2010
Nýjar leiðbeiningar Líknarfélagsins blessa líf kirkjuþegna
Apríl 2010


Nýjar leiðbeiningar Líknarfélagsins blessa líf kirkjuþegna

Á aðalfundi Líknarfélagsins, sem haldinn var fyrir sex mánuðum, kynnti Julie B. Beck, aðalforseti Líknarfélagsins, nýjar leiðbeiningar varðandi fundi Líknarfélagsins og árangur þess blessar nú líf systra hvarvetna í heiminum.

Þessum nýju leiðbeiningum er yfirleitt mjög vel tekið, sagði systir Beck og benti á að nú geta kirkjuþegnar hvarvetna í heiminum skipulagt fundi samkvæmt einstaklingsþörfum sínum og veitt þannig meiri sveigjanleika í kirkju, sem engar skorður setur varðandi menningu eða staðsetningu.

„Þetta er mjög jákvætt skref fyrir alþjóðlega stofnun,“ sagði systir Beck. „Við elskum systurnar, við treystum þeim og við vitum að ef þær taka þessum leiðbeiningum í trú og hlýðni, þá verður þetta vandalaust.“

Ræða systur Beck, sem ber titilinn „Líknarfélagið: Heilagt verk“ (Aðalráðstefna, okt. 2009, 122) ætti að þjóna sem opinber stefna varðandi fundina og ef leiðtogar Líknarfélagsins hafa spurningar varðandi þá stefnu, ættu þeir að ráðgast við prestdæmisleiðtoga sína.

Almennar breytingar

Staðfest var að ráðgjafar í Líknarfélaginu ættu að fylgja hætti prestdæmisins og verða nefndir fyrsti og annar ráðgjafi. Köllun sem áður bar nafnið Leiðtogi heimilis-, fjölskyldu- og persónulegrar eflingar ætti að nefnast Samræmingaraðili Líknarfélagsfunda. Sú systir sem hefur þá köllun ætti áfram að skipuleggja, undir stjórn forsætisráðsins, Líknarfélagsfundi sem haldnir eru á virkum dögum.

Leiðbeiningar um fundi Líknarfélagsins

Í ræðu sinni greindi systir Beck frá því að þeir fundir sem áður voru nefndir „heimilis-, fjölskyldu- og persónulegir eflingarfundir“ yrðu nú einfaldlega kallaðir Líknarfélagsfundir.

Systir Beck lýsti því hvernig forseti Líknarfélagsins í deildinni ætti að hafa yfirumsjón með öllum Líknarfélagsfundum og ráðgast við biskupinn eða greinarforsetann, sem samþykkir allar áætlanir funda.

Forseti Líknarfélagsins ætti að hafa yfirumsjón með fundunum en getur beðið fyrsta eða annan ráðgjafa – eða lagt til að systir í deildinni eða greininni verði kölluð til þess – að vera samræmingaraðili fundanna. Að minnsta kosti einn meðlimur forsætisráðsins ætti að vera viðstaddur á öllum fundum.

Venjulega ætti að hafa fundi einu sinni í mánuði, en að minnsta kosti ársfjórðungslega, á öðrum tímum en sunnudögum eða mánudagskvöldum. Biskupinn eða greinarforsetinn og Líknarfélagsforsetinn ættu að ákveða tíðni fundanna og systurnar ættu ekki að telja það skyldu sína að sækja alla fundina.

Þegar fundir eru skipulagðir ætti forsætisráð Líknarfélagsins að huga að atriðum eins og tímabindingu, kostnaði, öryggi og fjarlægð.

Markmið fundanna ætti að vera að sinna „kærleiks- og hagnýtum skyldum“ Líknarfélagsins, auka trú og persónulegt réttlæti og huga að andlegum og stundlegum þörfum einstaklinga og fjölskyldna.

Þegar forsætisráð Líknarfélagsins áformar fundi ættu þau atriði sem uppfylla tilgang Líknarfélagsins að hafa forgang. Taka má fyrir eitt ákveðið náms- eða umræðuefni á fundum, eða skipta niður í fleiri bekki með mismunandi verkefni. Yfirleitt ættu kennarar á þessum fundum að vera meðlimir deildar eða stiku.

„Þegar við notum Líknarfélagsfundi réttilega eykst geta Líknarfélagsins til að vinna á árangursríkan hátt með prestdæmisleiðtogum í hverri deild,“ sagði systir Beck.