2010
Að gera musterishjónaband að forgangsverkefni
Apríl 2010


Að gera musterishjónaband að forgangsverkefni

Vitaly Shmakov fæddist í Omsk og Ekaterina (Katya) Shmakov í Yekaterinburg í Rússlandi. Þau gengu bæði í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu sem táningar og þjónuðu bæði í trúboði – Vitaly í Prag trúboðinu í Tékklandi og Katya í Novosibirsk trúðboðinu í Rússlandi. Þau segja að trúskipti þeirra hafi opnað hugi þeirri fyrir möguleikanum á hamingjusömu, öruggu og fullnægjandi lífi og að trúboð þeirra hafi styrkt þrá þeirra eftir að skapa heimili þar sem fagnaðarerindið yrði haft að leiðarljósi og byrjaði með musterishjónabandi. Þetta er saga þeirra.

Vitaly: Nokkrum mánuðum eftir að ég hafði snúið heim af trúboði mínu var ég beðinn um að vera ráðgjafi á ungmennafélagsráðstefnu í heimabæ mínum. Steven C. Smith, trúboðsforseti Novosibirks trúboðsins í Rússlandi bað mig að hitta sig á skrifstofu sinni. Ég bjóst við að fá nýja köllun, eða að um væri að ræða einhvers konar formlegt viðtal. Þess í stað sagði Smith forseti mér frá því að hann vildi að ég hitti einhvern – unga konu sem hafði nýlega lokið trúboði sínu og farið aftur til síns heima annars staðar í Rússlandi, en yrði í bænum vegna ráðstefnunnar.

Ég hafði aldrei séð Katya áður og þegar ég kom á svæðið þar sem ráðstefnan var haldin kynnti ég mig og við töluðum saman í nokkrar mínútur. Síðar um kvöldið bað ég Katya að dansa við mig. Næsta dag bað ég um annan dans.

Katya: Ég þekkti ekki marga unga og einhleypa prestdæmishafa á þroskaárum mínum, en von mín var að Drottinn myndi sjá mér fyrir verðugum manni til að giftast. Ég hafði enga hugmynd um hvenær eða hvernig við myndum hittast en ég treysti á Drottin og loforð hans.

Eftir trúboð mitt var mér boðið að vera velsæmisvörður á ungmennafélagsráðstefnu. Mig langaði strax að kynnast Vitaly þegar ég sá hann á ráðstefnunni. Við áttum þrjá dásamlega og ógleymanlega daga þar saman.

Ég fékk fljótt það sterka hugboð, að Vitaly væri maðurinn sem ég ætti að giftast. Auðvitað upplifa ekki allir slíkar tilfinningar svo snemma í tilhugalífinu. Hvernig vitum við þá hvort við förum í rétta átt? Ég lærði á trúboði mínu að þekkja andann og fylgja leiðbeiningum hans án nokkurs efa. Þegar ég fann þá leiðsögn andans að ég ætti að kynnast Vitaly betur, ákvað ég að fylgja henni.

Ef við leitum eftir samfélagi andans, þá veit ég að hann mun leiðbeina okkur öllum. Mikilvægt er að við berum ekki okkar leið saman við leiðir annarra – andinn leiðbeinir okkur á mismunandi hátt – en ef við fylgjum andanum, þá getum við verið fullviss um að leiðin sé sú rétta fyrir okkur.

Yfirstíga hindranir

Vitaly: Á þessum þremur dögum varð mér ljóst að ég hafði fundið sérstaka stúlku. Ég varð fyrir vonbrigðum þegar ráðstefnunni lauk og við Katya fórum í sitt hvora áttina. Sem betur fer var ráðstefna fyrir unga og einhleypa mánuði síðar. Ég tók strax að hlakka til hennar.

Sú ráðstefna varð jafn frábær og ég hafði vonað. Við Katya vörðum miklum tíma í að kynnast hvort öðru vel. Í lok ráðstefnunnar skiptumst við á símanúmerum og fórum hvort til sinnar borgar.

Á næstu vikum höfðum við samskipti símleiðis og með SMS skilaboðum. (Ég held að ég hafi á tæpum mánuði lært að skrifa SMS skilaboð á GSM símann minn hraðar en flestir skrifa á lyklaborð ferðatölvu!)

Katya átti heima í Yekaterinburg, en þangað er 11 klukkustunda lestarferð frá Omsk í Síberíu sem er heimaborg mín. Engu að síður langaði okkur mikið að hittast aftur. Við tókum að hittast reglulega um helgar. Ég heimsótti hana eina helgina og nokkrum vikum síðar heimsótti hún mig. Þegar ég heimsótti Katya gisti ég hjá sameiginlegum vinum okkar í borginni hennar og öfugt. Við vörðum oft á tíðum tíma með þessum vinum úr kirkjunni í heimsóknum okkar.

Katya: Ellefu klukkustundir virðist vera langur ferðatími en í Rússlandi er þetta í raun eins og stutt gönguferð! Vegna fjarlægðarinnar urðu stefnumót okkar ekki eins tíð og við hefðum viljað. Við gátum einungis hist á nokkurra vikna fresti og varið tveimur til þremur dögum saman áður en annað okkar þurfti að halda heim á leið á ný. Oft var eins og við þyrftum miklu meiri tíma. Það var alltaf erfitt að kveðjast. Við vorum þakklát fyrir hverja mínútu sem við áttum saman, vegna þess að við þurftum að leggja mikið á okkur til að hittast. Þegar samband okkar þróaðist fórum við að hlakka til þess tíma er við þyrftum ekki að kveðjast.

Stefnumót okkar voru áhugaverð og fjölbreytt: Við fórum í hjólreiðatúra og reiðtúra, heimsóttum söfn, lásum í ritningunum, elduðum, gengum um í lystigörðum (við dönsuðum meira að segja í einum þeirra) og fórum á munaðarleysingjaheimili þar sem við þjónuðum og lékum við börnin.

Við skemmtum okkur vel, því í hvert skipti sem við hittumst gerðum við eitthvað nýtt. Ég er þakklát fyrir hve hugmyndaríkur Vitaly var varðandi stefnumót okkar. Það sem hann undirbjó og við gerðum hjálpaði okkur í raun að kynnast hvort öðru.

Vitaly: Ég hafði ekki ráð á ýmsum skemmtunum, því að ég var við nám. Bróðurparturinn af peningum mínum fór í lestarferðir til Katya og til að borga símreikning minn. En stefnumót okkar þurftu ekki að vera óspennandi og marklaus vegna þess að lítið var um peninga. Í raun kostuðu bestu stefnumótin okkar ekki eina einustu krónu.

Það hljómar kannski kjánalega, en mig langaði að sjá hvernig Katya myndi haga sér í kringum börn og því fórum við á munaðarleysingjaheimili. Þannig var raunin með mörg stefnumót okkar. Okkur langaði að læra eins mikið um hvort annað og við gátum.

Lifa að hætti Drottins

Vitaly: Í Rússlandi, rétt eins og á mörgum öðrum stöðum, er algengt að fólk búi saman áður en það giftist. Eftir að ég bað Katya að giftast mér spurðu nokkrir vinir mínir hvernig ég gæti mögulega kvænst henni án þess að vita hvort við hentuðum hvort öðru. Rök þeirra voru að eina leiðin til að komast að því hvort hún væri í raun sú rétta fyrir mig, væri að búa með henni um nokkurt skeið. Katya fékk að heyra sömu rökin frá vinum sínum.

Ég sagði þeim að ekki væri þörf á að búa með manneskju til að kynnast henni. Ég reyndi einnig að útskýra fyrir vinum mínum, á þann hátt sem þeir gætu skilið, að ég hefði beðist fyrir og svarið sem ég hlaut var að ég ætti að kvænast Katya. Ég óttaðist ekki hjónaband eftir að hafa beðið varðandi ákvörðun mína. Ég var spenntur og mér fannst eins og algerlega nýtt líf væri nú að hefjast. Enginn andmælti mér eða gagnrýndi mig fyrir þessa afstöðu. Í raun studdu þau mig í ákvörðun minni.

Katya: Þegar Vitaly bað mín reyndu foreldrar mínir að fá mig til að hætta við. Þeim fannst trúlofunin koma of snemma og að ég þyrfti að kynnast Vitaly betur en ég hafði gert. Yfirmaður minn í vinnunni sagði það sama og bætti við: „Þið þurfið að búa saman áður en þið getið tekið slíka ákvörðun.“

Það hryggir mig að þetta skuli vera álit fólks gagnvart hjónabandi og fjölskyldu. Ég held að þau skilji ekki hversu hamingjusöm pör geta orðið þegar þau eru gift og innsigluð í musterinu. Hin mikla ást og hamingja sem við Vitaly upplifðum við giftingu okkar styrktist vegna þeirrar vitneskju að við værum innsigluð að eilífu.

Vitaly: Við Katya giftum okkur þann 25. febrúar 2006 í Omsk. (Rússnesk lög, rétt eins og í mörgum öðrum löndum, krefjast þess að borgarleg gifting eigi sér stað fyrir innsiglun í musterinu.) Næsta morgun lögðum við af stað í ferðalag okkar til Stokkhólms–musterisins í Svíþjóð. Við fórum um borð í flugvél í Omsk og flugum í þrjár klukkustundir til Moskvu og vörðum þar deginum. Síðan fórum við með næturlest til Pétursborgar. Þar hófst átta klukkustunda ferð í hópferðabifreið til Helsinski með nokkrum öðrum Síðari daga heilögum. Síðasti hluti ferðarinnar var 11 klukkustunda bátsferð til Stokkhólms.

Að lokum náðum við til musterisins.

Langt ferðalag eins og þetta getur verið mikil áskorun fyrir suma, en á vissan hátt var ferð okkar í gegnum Evrópu dásamleg brúðkaupsferð.

Innsiglunardagur okkar, 1. mars 2006, var yndislegur dagur – dagur friðar og fullvissu. Ég vissi að sú sem ég hélt í höndina á var sú sem ég myndi verja eilífðinni með. Sú hugsun ein og sér veitti mér mikla gleði og þakklæti til himnesks föður fyrir að treysta mér fyrir dóttur hans. Mér fannst ég vera nær honum en ég hafði áður verið.

Leita kristilegra eiginleika

Katya: Við Vitaly eigum nú unga dóttur. Hún er dásamleg. Mig langar til að hún giftist í musterinu dag einn og besti stuðningurinn sem við getum veitt henni er að vera elskuríkir félagar og foreldrar.

Ég vona að hún finni verðugan prestdæmishafa sem hefur marga kristilega eiginleika. Ég sá slíka eiginleika hjá Vitaly og það auðveldaði mér að vita að ég gæti gifst honum.

Hvað laðaði mig að Vitaly? Hann er auðvitað myndarlegur og gáfaður, og kann að biðla til konu. En þetta var ekki aðalviðmiðið. Hann hefur það sem ég kalla „augu lærisveins Krists.“ Ég skynjaði ljósið í honum. Hann er réttlátur prestdæmishafi.

Vitaly: Auðvitað er frábært að vera giftur einhverjum sem maður laðast að. En þegar við einbeitum okkur eingöngu að líkamlegum eiginleikum, förum við óhjákvæmilega á mis við mikilvægustu eiginleikana – persónuleika, andlegheit og aðra eiginleika sem skipta verulegu máli í varanlegu hjónabandi.

Ég geri mér grein fyrir því að það er áskorun fyrir sumt ungt fólk að finna sér maka í kirkjunni, vegna þess að ekki eru margir Síðari daga heilagir á svæði þeirra. Ég get sett mig í þeirra spor Hins vegar veit ég að aðstæður okkar skipta ekki máli, því ef við gerum okkar hlut og búum okkur sjálf undir að innsiglast í musterinu, þá getur himneskur faðir séð okkur fyrir leið.

Til vinstri: Shmakov hjónin á innsiglunardegi sínum árið 2006. Ferðalag þeirra til Stokkhólms-musterisins tók 30 klukkustundir.

Til hægri: Í dag eiga Shmakov hjónin unga dóttur. Katya segir: „Mig langar til að hún giftist í musterinu dag einn og besti stuðningurinn sem við getum veitt henni er að vera elskuríkir félagar og foreldrar.“

Fjölskyldumyndir birtar með leyfi Shmakovs hjónanna.