2010
Hið mikla verk Guðs
Apríl 2010


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins

Hið mikla verk Guðs

Ljósmynd
President Dieter F. Uchtdorf

6. apríl 1830

Joseph Smith, Oliver Cowdery og nokkrir aðrir söfnuðust saman fyrir 180 árum síðan til að stofna Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Að sögn allra var þetta einfaldur en andlegur fundur. Joseph skrifaði, að eftir að útdeilingu sakramentisins lauk hafi „heilögum anda [verið] úthellt yfir okkur afar ríkulega ‒ og sumir spáðu, en öll lofuðum við Drottin og fögnuðum ákaft.“1

Heimurinn tók ekki eftir atburðum þessa dags og þeir fengu enga umfjöllun í fjölmiðlum. Hins vegar hljóta himnarnir að hafa glaðst og vegsamað Guð – því að á þessum degi var kirkja Jesú Krists á ný á jörðinni!

Solomon Chamberlain

Í sterkri trú hafa milljónir sona og dætra himnesks föður frá þeim degi til dagsins í dag fylgt rödd heilags anda og stigið niður í skírnarvatnið. Solomon Chamberlain var einn þeirra.

Solomon, andlegur maður sem varið hafði mörgum klukkustundum í bænargjörð og leit að endurlausn synda sinna, bað himneskan föður að leiða sig í sannleikann. Solomon var lofað í sýn, í kringum árið 1816, að hann myndi lifa þar til kirkja Krists, samkvæmt postullegri skipan, yrði stofnsett á ný á jörðunni.

Mörgum árum síðar var Solomon í ferð á báti í átt til Kanada og hafði báturinn viðdvöl í litla bænum Palmyra, New York. Þar fann hann knýjandi afl sem hvatti hann til þess að stíga á land. Hann hóf að ræða við fólkið í bænum, þótt hann vissi ekki hvers vegna hann væri þarna. Ekki leið á löngu þar til hann heyrði talað um „gullna Biblíu.“ Hann sagði að við þessi tvö orð hefði farið um sig „kraftur líkt og rafstraumur, frá hársrótum alveg niður í tær.“

Fyrirspurnir hans leiddu hann að heimili Smith fjölskyldunnar og þar ræddi hann við viðstadda um hinn dásamlega boðskap um endurreisn fagnaðarerindisins. Eftir tveggja daga dvöl, og eftir að hafa hlotið vitnisburð um sannleikann, hélt Solomon áfram ferð sinni til Kanada. Hann hafði með sér 64 nýprentaðar og óinnbundnar blaðsíður úr Mormónsbók. Hvar sem hann fór kenndi hann fólkinu „bæði háum og lágum, ríkum og fátækum, … að búa sig undir hið mikla verk Guðs sem nú var um það bil að hefjast.“2

Hið mikla verk Guðs

Frá þessum degi í apríl 1830 hafa milljónir komist að raun um sannleiksgildi hins endurreista fagnaðarerindis og stigið niður í skírnarvatnið. Ég vitna að þetta „mikla verk Guðs“ er á jörðinni í dag. Ég ber vitni um að Drottinn vakir yfir kirkju sinni og leiðbeinir henni með spámanni sínum, Thomas S. Monson forseta. Það er engin venjuleg blessun að fá að lifa á þessum síðari dögum. Fornir spámenn sögðu fyrir um þennan dýrðlega tíma sem herskarar himins vaka yfir. Drottinn er minnugur kirkju sinnar. Hann man einnig eftir þeim sem, rétt eins og Solomon Chamberlain, fylgja leiðsögn heilags anda og sameinast bræðrum sínum og systrum hvarvetna í heiminum í þessu mikla verki Guðs.

Heimildir

  1. Joseph Smith í History of the Church, 1:78.

  2. “A Short Sketch of the Life of Solomon Chamberlain,” vélritað eintak, Church History Library (á Alnetinu www.boap.org/LDS/Early-Saints/SChamberlain.html); sjá einnig William G. Hartley, “Every Member Was a Missionary,” Ensign, sept. 1978, bls. 23. Joseph Smith skírði Solomon Chamberlain í Seneca-vatninu, New York, nokkrum dögum eftir stofnun kirkjunnar.

Ljósmynd: Matthew Reier, tekin við tökur á kvikmyndinni Joseph Smith: Spámaður endurreisnarinnar

Ljósmynd: Matthew Reier; teikningar: Maryn Roos

Barnasvæði