2010
Fullvissan um upprisuna
Apríl 2010


Sígildar trúarsögur

Fullvissan um upprisuna

Ljósmynd
President Spencer W. Kimball

Ein jólin fyrir nokkrum árum gengum við þær slóðir sem Jesús hafði gengið. Við vörðum nokkrum dýrmætum klukkustundum þar sem Getsemane garðurinn er sagður hafa verið og reyndum að ímynda okkur þjáningarnar sem hann mátti þola þegar nær dró krossfestingu hans og upprisu. Við vorum nærri þeim stöðum þar sem hann baðst fyrir, þar sem hann var tekinn til fanga, þar sem réttað var yfir honum og hann dæmdur.

Utan borgarmúranna klifum við kalksteinshæð sem útgrafin er litlum hellum svo að bunguvaxinn hæðarendinn lítur út eins og hauskúpa og var okkur sagt að þetta væri Golgata, staðurinn þar sem hann var krossfestur. Við gengum niður hlykkjóttan stíginn handan hæðarinnar, þar sem þverhníptir klettarnir eru, og fórum inn um lítið op á stærð við glugga inn í grófhogginn helli en þar er sagt að líkaminn hafi verið lagður.

Við vörðum nokkrum klukkustundum í litla garðinum fyrir utan þessa gröf og drukkum í okkur sögu fagnaðarerindisins um greftrun hans og upprisu, sem hér hafði átt sér stað. Við lásum íhugandi og í bænarhug um komu kvennanna að gröfinni, um engil Drottins sem velti steininum frá og um flótta huglausra varðmannanna.

„Hann … er upp risinn“

Við gátum nærri því ímyndað okkur englana tvo í skínandi klæðum sem töluðu við Maríu og sögðu: „Hví leitið þér hins lifanda meðal dauðra?

Hann er ekki hér, hann er upp risinn.“

Drottinn hafði spáð: „[A]ð Mannssonurinn skyldi framseldur verða í hendur syndugra manna og krossfestur, en rísa upp á þriðja degi“ (Lúk 24:5–7).

Við mundum eftir samtalinu milli Maríu, englanna og Drottins:

„Kona, hví grætur þú? Hún svaraði: „Þeir hafa tekið brott Drottin minn og ég veit ekki hvar þeir hafa lagt hann.“

Hún snýr sér við og „sér Jesú standa þar. En hún vissi ekki að það var Jesús.

Jesús segir við hana: ‘Kona, hví grætur þú? Að hverjum leitar þú?‘ Hún hélt, að hann væri grasgarðsvörðurinn, og sagði við hann: ,Herra, ef þú hefur borið hann burt, þá segðu mér, hvar þú hefur lagt hann, svo að ég geti sótt hann.‘

Jesús segir við hana: ,María!‘ Hún snýr sér að honum og segir á hebresku: ,Rabbúni!‘ (Rabbúní þýðir meistari.)

Jesús segir við hana: ,Snertu mig ekki! Ég er ekki enn stiginn upp til föður míns. En farðu til bræðra minna og seg þeim: Ég stíg upp til föður míns og föður yðar, til Guðs míns og Guðs yðar.“ (Jóh 20:13–17). …

Mikilvægi páska

Stundum virðast hátíðahöld okkar vegna merkisatburða taka á sig jarðneska liti og við gerum okkur ekki að fullu ljóst mikilvægi ástæðunnar að baki hátíðahöldunum. Þetta á við um páskana. Of oft fögnum við hátíðisdeginum í stað þess að fagna hinni djúpu þýðingu upprisu Drottins. Þeir sem hunsa guðdóm Krists, að meistarinn sé sonurinn, hljóta vissulega að vera óhamingjusamir. Við vorkennum í raun þeim sem kalla ofurmannlegt kraftaverk upprisunnar „aðeins huglæga reynslu lærisveinanna fremur en raunverulegan sögulegan atburð.“

Sannlega vitum við að allt er þetta raunverulegt. Kristur sagði um sjálfan sig er hann ræddi við Nikódemus:

„Vér tölum um það, sem vér þekkjum, og vitnum um það, sem vér höfum séð“ (Jóh 3:11).

Og síðan minnumst við þess að Páll vitnaði:

„Með öruggri vissu viti þá öll Ísraels ætt, að þennan Jesú, sem þér krossfestuð, hefur Guð gjört bæði að Drottni og Kristi“ (Post 2:36).

„Þér afneituðuð hinum heilaga og réttláta, …

Þér líflétuð höfðingja lífsins, en Guð uppvakti hann frá dauðum, og að því erum vér vottar“ (Post 3:14–15).

Staðfastir stóðu Pétur og Jóhannes frammi fyrir ráðinu og sögðu aftur:

„Þá sé yður öllum kunnugt og öllum Ísraelslýð, að í nafni Jesú Krists frá Nasaret, þess er þér krossfestuð, en Guð uppvakti frá dauðum, í hans nafni stendur þessi maður [hinn fyrrum sjúki maður] heilbrigður fyrir augum yðar. …

„Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum. Og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss“ (Post 4:10,12).

Þegar ráðið ávítaði postulana tvo og skipaði þeim að tala hvorki né kenna slíka hluti í nafni Jesú, svöruðu þeir: „Dæmið sjálfir, hvort það sé rétt í augum Guðs að hlýðnast yður fremur en honum.

Vér getum ekki annað en talað það, sem vér höfum séð og heyrt“ (Post 4:19–20).

„Postularnir báru vitni um upprisu Drottins Jesú með miklum krafti, og mikil náð var yfir þeim öllum“ (Post 4:33).

Vitni Péturs

Við vitum einnig að upprisan er raunveruleg. Hinn lifandi Pétur sagði við ráð ofsóknarmanna:

„Guð feðra vorra hefur upp vakið Jesú, sem þér hengduð á tré og tókuð af lífi. …

Vér erum vottar alls þessa, og heilagur andi, sem Guð hefur gefið þeim, er honum hlýða“ (Post 5:30, 32).

Agndofa virðum við fyrir okkur hinn mikla Pétur, sem svo fullkomlega öðlaðist sína fullvissu og sem hafði af svo mikilli náð tekið upp leiðtogaskikkjuna og möttul valdsumboðsins og hugdirfsku þess sem innblásinn er og öruggur. Hvílíkan styrk hann hafði öðlast er hann leiddi hina heilögu og stóð gegn heiminum með öllum hans ofsækjendum, trúleysingjum og erfiðleikum. Og þegar hann aftur og aftur lýsti sinni algjöru vitneskju, dáumst við að þreki hans er hann stóð frammi fyrir múg og prelátum, embættismönnum sem höfðu líf hans í hendi sér, og þegar hann djarflega lýsti því yfir að Drottinn væri upp risinn, friðarhöfðinginn, hinn heilagi og réttláti, höfðingi lífsins, höfðingi og frelsari. Svo sannarlega var Pétur nú öruggur, ósigrandi, hikaði hvergi. Sannfæring okkar ætti að eflast mjög vegna vissu hans. …

Vitnisburður Páls

Vitnisburður Páls virðist mjög afráttarlaus. Hann heyrði rödd hins upprisna Krists:

„Sál, Sál, hví ofsækir þú mig?“ Og til þess að fullvissa sig spurði Sál: „Hver ert þú, herra?“ og hann hlaut svarið: „Ég er Jesús, sem þú ofsækir. [það er erfitt fyrir þig að spyrna gegn broddunum“] (Post 9:4–5, í Biblíu Jakobs konungs).

Og nú fór þessi sami Páll, sem endurheimt hafði styrk sinn, sem meðhöndlaður hafði verið af prestdæminu og fengið hafði sjón sína á ný, hann fór um samkunduhúsin og stóð andspænis Gyðingunum í Damaskus, og „sannaði, að Jesús væri Kristur“ (Post 9:22).

Og síðar kemur Páll til postulanna í Jerúsalem, og Barnabas, talandi um Pál, „skýrði þeim frá, hvernig hann hefði séð Drottin á veginum, hvað hann hefði sagt við hann og hversu einarðlega hann hefði talað í Jesú nafni í Damaskus“ (Post 9:27).

Síðan heldur Páll áfram:

„En er þeir höfðu fullnað allt, sem um hann var ritað, tóku þeir hann ofan af krossinum og lögðu í gröf.

En Guð vakti hann frá dauðum.

Marga daga birtist hann þeim, sem með honum fóru frá Galíleu upp til Jerúsalem, og eru þeir nú vottar hans hjá fólkinu. …

[F]yrirheitið, sem Guð gaf feðrum vorum, hefur hann efnt við oss börn þeirra með því að reisa Jesú upp. …

En um það, að hann reisti hann frá dauðum, svo að hann hverfur aldrei aftur í greipar dauðans“ (Post 13:29–31, 33–34). …

Vitnisburður Josephs Smith

Við erum studd af vitnisburði nútíma spámanns, Josephs Smith, þegar hann fullvissar fólkið um upprisuna. Öldungur George A. Smith vitnar í síðustu opinbera ræðu Josephs Smith sem flutt var í júní 1844, einungis nokkrum dögum áður en hann var myrtur á svo miskunnarlausan hátt:

„Ég er fús til að fórna mér í þágu þessa fólks, því hvað megna óvinir okkar að gera? Þeir geta aðeins deytt líkamann, og þar með lýkur valdi þeirra. Standið keikir, vinir mínir, hopið aldrei. Reynið ekki að bjarga eigin skinni, því sá sem hræðist að deyja í þágu sannleikans, glatar eilífu lífi. Standist allt til enda, og við munum rísa upp og verða líkir Guði, og ríkja í himneska ríkinu, í hátign og eilífum yfirráðum.“1

Spurning og svar Jobs

Spurning Jobs hefur verið endurtekin af milljónum manna sem hafa staðið við opnar líkbörur ástvina: „Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur?“ (Job 14:14).

Og spurningunni hefur verið svarað á ásættanlegan hátt fyrir fjölda þeirra, þegar mikill og ljúfur friður kemur yfir þá eins og dögg af himnum ofan. Og í óteljandi skipti hafa hjörtu sem þreytt voru orðin af kveljandi þjáningu fundið koss þess friðar sem æðri er öllum skilningi.

Og þegar djúp friðsæld sálarinnar hefur veitt nýja og hlýja fullvissu þeim huga sem átti í vanda og hjarta sem var í sárum, gátu hinir fjölmörgu tekið undir með ástkærum Job:

„Ég veit, að lausnari minn lifir, og hann mun síðastur ganga fram á foldu.

Og eftir að þessi húð mín er sundurtætt og allt hold er af mér, mun ég líta Guð.

Ég mun líta hann mér til góðs, já, augu mín sjá hann“ (Job 19:25–27).

Job hafði látið í ljós ósk sína um að vitnisburður hans yrði prentaður í bækur og meitlaður í stein til þess að komandi kynslóðir gætu lesið hann. Ósk hans var uppfyllt, friður hefur fyllt sálir margra er þeir hafa lesið sterkan vitnisburð hans.

Sýn Jóhannesar

Og í lokin langar mig að lesa sýn Jóhannesar opinberara:

„Og ég sá þá dauðu, stóra og smáa, standa frammi fyrir hásætinu, og bókum var lokið upp. Og annarri bók var lokið upp og það er lífsins bók. Og hinir dauðu voru dæmdir, eftir því sem ritað var í bókunum, samkvæmt verkum þeirra.

„Og hafið skilaði hinum dauðu, þeim sem í því voru, og dauðinn og Hel skiluðu þeim dauðu, sem í þeim voru, og sérhver var dæmdur eftir verkum sínum“ (Op 20:12–13).

Og þegar lifandi grænt vorið kemur í stað dapurlegs vetrardauða, lýsir öll náttúran yfir guðdómleika hins upp risna Drottins, að hann var skapari, að hann er frelsari heimsins, að vissulega er hann sonur Guðs.

Heimildir

  1. Joseph Smith í History of the Church, 6:500.

Jesús sagði við hana, „María“ : William Whittaker, © IRI; Lítið á hendur mínar og fætur, : Harry Anderson, © IRI

Gæt þú sauða minna, : Kamille Corry © 1998 IRI