2010
Ég þarf að fara í musterið
Apríl 2010


Ég þarf að fara í musterið

Slys, marga daga og nætur í hópferðabifreið, löng bátsferð og mikill ferðakostnaður hafa ekki haldið aftur af þessum brasilíska bróður að sækja musterið heim.

José Gonçalves da Silva vaknaði skyndilega við að fólk kallaði nafn hans. Það var myrkur og hann hafði enga hugmynd um hvar hann var.

„Ég var sofandi þegar hópferðabifreiðin valt,“ segir José aðspurður um slysið sem varð árla morguns í janúar 2008. „Það gat enginn fundið mig vegna þess að ég var aftast í hópferðabifreiðinni undir farangrinum. Nokkrir bræðranna fundu mig að lokum er þeir voru að ná í töskurnar.“

José og aðrir Síðari daga heilagir frá Manaus í Brasilíu voru um það bil hálfnaðir með þriggja daga ferðalag sitt til Caracas Venesúela-musterisins þegar ökumaðurinn missti stjórn á hópferðabifreiðinni á þröngum og hlykkjóttum vegi í þéttvöxnum regnskógi í suðurhluta Venesúela. José hlaut einungis minniháttar meiðsl en leggja þurfti nokkra bræður og systur sem voru með í förinni inn á spítala.

„Nú er kominn tími til að þú hættir að fara í musterið,“ sögðu áhyggjufullir ættingjar við José sem var áttræður þegar slysið átti sér stað. Hann sagði hins vegar óhikað: „Ég þarf að fara í musterið. Ef Drottinn leyfir það mun ég fara þangað aftur.“

Hann hóf strax að safna peningum fyrir fjórðu ferð sinni til Caracas, sem farin var snemma árs 2009. Fjörutíu klukkustunda ferðalag í hópferðabifreið er auðveld fyrir bróður Gonçalves da Silva í samanburði við fyrri ferðir til São Paulo-musterisins í Brasilíu. São Paulo-musterið, sem er staðsett mörg þúsund kílómetrum suðaustur af Manaus, var í mörg ár næsta musteri fyrir þær tvær milljónir manna sem búa í Amazonas-fylkinu norðanlega í Brasilíu. Árið 2005 varð Manaus hins vegar hluti af umdæmi Caracas Venesúela-musterisins.

Á þeim árum sem farið var til São Paulo „fórum við með báti héðan frá Manaus og það tók fjóra daga að komst til Pôrto Velho, höfuðborgar Rondônia-fylkis,“ segir José. „Síðan tók við fjögurra daga ferðalag í hópferðabifreið til São Paulo. Eiginkona mín er ekki í kirkjunni og þegar ég fór til musterisins í fyrsta sinn árið 1985 fór ég aleinn. Ég varði nóttunni í umferðamiðstöðinni í Pôrto Velho, því ég kom þangað seint og hafði misst af hópferðabifreiðinni. Næsta morgun lagði ég af stað til São Paulo. Þetta var góð reynsla en ég var dálítið þreyttur þegar ég komst á leiðarenda.

Hann varði síðan þremur heilum dögum í að þjóna í musterinu áður en hann hélt aftur í átta daga langa ferð sína heim. Það tekur hann eitt ár að safna nægum peningum af lífeyri sínum til að borga ferðalagið til musterisins.

„Það er fórn fólgin í þessum ferðum en hún er þess virði,“ segir bróðir Gonçalves da Silva, sem hefur unnið mikið staðgengilsverk fyrir fjölskyldu sína. Ég fann fyrir sérstakri gleði daginn sem ég skírðist fyrir föður minn, þegar einhver skírðist fyrir móðir mína og þegar ég kom fram fyrir hönd föður míns er foreldrar mínir voru innsiglaðir. Þetta var dásamlegt tækifæri. Öll systkini mín eru nú látin og hef ég unnið verkið fyrir þau í musterisferðum mínum.“

José trúir því að fórnin sem ferðalag til fjarlægs musteris felur í sér muni fylla Síðari daga heilaga í Manaus þakklæti þann dag sem musteri verður vígt þar. „Ég hlakka mikið til þess dags,“ segir hann.

Í Manaus var ein lítil grein með 20 kirkjuþegnum þegar José skírðist inn í kirkjuna árið 1980. Síðan þá hefur hann séð kirkjuna blómstra og eru þar nú nær 50.000 kirkjuþegnar í átta stikum.

„Þegar tilkynningin um að byggja ætti musteri í Manaus var gefin árið 2007,“ segir José, „grét ég af þeirri miklu gleði sem ég upplifði og ég bað til Drottins að hann myndi leyfa mér að lifa nægilega lengi til þess að sjá fyrstu skóflustunguna tekna,“ en það átti að verða ári síðar. Nú biður hann þess að hann megi lifa til að sjá framkvæmdum við musterið lokið og að eiginkona hans skírist, svo þau geti verið innsigluð.

„Við vitum ekki hvenær við deyjum, en við ættum að vera viðbúin og hamingjusöm þegar sá tími kemur,“ segir bróðir Gonçalves da Silva. „Ég hlakka til að snúa aftur í návist föður míns á himni og frelsara míns, Jesú Krists. Veran í musterinu býr mig undir þann dag.“

Til vinstri: Ljósmynd af Caracas–musterinu í Venesúela © IRI; að ofan til vinstri og hægri: Ljósmyndir: Michael R. Morris

Caracas–musterið í Venesúela.

Að ofan: Rio Negro, þar sem José Gonçalves da Silva hóf átta daga ferð sína til São Paulo-musterisins í Brasilíu.

Að neðan: Bróðir Gonçalves da Silva í 40 klukkustunda ferðalagi í hópferðabifreið til Caracas Venesúela-musterisins. Hann segir að þjónusta í húsi Drottins sé virði þeirrar fórnar sem færa þarf til að sækja musterið heim.