við vildum hjálpa til að þau yrðu haldin.“

Ljósmyndir: Richard M. Romney

Karthikeyan

Meganathan

Daniel

Bharath Raj